Skipulagsskrá STS

 

1. grein.

Sjóðurinn heitir Stuðningur til sjálfstæðis – Styrktarsjóður Blindravinafélags Íslands og Blindrafélagsins, samtaka blindra og sjónskertra á Íslandi. Sjóðurinn er stofnaður  23  mars  2011með fimmtán milljóns króna afmælisgjöf frá Blindravinafélagi Íslands til Blindrafélagsins, samtaka blindra og sjónskertra á Íslandi, í tilefni af 70 ára afmæli Blindrafélagsins þann 19. ágúst 2009.

Þá tekur sjóðurinn við Menntunarsjóði til blindrakennslu, er stofnaður var 3. maí 2007 til að styrkja fagfólk til sérnáms sem tengist kennslu og þjónustu við blinda og sjónskerta einstaklinga, og falla allar eignir Menntunarsjóðsins til þessa sjóðs við stofnun, jafnframt því sem sjóðurinn yfirtekur allar skuldbindingar Menntunarsjóðsins.

Námssjóður blindra, sem stofnaður var árið 1978 um dánargjöf Guðmundar Guðjónssonar, Ljósafossi, rennur einnig inn í sjóðinn sem og allar hans eignir. Eftirstöðvar af söfnun Ungblindar, sem safnaðist með sölu geisladiska árin 2006 og 2007, sem hefur verið nýtt til hjálpartækjastyrkja, rennur einnig inn í sjóðinn.

Sjóðurinn er eign og í vörslu Blindrafélagsins, samtaka blindra og sjónskertra á Íslandi, kt. 470169-2149.

2.   grein

Tilgangur sjóðsins er að veita:

 1. Náms-, ferða- og ráðstefnustyrkir til fagfólks sem starfa með blindum og sjónskertum einstaklingum, eða að hagsmunamálum þeirra .

 2. Náms-, ferða-, endurhæfingar- og ráðstefnustyrki til félagsmanna Blindrafélagsins.

 3. Styrki til félagsmanna Blindrafélagsins til kaupa á hjálpartækjum og öðrum mikilvægum búnaði.

 4. Verkefnastyrkir til verkefna sem eru hagsmunum blindra og sjónskertra til framdráttar.

Nánari skilgreiningar og reglur skulu settar í úthlutunarreglum fyrir hvern og einn styrktarflokk.

3.   grein

Stofnframlag sjóðsins er:

 • Afmælisgjöf Blindravinafélags Íslands til Blindrafélagsins á 70 ára

  afmæli þess þann 19 ágúst 2009 (15.000.000) nú:    kr. 16.126.727

 • Eignir Menntunarsjóðs til blindrakennslu,                    kr. 10.270,000

 • Eignir Námssjóðs blindra                                             kr.   5.893.000

 • Eftirstöðvar söfnunar Ungblindar                                 kr    4.524.000

 • Samtals                                                                       kr  36.813.727

 Allir upphaflegir fjármunir sjóðsins og framtíðar tekjur skulu frjálsar til úthlutunar samkvæmt mati stjórnar sjóðsins hverju sinni og eftir því sem þessi skipulagsskrá kveður á um.

Tekjur sjóðsins eru eftirfarandi:

 1. Vextir og arður af eignum sjóðsins.

 2. Fé og annað verðmæti sem safnast í nafni sjóðsins.

 3. Gjafir og erfðarfé sem renna til sjóðsins.

Sjóðinn skal ávaxta innan á sem  hagkvæmastan hátt á hverjum tíma.  Ekki má við ávöxtun sjóðsins taka áhættu sem gæti haft neikvæð áhrif á tilgang sjóðsins. Ákvarðanir um ávöxtunarleiðir skul teknar af stjórn sjóðsins og lagðar fyrir stjórn Blindrafélagsins til staðfestingar.

Reikningsár sjóðsins skal vera almanaksárið.  Reikningar sjóðsins skulu birtast með reikningum Blindrafélagsins og vera endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda eða Ríkisendurskoðun.

4.   grein

Stjórn Blindrafélagsins skipar í stjórn sjóðsins, sem skal skipuð 5 einstaklingum. Leitað skal tilnefninga frá Hljóðbókasafninu, Blindravinafélagi Íslands, frá Háskóla Íslands eða annarri sambærilegri stofnun og Þjónustu og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblind einstaklinga. Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum.  Stjórn Blindrafélagsins er ekki skylt að fara að tilnefningunum við skipun í sjóðsstjórnina.

Stjórnarfundur í sjóðsstjórninni er lögmætur hafi allir stjórnarmenn verið sannanlega boðaðir, og meirihluti þeirra er viðstaddur . Stjórnarformaður boðar til stjórnarfunda og stýrir þeim og kemur fram fyrir hönd stjórnar. Einfaldur meirihluti skal ráða við ákvarðanatökur í stjórn sjóðsins. Gerðarbók skal halda yfir fundi stjórnar og skulu þær staðfestar af öllum viðstöddum fundarmönnum. Afrit af fundargerðum skal sendur stjórn Blindrafélagsins.

Skipunartími sjóðsstjórnarinnar skal vera 2 ár.

 

 

5.   grein

Stjórn sjóðsins skal gera tillögu að úthlutunarreglum fyrir hvern styrktarflokk sem staðfestar skulu af stjórn Blindrafélagsins, sama á við um breytingar á úthlutunarreglum. Stjórnin skal jafnframt gera tillögu um heildarupphæð til úthlutunar fyrir hvert almanaksár og hvern styrktarflokk sem jafnframt skal staðfestast af stjórn Blindrafélagsins.

.

6.   grein

Styrki skal veita úr sjóðnum eigi sjaldnar en einu sinni á ári og skulu þeir auglýstir opinberlega. Umsóknir um styrki skulu stílaðar á Styrktarsjóðinn, en stjórninni er heimilt að hafna umsóknum sem hún telur ekki fullnægja skilyrðum til úthlutunar. Við úthlutun skal geta aðildar Blindravinafélags Íslands að Styrktarsjóðnum. Stjórnin ákveður upphæð styrkja sem mega vera breytilegir.

Blindrafélagið skal leggja stjórn sjóðsins til starfsmann eftir þörfum.

 

7.   grein

Breytingar á stofnskrá þessari skulu samþykktar af stjórn Blindrafélagsins og þurfa 5 af 9 aðal og varamönnum að vera samþykkir breytingatillögu til að hún öðlist gildi. Stjórn sjóðsins getur lagt til breytingar og skulu þær tillögur teknar til afgreiðslu innan stjórnar Blindrafélagsins.

8.   grein

Um starfsemi sjóðsins fer eftir því sem segir í lögum nr. 19/1988 um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá. Staðfestingar sýslumanns skal leitað á skipulagsskrá þessari og breytingum sem kunna að vera gerðar á henni.

 

9.   grein

Skipulagsskrá þessi var samþykkt á stjórnarfundi Blindrafélagsins  20 apríl  2011.