Lionshreyfingin á Íslandi safnar fé á nokkurra ára fresti til góðra málefna undir merkinu „Rauða fjöðrin“. Nú hefur Lionshreyfingin og Blindrafélagið tekið höndum saman um átak til að tryggja framboð af leiðsöguhundum í landinu til nýrra notenda og til endurnýjunar þeirra hunda sem nú þegar eru til staðar.
Samstarf Lions og Blindrafélagsins stendur á gömlum merg enda hefur Lionshreyfingin stutt við blinda og sjónskerta með myndarlegum hætti víðs vegar um heiminn í liðlega 100 ára sögu hreyfingarinnar.
Í þessari landssöfnun Lionshreyfingarinnar undir merkjum rauðu fjaðrarinnar er það nýmæli að styrkþeginn, Blindrafélagið, kemur mun meira að verkefninu með virkri þátttöku en í fyrri söfnunum, enda er þörfin brýn. Söfnunin er upphafsátak í þriggja ára verkefni Blindrafélagsins um fjölgun leiðsöguhunda.
Stefnt er á að sala á rauðu fjöðrinni hefjist í byrjun apríl.