Fara í leit

Dóra og Karl nýjar íslenskar talgervilsraddir

Árið 2010 tók Blindrafélagið um það ákvörðun að hafa forgöngu um smíði á nýjum íslenskum talgervli.  Markmiðið var að smíða íslenskar talgervilsraddir sem stæðust samanburð við það besta sem þekkist í erlendum málum. Pólska fyrirtækið Ivona var valið til verksins.

Talgervilinn var tilbúinn til notkunar um mitt ár 2012 og fór þá í dreifingu. Talgervilinn er með tveimur SAPI5 röddum, kvenmannsröddinni Dóru og karlmannsröddinni Karli. Þó dreifing sé hafin þá mun áfram verða unnið að því að bæta gæði talgervilsins. Talgervilsraddirnar er hægt að nota í dag í Windows stýrikerfum og á Android tækjabúnaði.

Árið 2013 keypti Amazon Ivona fyrirtækið (sjá hér)  sem hefur haft í för með sér að íslensku raddirnar Karl og Dóra eru nú hluti af vöriuvali Amazon  (sjá hér).

Endurgjaldslaus úthlutun textalesara

Þeir sem eiga rétt á endurgjaldslausri úthlutun textalesarans eru blindir, sjónskertir, lesblindir og aðrir sem sökum skerðinga geta ekki lesið með hefðbundnum hætti. Úthlutanir fara fram í gegnum Blindrafélagið, Þjónustu og þekkingarmiðstöðina fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga og Hljóðbókasafn Íslands. Þjónustuþegar miðstöðvarinnar eiga þess kost að fá aðstoð við uppsetning talgervilsins. Félagsmenn Blindrafélagsins geta haft beint samband við Blindrafélagið. Þeir sem eru lesblindir þurfa að fá staðfestingu hjá Hljóðbókasafni Íslands um að þeir séu þar í þjónustu. Slíka staðfestingu skal senda á: afgreidsla@blind.is og verða þá nauðsynleg gögn og upplýsingar sendar í tölvupósti.

Verð á textalesaranum fyrir þá sem ekki eiga rétt á endurgjaldslausri úthlutun

Einstaklingar, skólar, stofnanir og fyrirtæki geta fengið talgervilinn keyptan frá Blindrafélaginu. Pantanir og fyrirspurnir um tilboð skal senda á afgreidsla@blind.is

Hægt er að kaupa talgervilinn í vefverslun Blindrafélagsins.

Fjármögnun verkefnisins

 • Styrktarsjóður Richards P Thedórs og Dóru Th. Sigurjónsdóttur (Erfðafjárgjöf til Blindrafélagsins)  25,0 m.kr.
 • Blindravinafélagið      5,0 m.kr.
 • Framkvæmdasjóður fatlaðra  15,0 m.kr.
 • Heilbrigðis-, mennta og Velferðráðuneyti  11,3 m.kr.
 • Lions, landssöfnunin Rauða fjöðrin   19,3 m.kr.
 • Öryrkjabandalag Íslands  10,0 m.kr.
 • Samtals  85,6 m.kr.

Eldri upplýsingar má sjá hér fyrir neðan.

 Talgervill - Texti í Tal

Talgervill er hugbúnaður sem breytir texta í tal. Talgervla hægt er að keyra á ýmis konar vélbúnaði svo sem tölvum, fartölvum, símum, hraðbönkum, mp3 spilurum og fleiru. Talgervilinn breytir texta á tölvutæku formi í upplestur. Gæði talgervla eru metin út frá því hversu góður upplesturinn er og hversu nálægt  náttúrulegum upplestri. Með því að ýta á hnappinn "Hlusta" á þessari síðu er hægt að heyra lestur talgervils (vefþulunnar Röggu) lesa þennan texta.

Hljóðdæmi af nýja íslensk talgervlinum frá Ivona

Hér má hlusta á:

 • Upplestri Röggu og Snorra (núverandi íslenskir talgervlar) á smá textabrot úr Lísu í undralandi
 • Upplestri Dóru og Karls (prufuútgáfa af nýja Ivona talgervlinum) á smá textabrot úr Lísu í undralandi.
 • Upplestri Dóru og Karls á texta úr íslenskri kennslubók í sögu.
HLUSTA

Bætt lífsgæði - Fyrir hverja?

