Fundargerð félagsfundar Blindrafélagsins, haldinn 22. mars 2018 að Hamrahlíð 17.

Fundargerð félagsfundar Blindrafélagsins, haldinn 22. mars 2018 að Hamrahlíð 17.

Megin efni fundarins: Kynning á niðurstöðum Gallup-kannana sem nýlega voru gerðar fyrir Blindrafélagið.

 

1. Formaður félagsins Sigþór U. Hallfreðsson setti fundinn kl. 17.00 og bauð fundarmenn velkoma. Hann gat þess að fundinum væri streymt í gegnum vefvarp félagsins.

Formaður sagði að bæði Blindrafélagið og Blindravinnustofan hefðu komið vel rekstrarlega sé undan vetri. Hann fór svo með eftirfarandi vísu:

"Hér um stundir ég staðar nem,

stari, spyr og svara.

Hver ég er og hvaðan ég kem

og hvert ég er að fara".

Þá nefndi hann að félagið hefði allt frá árinu 2009 fengið Gallup til þess að gera fyrir sig reglulegar kannanir á viðhorfum félagsmanna, stuðningsmanna og almennings til félagsins, og upplýsingar sem þannig væri aflað, reyndust í gegnum tíðina ákaflega verðmætar við að skipuleggja áherslur og starfsemi félagsins.

Þá vék hann að væntanlegum viðhaldsframkvæmdum utan húss að Hamrahlíð 17, sem munu hefjast innan skamms. Framkvæmdum hefur verið skipt upp í þrjá áfanga.

Hann ræddi einnig um framkvæmdir innanhúss. Á liðnu ári var sett nýtt hljóðkerfi í sal félagsins og nýlega var skipt um lýsingu í salnum. Sett leiðniljós í stað flúorljósanna sem fyrir voru. Nýja lýsingin er mun betri fyrir sjónskert fólk, birtan hlýrri, hægt að stilla þau á ýmsa vegu og leiðniljósin eru ódýr í rekstri.

Formaður kvaðst skynja góðan anda innan félagsins og mikla velvild frá almenningi í garð þess. Sem dæmi sagði hann frá höfðinglegri gjöf Önnu Lindu Guðmundsdóttur og Björns Víðissonar eigenda Heyrnartækni til styrktar leiðsöguhundaverkefni félagsins. Þau höfðu séð leiðsögudagatal og ákváðu af því tilefni að styrkja verkefnið um eina milljón króna. Fundarmenn klöppuðu fyrir þessu ágæta fólki.

Blindrafélagið hefur nú gerst aðili að nýrri netsíðu, studningsnet.is. Netsíðan var sett upp í samstarfi landlæknisembættisins og nokkurra sjúklingasamtaka. Tilgangurinn með stuðningsnetinu er að þeir sem greinst hafa með alvarlega sjúkdóma eða orðið fyrir slysum geti fengið jafningjafræðslu og stuðning frá netstuðningsfulltrúa, en það er fólk, sem miðlar af eigin reynslu. Þannig getur fólk sem hefur orðið fyrir augnslysi eða greinst með alvarlegan augnsjúkdóm leitað sér liðsinnis áður en það er komið inn í trúnaðarmannakerfi félagsins eða hefur leitað til Þjónustu og þekkingarmiðstöðvarinnar.

Formaður fagnaði þeim langþráða áfanga að Kópavogsbær hafi nú loksins skrifað undir samning við Blindrafélagið um ferðaþjónustu fyrir lögblinda íbúa Kópavogs, sambærilegan þeim samningi, sem er í gildi á milli Blindrafélagsins og velferðarsviðs Reykjavíkurborgar.

Hann þakkaði framkvæmdastjóra Blindrafélagsins og öðrum sem komu að þessum samningi. Fundarmenn klöppuðu lof í lófa.

Í lok setningarræðu sinnar vék formaður að mjög fjölbreyttu starfi innan félagsins og þakkaði þeim sem þar hafa lagt hönd á plóginn og setti fundinn formlega. Upplýsti að skemmtinefnd myndi útdeila páskaeggjum til fundarmanna sem Þórarinn Þórhallsson félagi okkar gaf.

 

2. Þá kynntu fundarmenn sig. Alls voru 31 á fundinum, þar af 3 til 4 utan félags.

 

3. Gengið var til kjörs fundarstjóra og fundarritara. Eyþór Kamban Þrastarson var kjörinn fundarstjóri og Gísli Helgason fundarritari. Báðir með einróma samþykki.

