Bakhjarlar

Um og yfir 90% þeirra fjármuna sem Blindrafélagið þarf til að halda úti mikilvægri starfsemi og þjónustu er sjálfsaflafé. Bakhjarlar Blindrafélagsins gegna þar mjög mikilvægu og vaxandi hlutverki . Að vera bakhjarl Blindrafélagsins felur það í sér að styrkja félagið reglulega með greiðslu tiltekinnar upphæðar. 

Allir bakhjarlar sem að greiða mánaðarlegar greiðslur til Blindrafélagsins eru tryggðir uppá 10 miljónir króna fyrir augnslysum sem valda sjónmissi, auk þess sem þeir fá Í upphafi hvers árs sent leiðsöguhundandadagatal Blindrafélagsins án endurgjalds.

Bakhjarlaskráning.

Bakhjarlar Blindrafélagsins hafa rétt til að taka þátt í starfsemi félagsins en í 5 greina laga Blindraféagsins segir:

Aðrir en að ofan greinir geta gerst bakhjarlar Blindrafélagsins og hafa þeir málfrelsi og tillögurétt á fé­lags­­fundum. Bakhjarlar félagsins eru kjör­geng­ir til trún­aðarstarfa á vegum félagsins og hafa þá óskor­aðan atkvæðisrétt á fundum stjórna og nefnda sem þeir eru kjörnir til setu í.

 

Skráning fer fram á bakhjarl@blind.is eða í síma 525 0000.

Skilmálar sjónmissistryggingar vegna slysa 2020.

Sjónmissistrygging Blindrafélagsins
ÚTDRÁTTUR
1. Til hvers tekur vátryggingin
1.1 Vátryggingin tekur til slyss sem vátryggður verður fyrir og veldur varanlegum sjónmissi (blindu) innan 12 mánaða frá slysdegi. Með sjónmissi í meðfylgjandi skilmálum er átt við þegar sjón hans verður minni en 5% með venjulegum sjónglerjum og innan við 10 gráðu sjónsvið.
2. Hvar gildir vátryggingin
Vátryggingin gildir hvar sem er í heiminum
3. Félagið bætir ekki:
a. slys sem beint eða óbeint eru af völdum kjarnabreytinga, jónandi geislunar, mengunar af geislavirkum efnum, kjarnaeldsneytis og kjarnaúrgangsefnis eða af völdum styrjaldar, innrásar, hernaðaraðgerða, borgararósta, uppreisnar, uppþots eða svipaðra aðgerða,
b. slys sem beint eða óbeint eru af völdum jarðskjálfta, eldgoss, flóða, skriðufalla, snjóflóða eða annarra náttúruhamfara,
c. slys er vátryggður verður fyrir í handalögmáli eða við þátttöku í refsiverðum verknaði,
d. slys sem verða vegna ljósbaða, lækningameðferðar, skurðaðgerðar eða lyfjanotkunar, nema það sé að læknisráði vegna bótaskylds slyss,
e. slys sem orsakast af matareitrun, drykkjareitrun eða neyslu nautnalyfja,
f. slys eða sjúkdóma vegna hvers konar líffræðilegra eða efnafræðilegra áhrifa og/eða eitrunar, þ.m.t. (þar með talið) vegna sýkla og veira, af völdum hryðjuverka,
g. hvers konar tjón, beint eða óbeint, sem rekja má til asbests.
h. slys sem verða vegna þátttöku með beinum eða óbeinum hætti í:
i. köfun þar sem öndunartækja þarf við, klettaklifri, fjallamennsku eða hellakönnun án nauðsynlegra öryggistækja, kappreiðum eða hvers kyns kappakstri án augnhlífa.
ii. akstri eða notkun bifhjóls eða léttra bifhjóla í flokki I og II skv. skilgreiningu umferðarlaga, án augnhlífa.
4. Hvað ber vátryggðum að gera í kjölfar slyss
4.1 Vátryggðum ber að leita læknis strax eftir að slys hefur borið að höndum, gangast undir nauðsynlegar læknisaðgerðir og fara í öllu að fyrirmælum læknis.
4.2 Tilkynna skal slys til félagsins þegar í stað á þar til gerðum eyðublöðum félagsins, ef unnt er, en annars á annan hátt til bráðabirgða.
4.3 Þegar slys ber að höndum, er félaginu heimilt að láta ráðgefandi lækni sinn skoða vátryggðan.
4.4 Þegar læknishjálp lýkur eða þegar unnt er að dæma um afleiðingar slyssins þannig að fullnægt sé skilyrðum bótaskyldu skv. 9. gr., skal senda félaginu læknisvottorð og bótakröfu.
4.5 Félagið greiðir læknisvottorð sem aflað er að beiðni þess.
4.6 Sá sem á rétt til bóta úr vátryggingunni glatar þeim rétti ef ekki er gerð krafa um bætur til félagsins innan árs frá því að hann fékk vitneskju um þau atvik sem hún er reist á, sbr. 1. Mgr. 124. Gr. laga um vátryggingarsamninga.
5. Bætur fyrir varanlegan sjónmissi
5.1 Verði um að ræða varanlegan sjónmissi þarf að liggja fyrir vottorð augnlæknis sem staðfestir að skilyrði gr. 9.1. í meðfylgjandi vátryggingarskilmálum séu uppfyllt. Fer um greiðslu bóta skv. skilmálum.
6. Hver á rétt á bótum
6.1 Vátryggður er rétthafi bóta og er óheimilt að tilnefna annan sem rétthafa.
Fyrirvari: Þetta er einungis útdráttur úr skilmálum 346 að beiðni Blindrafélagsins og er þetta ekki tæmandi talning á því sem fram kemur í vátryggingarskilmálum. Vátryggingarskilmálarnir gilda og varðandi nánari útfærsluatriði er vísað til þeirra. Vátryggðum er bent á að kynna sér vel vátryggingarskilmálana.