Þetta verkefni mun hafa mikil og jákvæð áhrif á lífsgæði þeirra mörg þúsund einstaklinga sem ekki geta lesið með hefðbundnum hætti, hvort sem er vegna blindu, sjónskerðingar, lesblindu, hreyfihömlunar eða af öðrum ástæðum. Vandaður talgervill getur einnig verða öllum almenningi til bæði gagns og gamans. Nýr vandaður íslenskur talgervill mun jafnframt hafa mjög jákvæð áhrif á starfsemi Hljóðbókasafns Íslands og Þjónustu og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda sjónskerta og daufblinda einstaklinga. Afnot af nýjum íslenskum talgervli munu verða endurgjaldslaus fyrir þá sem metnir eru að þurfa á talgervli að halda sökum fötlunar eða lesblindu.

Íslensk málrækt

Nýr vandaður íslenskur talgervill er  mjög mikilvægt sem málræktarverkefni. Það eru nefnilega talgervlar sem ráða því hvernig íslenska er lesin í tölvuheimum. Öll lifandi tungumál búa yfir vönduðum talgervli. Með tilkomu góðs íslenskt talgervils er betur hægt að nýta íslenskun á ýmsum hugbúnaði sem notendur hafa orðið að keyra á ensku hingað til. Mikilvægi góðs íslensks talgervils er meðal þess sem fjallað er um í Íslenskri málstefnu, gefinni út af Menntamálaráðuneytinu árið 2009 (bls. 62)

Samstarfsaðilar

Fjölmargir aðilar koma að þessu verkefni með Blindrafélaginu, þeir eru helstir:

Vigdis

Hlusta á stutt ávarp Vigdísar..
Meginskilgreiningar

Verkefna-og stýrihópur hefur verið starfandi fyrir verkefnið frá því í sumar. Hans helsta hlutverk hefur verið að finna framleiðanda sem getur mætti þeim megin þörfum og væntingum sem skilgreind hafa verið fyrir verkefnið, en þær  eru:

 • Gæði – Að hlustunargæði verði eins og best þekkist í erlendum hágæða talgervlum og upplesturinn verði eins réttur og nokkur kostur.
 • Notkunarsvið – Að talgervilinn geti unnið á þeim stýrikerfum sem við skilgreinum mikilvægust.
 • Leyfisgjaldafyrirkomulag og eignarréttur – Að talgervilinn verði þjóðareign og í vörslu Blindrafélagsins og þeir einstaklingar sem þurfa að nota talgervil og þær stofnanir sem sinna þjónustu við blinda, sjónskerta og aðra lesfatlaða fái talgervilinn endurgjaldslaust.
 • Áframhaldandi þróun - Að hægt verði að þróa talgervilinn áfram í samstarfi við aðila á Íslandi, svo sem eins og Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík.
 • Sveigjanleiki - Að hægt verði, í samstarfi við framleiðanda, að flytja talgervilinn yfir á ný tæki og stýrikerfi þegar þau ná útbreiðslu og almennum vinsældum, eða uppfylla áður óuppfyllta þörf fatlaðra hvað varðar aðgengi að upplýsinga og samskiptatækni.

Sérfræðingar verkefnisins

Helstu fræðilegu ráðgjafarnir í þessu verkefni eru Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor í íslensku við Háskóla Íslands og Jón Guðnason, doktor í rafmagnsverkfræði og sérfræðingur í talmerkjafræði við Háskólann í Reykjavík. Aðrir sérfræðingar eru: Hlynur Hreinsson og Birkir Rúnar  Gunnarsson, báðir eru sérfræðingar í tölvuhjálpartækjum hjá Þjónustu og þekkingarmiðstöð fyrir blinda sjónskerta og daufblinda einstaklinga. Birkir er auk þess tölvuforritari og notandi tölvuhjálpartækja fyrir blinda og sjónskerta.