 

4. Fundargerð síðasta félagsfundar frá 9. nóvember var borin upp til samþykktar. Var hún samþykkt með öllum greiddum atkvæðum gegn tveimur.

 

5. Þá kynnti Kristján Pétursson frá Gallup niðurstöður skoðanakannana sem gerðar voru fyrir Blindrafélagið á þessu ári. Um var að ræða skoðanakannanir á meðal almennings, stuðningsmanna og félagsmanna.

Könnunin á meðal almennings var framkvæmd 7. til 19. febrúar sl. og unnið var með 834 svör sem er hefðbundinn fjöldi svara í þessari könnun.

Spurt var m.a. um ímynd nokkurra félagasamtaka, Krabbameinsfélagið, Blindrafélagið, Sjálfsbjörg, Öryrkjabandalag Íslands, Stígamót, S O S-barnaþorp og Hjálparstofnun kirkjunnar.

Notaður var einkunnaskalinn frá 1 til 7, Krabbameinsfélagið skoraði hæst með einkunnina 6, þar á eftir var Blindrafélagið í öðru sæti með 5,8 og hafði hækkað á milli ára.

86,6% aðspurðra voru jákvæð gagnvart félaginu en 0,8% neikvæð.

Spurt var um miklu fleiri hluti, þ. á. m. hvaða fjáröflunarleiðir fólki líkaði best.

Til máls tóku um þessa könnun Magnús Jóel Jónsson, Steinar Björgvinsson og Sigþór U. Hallfreðsson.

 

Þá var næst farið yfir niðurstöður könnunar á meðal stuðningsmanna félagsins en úrtakið var 800 manns. Svarhlutfall var um 50% þannig að unnið var með um 400 svör. Síðar kom fram að þetta úrtak er hluti af skrá yfir 20.000 manns sem hafa styrkt Blindrafélagið á undanförnum árum.

Spurt var um m. a. hvað af eftirtöldu hefði mest áhrif á lífsgæði fólks. Fólk nefndi í eftirtalinni röð:

Lömun, sjónmissi/sjónskerðingu, heilablóðfall, krabbamein, geðraskanir, ms, hjartasjúkdóma ýmsa, heyrnarmissi og alnæmi.

Hvað ímynd varðar skoraði Blindrafélagið hæst.

Varðandi fjáröflunarleiðir voru styrktarmannakerfi og valkröfur vinsælastar og svo kom happdrætti þar á eftir.

Um 99% þátttakenda studdu ýmis samtök. Fjárhæðin hefur hækkað verulega hjá fólki á milli ára, frá 44.000 og upp í 55.000 kr. að meðaltali. Í þessum hópi var Blindrafélagið vinsælast til þess að hljóta styrki.

Spurt var um Víðsjá, rit Blindrafélagsins. 77% flettu eða lásu blaðið, 23% lásu það alls ekki. Í niðurstöðunum var þetta greint nánar.

68% fólks var ánægt með efnistökin í blaðinu og hefur þeim fækkað nokkuð en eftir því sem fólk les blaðið betur eykst ánægjan með efnistök.

Að lokum var boðið upp á opnar spurningar um efnistök í Víðsjá.

Eftir kynningu á þessari könnun voru umræður og fyrirspurnir. Til máls tóku:

Karl Berndsen, Kristinn Halldór Einarsson, Magnús Jóel Jónsson og  Gísli Helgason.

 

Þá var farið yfir niðurstöður könnunar á meðal félagsmanna Blindrafélagsins.

Þar var unnið með um 300 svör, 46,5% svarhlutfall sem telst gott.

Spurt var um hvað af eftirtöldu myndi hafa neikvæð áhrif á lífsgæði.

Flestir félagsmanna nefndu alvarlega sjónskerðingu eða sjónmissi. Þá var næst nefnt heilablóðfall, lömun. Vakin var athygli á að lömun myndi hafa neikvæðust áhrif hjá almenningi. Þá var nefnt krabbamein, heyrnamissir, geðraskanir, ms-sjúkdóminn, hjartaáföll og alnæmi. Í könnuninni er greint hlutfall þeirra sem svöruðu.

Þá var spurt hvað félagsmenn teldu mikilvægast fyrir blint eða sjónskert fólk. Mikilvægast var bætt aðgengi að ferðaþjónustu og þar á eftir að auðvelda blindu og sjónskertu fólki að búa eitt. Síðar voru nefndir auknir atvinnumöguleikar og meiri aðgangur að menntun og bætt aðgengi að upplýsingum.

