Fara í leit

Íbúðir Blindrafélagsins

Í húsi Blindrafélagsins að Hamrahlíð 17 eru um 20 leiguíbúðir sem leigðar eru út til félagsmanna í langtímaleigu. Auk þess eru tvær gestaíbúðir og eitt gestaherbergi leigð út til skamms tíma í senn til félagsmanna og aðstandenda þeirra.

 

Reglur um úthlutun leiguíbúða í eigu Blindrafélagsins og grundvöllur leiguverðs.

 Reglurnar eru frá því í janúar 2002.

Almennt. Blindrafélagið er skuldbundið til að fylgja ákvæðum reglugerðar 873/2001 um lánveitingar til leiguíbúða, ráðstöfun þeirra og rekstur sem félagsmálaráðuneytið gaf út 7. nóvember 2001 og kveður m.a. á um ýmis atriði er varða leiguíbúðir félagasamtaka. Reglugerðin setur félagasamtökum ákveðin skilyrði sem uppfylla þarf til að fá lán frá Íbúðalánasjóði til byggingar, kaupa eða uppbyggingar á leiguhúsnæði. Ákvæði eru um tekju- og eignamörk leigjenda, réttarstöðu þeirra og hvað það er sem ákvarðar leigufjárhæðir.

Ákvörðun um úthlutun íbúða er á ábyrgð framkvæmdastjóra og skal hann kalla sér tiil ráðgjafar 2 af starfsmönnum félagsins og félagsráðgjafa á Þjónustu og þekkingamiðstöðinni fyrir blinda sjónkserta og daufblinda einstaklina.* Úthlutunarreglur eru grundvallaðar á ofangreindri reglugerð og skulu umsóknir metnar af félagsráðgjafa félagsins á grundvelli þeirra.

 Það er stefna Blindrafélagsins að þær íbúðir sem félagið á og rekur, standi undir sér í leiguverði.

Réttur til leiguíbúða (Úr VI kafla reglugerðar 873/2001).

Réttur til íbúðarhúsnæðis er bundinn skilyrðum um tekju- og eignamörk og félagslegar aðstæður umsækjanda.

Félagslegar aðstæður. Við mat á félagslegum aðstæðum skal m.a. líta til eftirfarandi aðstæðna umsækjanda:

  1. Núverandi húsnæðisaðstæðna
  2. Fjölskylduaðstæðna, þ.á.m. fjölskyldustærðar og fjölda barna
  3. Heilsufars og vinnugetu

Tekjumörk. Tekjumörk miðast við að meðaltekjur nemi, miðað við heilt ár, eigi hærri fjárhæð en 4.236.960 kr. fyrir hvern einstakling og 707.200 kr. fyrir hvert barn að 20 ára aldri sem býr á heimilinu. Viðmiðunartekjur hjóna skulu vera 40% hærri en hjá einstaklingi, þ.e. 5.932.160 kr. Fjárhæðir taka breytingum samkvæmt breytingum á vísitölu neysluverðs janúarmánaðar ár hvert miðað við grunnvísitölu.

Við mat á því hvort umsækjandi um leiguhúsnæði er undir tekjumörkum skal líta til tekna umsækjanda samkvæmt ljósriti af skattframtali fyrir síðasta ár, staðfest af skattstjóra, og launaseðlum þess árs þegar umsókn um leiguhúsnæði er afgreidd. Með tekjum er átt við heildartekjur einstaklings, hjóna eða sambúðarfólks. Húsaleigubætur teljast ekki til tekna. Upphæðir hafa verið framreiknaðar til janúar 2015.)

Eignamörk. Eignamörk miðast við heildareign að frádregnum heildarskuldum samkvæmt ljósriti af skattframtali fyrir síðasta ár, staðfest af skattstjóra. Eignamörkeru 4.576.000 kr. Fjárhæð tekur breytingum samkvæmt breytingum á vísitölu neysluverðs janúarmánaðar ár hvert miðað við grunnvísitölu. (Upphæðir hafa verið framreiknaðar til janúar 2015.)

Undanþáguheimildir. Blindrafélaginu er heimilt að víkja frá ákvæðum um tekjur þegar umsækjendur hafa orðið fyrir meiri háttar röskun á stöðu og högum vegna atvinnuleysis, veikinda, fráfalls maka eða af öðrum ástæðum. Með sama hætti er heimilt að víkja frá ákvæðum um eignir þegar um er að ræða umsækjendur sem búa við ófullnægjandi húsnæðisaðstöðu eða geta illa nýtt sér núverandi húsnæði vegna sjónskerðingar.

Ákvörðun leigufjárhæðar. (Úr VIII kafla reglugerðar 873/2001).

Leiga skal svara til fjárhæðar sem nemur samanlögðum kostnaði af eftirtöldum útgjöldum:

  1. Ársvöxtum, afborgunum og verðbótum af áhvílandi láni Íbúðalánasjóðs.
  2. Vaxtakostnaði af nauðsynlegu framlagi, þó að hámarki sömu vextir og eru á hverjum tíma af almennum lánum Íbúðalánasjóðs.
  3. Fasteigna- og brunabótaiðgjöldum af íbúðinni ef framkvæmdaraðili ákveður að þau gjöld falli undir leigu. Sama gildir um húseigendatryggingu.
  4. Kostnaði við viðhald íbúðar og sameignlegt viðhald fjöleignarhúss.
  5. Kostnaði er til fellur við umsjón með daglegum rekstri leiguhúsnæðis, svo sem við sameiginleg þrif, sorphreinsun og húsvörslu, ef framkvæmdaraðili ákveður slíkt fyrirkomulag og að kostnaður vegna slíkra þátta falli undir leigu.

Leigan greiðist með jöfnum mánaðarlegum greiðslum.

Blindrafélagið stefnir að því að húsaleiga af íbúðum félagsins verði ekki hærri en hjá Öryrkjabandalagi Íslands og öðrum sambærilegum hagsmuna- og félagasamtökum.

Varðandi frekari útfærslu á reglum þessum vísast til reglugerðar 873/2001.

Reglur þessar taka gildi frá og með 1. janúar 2002

Reykjavík  desember 2001.

Frekari upplýsingar fást á skrifstofu félagsins í síma 525 0000.

* Ákvæðið um hvernig staðið skuli að úthlutun hefur verið breytt frá upprunalegum samþykktum frá 2001 þannig að nú koma fleiri að úthutuninni.