Framleiðandi

Að undangengnu gæðamati og verðkönnun meðal allra helstu talgervilsframleiðenda í heiminum og út frá þeim meginskilgreiningum sem settar voru fram fyrir nýjan íslenskan talgervil hefur pólska fyrirtækið Ivona verið valið til að smíða talgervilinn. Bresku blindrasamtökin (RNIB) hafa átt mjög gott samstarf við þetta fyrritæki. Fyrirtækið hefur einnig verið að fá verðlaun fyrir talgervlana sína á sýningum á undanförnum árum.  Frekari upplýsingar um Ivona fyrirtækið, aðferðarfræði þeirra við talgervlasmíðina, helstu samstarfsaðilaverðlaun og viðurkenningar, má finna á heimasíðu fyrirtækisins. Þar má einnig heyra hlustunardæmi frá þeim talgervlum sem Ivona software hefur eða er með í framleiðslu.

TTS_accuracy_report_scheme_2011

IVONA fyrirtækið kom nýlega langbest út úr áreiðanleikasamanburði sem tæknitímaritið ASR stóð fyrir. Í þessum samanburði var IVONA talgervilin borinn saman við talgervla frá Microsoft, AT&T, Nuance og fleiri. Þessi samanburður leiðir í ljós, að mati ASR tímaritsins, að IVONA eru fremsti í heiminum í framleiðslu talgervla. Sjá hér fréttatilkynningu.

Kostnaður og tímaáætlanir

Stefnt er að því að kynna prufu (beta) útgáfu talgervilsins á degi íslenskrar tungu 16 nóvember 2011 og talgervilinn verði síðan tilbúinn til notkunar í mars eða apríl 2012. Áætlaður framleiðslukostnaður er 495 þúsund evrur. Heildarkostnaður í íslenskum krónum er áætlaður um 80 - 85 milljónir króna. Áætlanir liggja fyrir um fjármögnun framleiðslukostnaðar og er stór hluti fjármögnunar tryggður.

Fjárhagslegur samanburður á talgervlum

Hér má sjá fjarhagslegan samanburð á Ivona valkostinum við þá tvo íslensku talgervla sem nú eru til, sem eru Ragga og Snorri. Ekki liggja fyrir upplýsingar um frameliðslukostnað þeirra talgervla og því vantar þær stærðir inn í samanburðinn. En bara með því að gera samnabiurðinn út frá núverandi leyfisgjöldum, sem þarf að greiða fyrir þá talgervla, kemur í ljós hversu hagkvæmur kostur Ivona er.  

Grunnforsendur:
Framleiðslukostnaður: 80 milljónir
Fjöldi leyfa: 6 þúsund

Samanburður                                              Ivona                Ragga (Nuance)           Snorri (Acapella)

Stakt leyfisgjald                                                0 kr.                    18 þúsnd kr.               130 þúsund kr
Fjöldi leyfa innifalið í framleiðslukostnaði            6 þúsund .             0                                 0
Kostnaður við 6 þúsnd leyfi                             80 milljónir kr        108 milljónir kr             780 milljónir kr  
Fjöldi radda                                                   Tvær (kk og kvk)    Ein (kvk)                     Ein (kk)

Hljóðdæmi

Hér má hlusta á hljóðdæmi af bæði erlendum og innlendum talgervlum:
Amy enskur talgervill frá Ivona
Brian enskur talgervill frá Ivona
Ragga íslenskur talgervill
Snorri íslenskur talgervill

Lions á Íslandi styrkir talgervlaverkefnið með sölu Rauðu fjaðrarinnar 8 – 10 apríl 2011

Mikilvægur hluti af fjármögnun talgervlaverkefnisins var sala Lions manna á Rauðu fjöðrinni helgina 8 – 10 apríl 2011. Enn allur afrakstur sölunnar, um 20 milljónir króna, rann til styrktar talgervlaverkefninu.  Lionshreyfingin og félagsmenn eiga  miklar þakkir skyldar fyrir þetta mikla og rausnarlega framlag til að bæta lífsgæði þeirra mörg þúsund íslendinga sem ekki geta lesið með hefðbundnum hætti sökum fötlunar. 

Talgervlaverkefnid