Spurt var hvort félagsmenn teldu að Blindrafélagið sinnti réttindabaráttu blindra og sjónskertra vel eða illa. 92% sögðu henni vel sinnt, 2,9% sögðu henni sinnt illa.

Niðurstaðan er afgerandi og ánægjan eykst á milli ára.

90,5% félagsmanna voru ánægð með þjónustu Blindrafélagsins og 3,5% óánægð. Miklu meiri ánægja virðist með þjónustu Blindrafélagsins en víða annars staðar.

Þá var spurt hvað væri mikilvægast. Það var Hljóðbókasafnið, Ferðaþjónusta Blindrafélagsins og verslun með hjálpartæki. Þar á eftir komu persónuleg ráðgjöf, Valdar greinar, trúnaðarmannakerfið, vefvarp Blindrafélagsins, félagsstarf Blindrafélagsins þar með opið hús og félagssamkomur, leiguíbúðir og heimasíða Blindrafélagsins.

Næst kom ný spurning þar sem spurt var hversu marga klukkutíma á sólarhring fólk notaði tölvur eða snjallsíma vegna vinnu eða skóla. Um 50% nota þessi tæki ekkert. Tæplega 13% nota tækin 1 - 2 klst. á sólarhring. 11% 3 - 4 klst. Sama hlutfall 5 - 7 klst. og 16% 8 klst. eða meira.

Að meðaltali notar fólk tölvur eða snjallsíma í vinnu eða skóla í rúmar 5 klst.

Í framhaldi var spurt hversu margir notuðu tölvu eða snjallsíma í frítíma sínum. 42% nota ekki tækin í frítíma sínum. Um 16% um 1 klst. 18% 2 klst. 11% í 3 - 4 klst. og 5% í 7 klst. eða lengur.

Að meðaltali notar fólk tölvur eða snjallsíma í um 3 klst. í frítíma sínum.

Þá var önnur ný spurning þar sem spurt var hversu mikinn eða lítinn áhuga fólk hefði á að fá sé leiðsöguhund. 16,4% hafa mikinn áhuga, 72% hafa lítinn áhuga og þeir sem eru hlutlausir eru um 11%.

Og spurt var af hverju fólk vildi ekki leiðsöguhund. 75% sögðust ekki hafa þörf fyrir hund, 8% segja að hundahald sé ekki leyft þar sem fólkið býr, 3,8% segjast ekki getað sinnt honum, aðrir tala um of mikla bindingu, hræðslu við hunda og að það sé of kostnaðarsamt að hafa leiðsöguhund.

Einnig var spurt um þátttöku í heimilishaldi, vinnu og námi. Vinna og nám hefur aukist.

Nánari greining á þessum atriðum eru í niðurstöðum kannananna sem hafa verið birtar á heimasíðu Blindrafélagsins. Einnig er hljóðritun af fundinum á heimasíðu félagsins, www.blind.is.

  Þá hófust fyrirspurnir og umræður. Til máls tóku: Rósa María Hjörvar, Gísli Helgason, Sigurjón Einarsson, Rósa Ragnarsdóttir, en þau spurðu út í nokkra þætti könnunarinnar. Til orðaskipta kom á milli Gísla Helgasonar og formanns félagsins um framsetningu á kynningunni.

Rósa Ragnarsdóttir benti á að gera mætti könnunina aðgengilega félagsmönnum. Sigurjón Einarsson benti á að Blindrabókasafnið væri ekki hluti af þjónustu Blindrafélagsins.

Þar með lauk kynningu á niðurstöðum kannananna og stóð kynningin yfir í um 90 mínútur.

 

6. önnur mál:

Til máls tóku:

Rósa María Hjörvar formaður kjaramálahóps Öryrkjabandalags Íslands. Hún talaði um ýmis mál sem hópurinn er að vinna að og hvatti fólk til dáða á 1. maí með því að mæta í kröfugöngu á vegum Öryrkjabandalagsins.

Baldur Snær Sigurðsson formaður skemmtinefndar hvatti fólk til þess að mæta á páskagleði félagsins annað kvöld.

 

7. fundarslit

Formaður ræddi um mikilvægi jafningjastuðnings í tilefni málsháttar sem hann fékk í páskaegginu sínu frá skemmtinefnd fyrr á fundinum. En málshátturinn var svona:

"þar sem einn hjálpar öðrum þá eru báðir sterkir."

Hann þakkaði fyrir góðan fund og sleit fundi kl. 19.10.

 

Reykjavík 22. október 2018

 

fundargerð ritaði Gísli Helgason.