Fundargerð aðalfundar 13. maí, 2023.

Fundargerð aðalfundar Blindrafélagsins 13. maí 2023 

1. Fundarsetning.

Formaður Blindrafélagsins Sigþór U. Hallfreðsson setti fundinn kl. 13:00 á 83. starfsári félagsins. Hann nefndi að félagslífið hafi verið í miklum blóma, á dagskrá hafi verið nýir viðburðir og að reksturinn hafi verið góður.

2. Kosning fundarstjóra og fundarritara.

Stjórn gerði tillögu um að Hjörtur Heiðar Jónsson yrði fundarstjóri og Marjakaisa Matthíasson fundarritari. Tillagan var samþykkt.

3. Lögmæti fundarins kannað.

Boðað var á aðalfund þann 14. apríl á miðlum félagsins, á heimasíðunni, í Vefvarpinu og í fréttabréfinu sem var 4 vikum fyrir aðalfund eins og stendur í lögum félagsins. Fundurinn var því lögmætur.


4. Kynning fundarmanna

Fundarmenn kynntu sig með nafni. Alls sóttu 46 félagsmenn fundinn: 41 í salnum og 5 rafrænt á Zoom.

5. Fundargerð síðasta aðalfundar borin upp til samþykktar

Fundargerðin var samþykkt með flestum atkvæðum.

 

6. Inntaka nýrra félaga

Mónika Elísabet Kjartansdóttir las upp nöfn nýrra félagsmanna. Alls voru þeir 69 talsins. Þeir voru samþykktir í félagið.

7. Látinna félaga minnst

Mónika Elísabet Kjartansdóttir las upp nöfn þeirra félagsmanna sem létust á árinu. Þeir voru 54 talsins. Þeirra var minnst með einnar mínútu þögn.

 

8. Skýrsla stjórnar um störf félagsins á síðastliðnu ári

S.U.H. nefndi að í fyrsta skipti á hans kjörtíma væri meirihluti aðalstjórnar konur. Félagið hefur 20 starfsmenn í 14,5 stöðugildum, af þessum starfsmönnum eru 12 sjónskertir eða blindir.

 

Skv. mælingu Gallups bera yfir 60 % íbúa landsins mikið traust til Blindrafélagsins. Félagið hefur öflugan hóp bakhjarla og stendur eigin fjáröflun félagsins undir 60% af starfsemi þess. Einnig er niðurstaða ársreikningana okkur hagstæð.

 

Samkvæmt S.U.H. er hægt að hugsa Hamrahlíð 17 sem þjónustukjarna sem er til hagsbóta fyrir blinda og sjónskerta. Leigutekjur styðja við starfsemina, og getum við verið þakklát þeim sem á sínum tíma ákváðu að byggja þetta hús fyrir félagið. Stóra verkefnið núna er stækkunin á húsinu. Bygging sjötta hæðarinnar er í fullum gangi og gengur skv. áætlun. Tilgangurinn er að skapa Sjónstöðinni betra umhverfi, hugsanlega meira rými fyrir augnlækna og að fá Hljóðbókasafnið aftur heim. Fyrir sjónskerta er mun einfaldara að sækja þjónustu heim á einum stað.

 

S.U.H. nefndi einnig að 722 félagsmenn væru með ferðaþjónustusamning í 14 sveitarfélögum. Hann lagði áherslu á að félagsmaðurinn á rétt á þjónustunni, ekki félagið, þannig að þörf fyrir þjónustuna þarf að vera til staðar hjá félagsmanninum.

 

S.U.H. nefndi einnig samstarfið með Almannaróm og máltækniáætlun. Það er gríðarlega mikilvægt að fá íslensku raddirnar í notkun sem fyrst og að raddirnar sem Almannarómur er að þróa verði viðurkenndar sem kerfisraddir hjá Google og fleiri aðilum.

 

9. Kynning og afgreiðsla ársreikninga félagsins og sjóða sem eru í eigu félagsins

Endurskoðandi félagsins, Gerður Þóra Björnsdóttir hjá KPMG fór yfir lykiltölur úr ársreikningi félagsins. Rekstrartekjur á árinu voru 303 miljónir en rekstrargjöld 287 miljónir og var þá afkoma fyrir afskriftir og fjármagnsliði rúma16 miljónir en fyrir fjármagnsliði er hún 4,7 miljónir. Í heild sinni var rekstrarafkoma -1,9 miljónir. Eignir félagsins voru 1,4 milljarðar.

 

Ákveðið var að taka umræður um skýrslu formanns og ársreikninga samtímis. Svavar Guðmundsson spurði um laun framkvæmdastjóra, konu hans og formanns. Bókari félagsins Kristín Waage svaraði fyrirspurninni með upplýsingum um tölur.

