Skipulagsskrá fyrir sjóðinn “Blind börn á Íslandi”

1.  grein
Sjóðurinn heitir “Blind börn á Íslandi”.  Hann er stofnaður 1. janúar 2006 á grunni eldir sjóðs með sama nafni.  Stofnframlag í hinn nýja sjóð skal vera hrein eign fyrrgreinds eldri sjóðs eins og hún var skilgreind í  ársreikningi í árslok 2004. Heimili og varnarþing hins nýstofnaða sjóðs er í Reykjavík.  Sjóðurinn er í vörslu Blindrafélagsins, kt. 470169-2149, Hamrahlíð 17, 105 Reykjavík.

2.   grein
Sjóðnum skal varið til að styrktar blindum og sjónskertum börnum  á Íslandi, allt að 18 ára aldri. Sjóðurinn veitir einungis styrki vegna atburða og eða hluta sem eru annars ekki styrktir af almannatryggingum, Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra, félagsþjónustu sveitafélaga eða af öðrum stofnunum eða sjóðum sem koma að málum blindra og sjónskertra barna.
 
3.   grein
Stofnfé sjóðsins (bundinn höfuðstóll) er, eins og frá er skýrt í grein nr. 1 hér að framan, hrein eign hins eldra sjóðs eins og hún var, samkvæmt ársreikningi í árslok 2004, kr. 1.671.239, - Einmilljón sexhundruð sjötíu og ein tvö hundruð þrjátíu og níu 00/100 -. Stofnfé sjóðsins má ekki skerða.  Stofnfé sjóðsins telst óskert ef það breytist milli ára um sem nemur breytingu á neysluverðsvísitölu, til hækkunar eða lækkunar í árslok.
Tekjur sjóðsins eru eftirfarandi:
1.      Vextir og arður af eignum sjóðsins.
2.      Fé og annað verðmæti sem safnast í nafni sjóðsins.
3.      Gjafa- og erfðafé hverskonar.
Sjóðinn skal ávaxta á hagkvæmasta hátt á hverjum tíma.  Ekki má, við ávöxtun sjóðsins, taka áhættu sem gæti haft neikvæð áhrif á tilgang sjóðsins.
Heimilt er að úthluta árlegri ávöxtun sjóðsins að teknu tilliti til hækkunar samkvæmt neysluverðsvísitölu, sem verður hluti af bundnum höfuðstól hans, eins og að framan greinir.  Ennfremur er heimilt að úthluta öllu því fé öðru sem sjóðnum áskotnast, án undantekninga.
Reikningsár sjóðsins skal vera almanaksárið. Reikningar sjóðsins skulu endurskoðaðir af endurskoðanda Blindrafélagsins og þeir birtir með sama hætti og aðrir reikningar þess.

4.   grein
Sjóðnum skal skipuð sérstök sjóðsstjórn sem kemur saman þegar þörf krefur en þó hið minnsta tvisvar á ári.  Stjórnin skal skipuð 3 einstaklingum samkvæmt tilnefningu stjórnar Blindrafélagsins.  Blindrafélagið leggur sjóðnum til starfsmann honum að kostnaðarlausu, sem þó heyrir undir stjórn sjóðsins.  Starfsmaður sjóðsins skal sjá um að auglýsa, vinna uppgjör, undirbúa fundi og framkvæma árkvörðun stjórnar.  Sjóðsstjórninni ber að halda formlega fundargerðarbók um starfs sitt.

5.   grein
Auglýsa skal styrki úr sjóðnum tvisvar á ári í mars og september og skulu umsóknir hafa borist eigi síðar en 1. apríl og 1. október.  Úthluta skal styrkjum úr sjóðnum annarsvegar á sumardaginn fyrsta á vori og hinsvegar fyrsta vetrardag á hausti. Umsóknir skulu vera skriflegar og þeim fylgja kostnaðaráætlun vegna þess sem sótt er um styrk til.  Stjórn sjóðsins hefur heimild til að úthluta allt að 70% af andvirði þess sem styrkt.  Sé styrks ekki vitjað innan árs þá fellur hann niður.

6.   grein
Verði sjóðurinn lagður niður renna fjármunir hans til málefna tengdum tilgangi sjóðsins. Ekki er hægt að leggja sjóðinn niður af öðrum ástæðum en kveðið er á um í lögum og ekki án þess að sjóðsstjórn sé einhuga um þá ákvörðun.

7.  grein
Um starfsemi sjóðsins fer eftir því sem segir í lögum nr. 33/1999 um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá.

Staðfestingu dómsmálaráðherra skal leitað á skipulagsskrá þessari og breytingum sem kunna að verða gerðar á henni.

Reykjavík, 27. maí 2008