Hægt er að kaupa dagatalið hér.

Dagatal þetta er gefið út af Blindrafélaginu, samtökum blindra og sjónskertra á Íslandi ár hvert. Tilgangurinn með útgáfu dagatalsins er að fjármagna kaup á leiðsöguhund fyrir blinda einstaklinga.
Á Íslandi eru starfandi sextán leiðsöguhundar fyrir blinda og sjónskerta og er mikilvægt að viðhalda verkefninu. Þörfin fyrir leiðsöguhunda er til staðar, bæði fyrir nýja notendur og þá sem missa hundana sína á eftirlaun. Þjálfun leiðsöguhunds er mjög sérhæfð og tímafrek.
Leiðsöguhundar hafa sömu stöðu og margir vinnuhundar líkt og lögreglu- og björgunarhundar þ.e. þeir mega fara um allt.
Hundarnir eru gríðarlega öflugt hjálpartæki og veita notendum mikið frelsi og öryggi. Þeir aðstoða blinda og sjónskerta að komast leiðar sinnar á öruggan og sjálfstæðan hátt. Leiðsöguhundar eru sérþjálfaðir m.a. í því að forðast hindranir á gönguleið, bæði jörðu og höfuðhæð, hindra að notandi hrasi, stöðva við öll gatnamót, finna staura við gangbrautir, bekki og laus sæti á biðstofum og fylgja eftir fjöldan allan af skipunum notenda sinna.
Hver leiðsöguhundur getur unnið á bilinu 8-10 ár og allan þann tíma, á hverjum einasta degi, bætir hundurinn lífsgæði notanda síns umtalsvert.
Bakhjarlar Blindrafélagsins fá þetta dagatal sent til sín og um leið val um að styðja við leiðsöguhundaverkefnið í gegnum heimabankann sinn.