Fara í leit

Sameiginleg rými verða að vera örugg

15.10.2017

Yfirlýsing World Blind Union vegna dags Hvíta stafsins 2017 

15. október er dagur Hvíta stafsins, en þeim degi er ætlað að auka meðvitund meðal almennings um öryggi og sjálfstæði blindra og sjónskertra. Hvíti stafurinn er algengasta umferlishjálpartæki sem blindir og sjónskertir nota um allan heim. Hann er viðurkenndur um allan heim sem tákn um frelsi, sjálfstæði og sjálfstraust, þar sem hann gerir blindri eða sjónskertri manneskju kleift að ferðast um frjálst og örugglega. 

Þegar World Blind Union heldur nú upp á dag Hvíta stafsins, vill það beina athygli fólks að sameiginlegum rýmum, sem eru æ algengari tilhneiging í skipulagi miðbæjarkjarna, en þar deila sama rými gangandi vegfarendur, akandi og hjólandi. WBU óttast það að slík sameiginleg rými geti stofnað öryggi blindra og sjónskertra verulega í hættu, séu þau ekki nógu vel hönnuð. WBU hefur samið yfirlýsingu um sameiginleg rými (-sjá hlekk neðst), sem lýsir ákveðnum grundvallarreglum og ráðleggingum sem ríkisstjórnir og skipuleggjendur borga geta velt fyrir sér við hönnun og ákvörðun sameiginlegra rýma, til að tryggja blindum og sjónskertum gott aðgengi og öryggi. 

World Blind Union hefur líka sett á laggirnar nefnd, sem stýrt er af Martine Abel-Williamson, gjaldkera WBU, til að fylgjast með málefnum tengdum sameiginlegum rýmum og móta frekari viðmiðunarreglur og tillögur. Martine Abel-Williamson bendir á að í sameiginlegum rýmum horfist gangandi, akandi og hjólandi í augu til að gefa til kynna að þau séu að deila sameiginlegu rými. Hins vegar sé „blint og sjónskert fólk illa sett, þar sem við getum ekki horfst í augu við ökumenn og hjólafólk til að vita hvort þau hafa séð okkur eða ekki og ákveðið hvenær sé öruggt að fara inn í sameiginlegt rými.“ Hún bendir líka á að hjóðlátir/hljóðlausir bílar skapi aukna hættu fyrir blinda og sjónskerta, því það sé sérstaklega erfitt að taka eftir þeim í sameiginlegum rýmum, vegna þess hve hljóðlátir þeir eru. 

Martine Abel-Williamson heldur því fram að ríkisstjórnir og skipuleggjendur borga eigi að tryggja að gangandi, akandi og hjólandi vegfarendur séu meðvitaðir um hvernig nota eigi sameiginleg rými á öruggan hátt. „Við viljum líka að viðeigandi tæknilegar reglur varðandi örugg sameiginleg rými, séu settar í umferðarlög ríkja og reglugerðir sveitarstjórna.“ 

World Blind Union er eindregið þeirrar skoðunar að blint og sjónskert fólk eigi að búa í heimi sem er aðgengilegur, öruggur og auðveldur til að ferðast um. Í tilefni dags 

Hvíta stafsins hvetur WBU ríkisstjórnir, skipuleggjendur borga og aðra sem hlut eiga að máli, að leita ráða hjá blindu og sjónskertu fólki og taka tillit til þess við gerð áætlana um sameiginleg rými, framkvæmd skipulags þeirra og vöktun. 

World Blind Union hvetur líka til frekari rannsókna á sameiginlegum rýmum og almennrar meðvitundar um þau, en það teljum við að hafi úrslitaáhrif við að auka öryggi gangandi vegfarenda, sér í lagi blindra og sjónskertra. 

Hægt er að lesa yfirlýsingu WBU um sameiginleg rými í heild á vefsíðunni: http://www.worldblindunion.org/English/our-work/Pages/Position-Statements.aspx 

(Haraldur Matthíasson sneri úr ensku)