Styrktarsjóður Margrétar Jónsdóttur

Skipulagsskrá Styrktarsjóðs Margrétar Jónsdóttur

1.  grein

Sjóðurinn heitir Styrktarsjóður Margrétar Jónsdóttur.  Hann er stofnaður 1. febrúar 2006 með erfðafé sem Blindrafélaginu var ánafnað í erfðaskrá eftir Margréti.  Heimili og varnarþing sjóðsins er í Reykjavík.  Sjóðurinn er í vörslu  Blindrafélagsins, kt. 470169-2149, Hamrahlíð 17, 105 Reykjavík.

2.   grein

Tilgangur sjóðsins er að styrkja foreldra/forráðamenn barna allt að 18 ára aldri sem greinst hafa blind eða með alvarlega augnsjúkdóma.  Sjóðurinn veitir einungis styrki vegna verkefna eða hluta sem eru ekki styrktir af almannatryggingum, félagsþjónustu sveitafélaga eða af öðrum opinberum stofnunum eða sjóðum sem koma að málum blindra og sjónskertra barna.

3.   grein

Stofnframlag sjóðsins (bundinn höfuðstóll) er erfðafé úr dánarbúi Margrétar Jónsdóttur (06.11.1905 - 30.09.2003),  samtals kr. 5.600.000 – fimm milljónir og sexhundruð þúsund 00/100. Stofnframlag sjóðsins má ekki skerða.  Stofnframlag sjóðsins telst óskert ef það breytist milli ára um sem nemur breytingu á neysluverðsvísitölu,  til hækkunar eða lækkunar í árslok.

Tekjur sjóðsins eru eftirfarandi:

  1. Vextir og arður af eignum sjóðsins.
  2. Fé og annað verðmæti sem safnast í nafni sjóðsins.

Sjóðinn skal ávaxta á hagkvæmastan hátt á hverjum tíma.  Ekki má við ávöxtun sjóðsins taka áhættu sem gæti haft neikvæð áhrif á tilgang sjóðsins.

Heimilt er að úthluta árlegri ávöxtun sjóðsins að teknu tilliti til neysluverðsvísitölu, sem verður hluti af bundnum höfuðstól sjóðsins, eins og að framan greinir.

Reikningsár sjóðsins skal vera almanaksárið.  Reikningar sjóðsins skulu endurskoðaðir af endurskoðanda Blindrafélagsins og þeir birtir með sama hætti og aðrir reikningar þess.

4.   grein

Sjóðnum skal skipuð sérstök sjóðsstjórn sem kemur saman þegar þörf krefur en þó hið minnsta einu sinni á ári.  Stjórnina skulu skipa 5 fulltrúar:  2 tilnefndir af Blindrafélaginu, 2 tilnefndir af aðstandendum Margrétar heitinnar og 1 tilnefndur af Þjónustu- og þekkingarmiðstöð blindra, sjónskertra og daufblindra einstaklinga eða félagi augnlækna, og skal hann vera fagmaður á sviði augnsjúkdóma. Hlutverk sjóðsstjórnar er að annast úthlutun styrkja. Sjóðstjórn ber að halda formlega fundagerðarbók um starf sitt og skal afrit af fundargerðum skilað til stjórnar Blindrafélagsins.

5.   grein

Styrki skal veita úr sjóðnum einu sinni á ári og skulu þeir auglýstir opinberlega eða á annan þann hátt sem stjórnin telur fullnægjandi.  Stjórninni er heimilt að hafna umsókn-um sem hún telur ekki fullnægja skilyrðum til úthlutunar.  Stjórnin ákveður upphæð styrkja sem mega vera breytilegir.  Ekki er skylt að úthluta árlegri ávöxtun sjóðsins á hverju ári.  Sé það ekki gert, hækkar ráðstöfunarfé sjóðsins til úthlutunar sem því nemur næsta/næstu ár á eftir.

6.   grein

Stjórn sjóðsins skal ákveða hverju sinni hvort viðbótarframlög í sjóðinn skulu leggjast við bundin höfuðstól hans eða því varið til úthlutunar styrkja.  Einfaldur meirihluti skal ráða ákvörðunum stjórnar.

7.   grein

Heimilt skal vera að sameina sjóðinn öðrum sjóðum með samskonar eða hliðstæðan tilgang en til þess þarf samþykki allra stjórnarmanna.  Verði sjóðurinn lagður niður renna fjármunir hans til málefna tengdum tilgangi hans.

8. grein

Skipulagsskráin var upphaflega samþykkt þann 1. febrúar 2006. Breytingar á skipulagsskránni voru samþykktar á fundi stjórnar sjóðsins þann 28. júní 2010 og þann 9. Febrúar 2016.