 

Það urðu umræður um komu Hljóðbókasafnsins í Hamrahliðina. S.U.H. áréttaði að ekkert hafi enn verið ákveðið en vissulega væri æskilegt að fá safnið aftur í Hamrahlíðina.

Yfirgnæfandi meirihluti fundarmanna samþykkti ársreikningana.

 

10. Kosning tveggja aðalmanna og tveggja varamanna í stjórn

Í framboði voru eftirtaldir félagsmenn. Þeir kynntu sig á fundinum. Samtals kusu 82 félagsmenn og féllu atkvæðin þannig:

Gísli Helgason 14

Guðmundur Rafn Bjarnason 40

Halldór Sævar Guðbergsson 45

Kaisu Kukka-Maria Hynninen 49

Rósa Ragnarsdóttir 25

Svavar Guðmundsson 14

Unnur Þöll Benediktsdóttir 47

Þorkell Jóhann Steindal 26

 

Kaisu Hynninen og Unnur Þöll Benediktsdóttir voru kjörnar sem aðalmenn og Halldór Sævar Guðbersson og Guðmundur Rafn Bjarnason sem varamenn.

 

11. Lagabreytingartillögur

Engar lagabreytingartillögur lágu fyrir fundinn.

 

12. Árstillag félagsmanna og gjalddagi þess

Stjórn lagði til að árstillag félagsmanna verði 4.500 krónur með gjalddaga í febrúar sem þýðir hækkun um 500 krónur. Tillagan var samþykkt með 21 atkvæði en 13 greiddu atkvæði á móti.

  

13. Kosning í kjörnefnd.

Stjórn félagsins lagði til óbreytta kjörnefnd: Bessi Gíslason, Brynja Arthúrsdóttir, Sigtryggur R. Eyþórsson og Harpa Völundardóttir sem varamann. 

Engar aðrar tillögur bárust og var því kjörnefndin sjálfkjörin. 


14. Kosning tveggja skoðunarmanna

Þeir eru kosnir annað hvort ár, og þá næst árið 2024.

 

15. Aðalfundur ákveður laun stjórnarmanna

Stjórn félagsins lagði til að laun stjórnarmanna yrði 10.000 krónur fyrir hvern stjórnarfund ásamt undirbúning. Þetta er hækkun um 1.000 krónur. Aðrar tillögur bárust ekki. Tillagan var samþykkt með flestum atkvæðum.

 

16. Önnur mál. 

Stjórnin bar upp tvær ályktanir, sjá viðhengi 1:

1. Máltækniáætlun –til framtíðar

Fundarstjórinn las upp ályktunina og Rósa María Hjörvar lagði áherslu á hversu mikilvægt mál þetta sé og að það snúi að undirstöðum aðgengis. Hún hvatti félagsmenn til að styðja við ályktunina. Gísli Helgason spurði hvernig henni verði fylgt eftir. Baldur Snær Sigurðsson útskýrði að félagið taki nú þegar virkan þátt í þessari vinnu og hefur þegar fengið boð um að taka þátt í þróun næstu skrefa í máltækniáætluninni. Mannréttindavinkillinn er mjög mikilvægur í þessu samhengi. Samþykkt aðalfundar gefur málinu einnig meiri þunga. Ályktunin var samþykkt samhljóða.

 

2. Hamrahlíð 17 – þjónustukjarni

Gísli Helgason vildi bæta við nafni Hljóðbókasafnsins í ályktunina. Kristinn Halldór Einarsson var sammála Gísla, það væri í samræmi við stefnu félagsins. Nokkrir félagsmenn efuðust um hvort Hljóðbókasafnið ætti að koma í húsið. Nú þegar er erfitt að fá bílastæði og umferðin í húsið gæti aukist. Aðrir bentu á að flestir fái bækur að láni rafrænt. Auk þess gæti Sjónstöðin og Hljóðbókasafnið starfað betur saman ef þau væru undir sama þaki. Ályktunin var samþykkt samhljóða með þeirri breytingu að bæta nafni Hljóðbókasafnsins í textann

 

Bergvin Oddsson hrósaði aðgengi á rafrænum kosningum. Hann velti því fyrir sér hvort ein af gestaíbúðum ætti að vera tekin í langtímaleigu. Það var hins vegar bent á að það sé þörf á gestaíbúðum. Eyþór hvatti yngri félagsmenn til að nýta endurhæfingaríbúðina og dvelja þar til að læra athafnir daglegs lífs.

 

Hlynur Þór Agnarsson auglýsti pallborðsumræður um foreldrahlutverkið sem verður tekin upp í Hljóðbroti.

 

17. Fundarslit

Formaðurinn kom með áskorun til fundarmanna og minnti á siðareglur félagsins. Hann þakkaði fyrir málefnalegar umræður og sleit fundinn kl. 16:20.