Fara í leit

Ráðstefna um rafræna þjónustu og upplýsingaaðgengi. 

Ráðstefna Blindrafélagsins.

06.09.2017

Hvað er rafrænt aðgengi og skiptur það máli? Þessari spurningu verður svarað á ráðstefnu sem að Blindrafélagið býður til fyrir hádegi þriðjudaginn 12. september á Hilton Reykjavík Nordica.

Á ráðstefnunni verður farið yfir reglugerðir, stefnumótanir og reynslusögur og mikilvægi þess að hafa og fylgja stefnu og verkferlum þegar kemur að aðgengi að rafrænni þjónustu og upplýsingum. Efni ráðstefnunnar á erindi við alla þá sem bjóða upp á rafræna þjónustu og/eða upplýsingar á rafrænu formi. Kynnt verður hvað felst í góðu aðgengi og hvað þarf til að gera það að veruleika.

Í nútímasamfélagi reiðum við okkur sífellt meira á þjónustu og upplýsingar á netinu. Tæknibylting síðustu ára opnar nýja og spennandi möguleika í upplýsingagjöf og þjónustu. Rafvæðing upplýsinga- og þjónustuferla felur í sér umtalsverða hagræðingu fyrir þjónustuveitendur og vefvæðingin getur líka verið góð fyrir neytendur. Fólk getur nýtt sér rafræna þjónustu hvar og hvenær sem er. Þegar stafrænt efni uppfyllir aðgengisstaðla er hægt að breyta því í texta, hljóð, stækkað letur, punktaletur og önnur aðgengileg form. Þá getur fólk nýtt sér rafræna þjónustu án aðstoðar þegar því hentar. En óaðgengileg vef- eða snjallsímaþjónusta gagnast fólki lítið sem ekkert.

Í ljósi þess að það fjölgar sífellt í hópi tölvunotenda, og þá ekki síst meðal eldri borgar sem farnir eru að glíma við skerta sjón, þá er jafnt aðgengi allra að rafrænni þjónustu og upplýsingum eitthvað sem verður sífellt mikilvægara að tryggja. Ekki bara fyrir notendur heldur líka fyrir veitendur.

Dagskrá:

09:00 Setning ráðstefnunnar.
Sigþór U. Hallfreðsson, formaður Blindrafélagsins.

09:10 Aðgengisstaðlar, löggjöf og stefnur.
Birkir Rúnar Gunnarsson fer yfir mikilvægi þess að fyrirtæki og stofnanir seti sér stefnur og fylgist með aðgengisstöðlum við viðhald og vinnslur á sínum þjónustum og vefsíðum.

09:55 Stjórnarráðsvefurinn og ESB löggjöfin.
Björn Sigurðsson hjá Stjórnarráði Íslands fer yfir nýjan vef stjórnarráðsins og ESB löggjöfina og áhrif hennar.

10:15 Notendaupplifun.
Rósa María Hjörvar sýnir hvernig slæmt og gott aðgengi hefur áhrif á notendur.

10:45 Kaffihlé.

11:00 Notendaprófanir og aðgengisprófanir.
Jóhanna Símonardóttir og Sigrún Þorsteinsdóttir hjá Sjá kynna hvernig farið er yfir aðgengisstaðla og mikilvægi þess að gera notendaprófanir á heimasíðum.

11:30 Stefnumál Reykjavíkurborgar og rafrænt aðgengi.
Edda Jónsdóttir og Hreinn Hreinsson hjá Reykjavíkurborg fara yfir stefnur Reykjavíkurborgar í aðgengismálum.

12:00 Með jafnrétti að leiðarljósi.
Inga Dóra Guðmundsdóttir, Vefstjóri hjá Háskóli Íslands.

12:30 Ráðstefnulok.

Ráðstefnustjóri verður Helgi Hjörvar.

Ráðstefnan hefur Facebook síðu sem hægt er að fylgjast með á þessari slóð:
https://www.facebook.com/events/1371997849581007/

Ráðstefnan er gjaldfrjáls og öllum opin. Skráning fer fram á blind@blind.is eða í síma 525 0000.

Táknmálsnotendur sem að hafa hug á að sækja ráðstefnuna látið vita með tölvupósti á blind@blind.is í seinasta lagi 1. september.