Bakhjarlakerfi Blindrafélagsins

Nýverið sendi Blindrafélagið öllum bakhjörlum félagsins smá glaðning í tilefni þess að á þessu ári eru liðin 80 ár frá stofnun félagsins. Allir bakhjarlar fengu sendan gleraugnaklút sem þakklætisvott fyrir stuðninginn við starfsemi félagsins.

Frá því að Blindrafélagið var stofnað hafa verkefni félagsins orðið sífellt flóknari og er það ekki síst tilkomið vegna hins stafræna veruleika og þeirra áskorana sem honum fylgja. Hin stafræna bylting getur fært blindum og sjónskertum einstaklingum fjöldamörg tækifæri ef tryggt er að stafræn verkfæri og upplýsingar séu aðgengileg - og þar gegnir Blindrafélagið lykilhlutverki.

Það er fyrst og fremst stuðningur vinveittra einstaklinga við starfsemi Blindrafélagsins sem gerir félaginu kleift að sinna öllum þeim mikilvægu verkefnum sem félagið vinnur að í dag - og bíða félagsins í náinni framtíð. Frekari upplýsingar um starfsemina má finna á vefsíðu félagsins.

Til að geta betur mætt áskorunum framtíðarinnar hefur verið ákveðið að freista þess að uppfæra bakhjarlakerfi félagsins. Á næstu vikum mun verða haft samband við alla bakhjarla Blindrafélagsins og þeim kynntar þessar breytingar og þeim boðið að uppfæra stuðning sinn við félagið. Allir sem að uppfæra stuðning sinn við félagið munu framvegis fá frá félaginu Leiðsöguhundadagatal félagsins sent heim til sín í desember, án endurgjalds. Að auki munu allir bakhjarlar félagsins njóta sjóntryggingar upp á 10 milljónir króna vegna sjónmissi að völdum slysa. Vonir standa til þess að bakhjarlar félagsins taki vel í þessa málaleitan.