Deildir innan Blindrafélagsins

Deildir innan Blindrafélagsins eru ýmist landshlutadeildir eða deildir sem starfa að tilteknum málefnum skilgreindra hópa, svo sem tiltekna augnsjúkdóma eða aldurshópa.

Til að komast í samband við deildir félagsins skaltu hafa samband við skrifstofu félagsins í síma 525 0000, eða senda póst á netfangið blind@blind.is.

Viðburðir hjá deildum eru auglýstir á viðburðardagalinu á heimasíðu félagsins, í fréttabréfinu, í vefvarpinu og á Facebook síðum deilda.

AMD deild

AMD stendur fyrir Age Macular Degeneration, eða aldursbundin augnbotnahrörnun. AMD er lang algengasta ástæða blindu og alvarlegrar sjónskerðingar meðal eldra fólks.

Foreldradeild

Foreldradeild blindra og sjónskertra barna er vettvangur foreldra og barna til að kynnast hvort öðru og byggja upp félagstengsl. Við leitumst eftir því að veita þeim sem eru uppalendur blindra og/eða sjónskertra barna stuðning frá foreldrum til foreldris.

Foreldrar sækja til hvers annars styrk, félagsskap og mikilvægar upplýsingar sem koma að góðum notum við þau margvíslegu verkefni sem felast í því að ala upp blint eða sjónskert barn.

Það eru fjölmargar spurningar sem koma upp varðandi uppeldi blindra og sjónskertra barna og iðulega þarf að glíma við önnur vandamál og úrlausnarefni en flestir aðrir foreldrar fást við. Til að einangrast ekki er besta leiðin að koma sér upp öflugu tengslaneti fólks í svipuðum aðstæðum. 

Facebook hópur foreldradeildar.

Norðurlandsdeild

Norðurlandsdeildin er vettvangur þeirra sem búa á Akureyri og nágrenni til að koma saman, kynnast, miðla sameiginlegri reynslu og skemmta sér.

Félagar deildarinnar hittast að jafnaði einu sinni í mánuði og ræða þá ýmis málefni, fara saman í leikhús, út að borða, halda þorrablót o.fl.

Retina Ísland (RP deild)

RP-deildin er sameiginlegur vettvangur þeirra sem hafa greinst með arfgenga hrörnunarsjúkdóma í sjónhimnu, svo sem eins og AMD, Retinitis Pigmentosa (RP), LCA, Stardardt, Usher o.fl. Megintilgangurinn með starfsemi deildarinnar er að fylgjast með og fræða félagsmenn og aðstandendur þeirra um það sem er nýjast að gerast í vísindarannsóknum og tilraunum í því skyni að finna lækningar og/eða meðferðir við þessum sjúkdómum. Deildin er því nokkurskonar vísindavettvangur Blindrafélagsins.

Aðild að deildinni er opin öllum sem vilja leggja sitt af mörkum í stuðningi við einstaklinga með arfgenga hrörnunarsjúkdóma í sjónhimnu eða styðja rannsóknir sem miða að því að finna meðferðir við þessum sjúkdómum. Aðild að Blindrafélaginu er þannig ekki forsenda þess að eiga aðild að RP-deildinni. Þeir sem vilja sækja fræðslufundi og annað sem RP-deildin stendur fyrir þurfa því ekki að vera félagsmenn í Blindrafélaginu, allir velkomnir, t.a.m. aðstandendur og vinir þeirra sem búa við þennan augnsjúkdóm.

Áhersla er lögð á að koma upplýsingum á framfæri við félagsmenn um það sem er nýjast að gerast í rannsóknum og meðferðartilraunum sem í gangi eru á hverjum tíma. Reglulega eru haldnir fundir þar sem einstaklingum gefst kostur á að bera saman bækur sínar og sækja stuðning og félagsskap. 

Deildin tekur þátt í alþjóðlegu samstarfi á vettvangi Retina International og sóttar eru ráðstefnur sem fjalla um arfgenga hrörnunarsjúkdóma í sjónhimnu.

Facebook hópur RP deildar.

Suðurlandsdeild

Suðurlandsdeild Blindrafélagsins er vettvangur félaga sem búa á Suðurlandi.

Deildin fjallar um og tekur á staðbundnum hagsmunamálum á svæðinu. Reglulega eru haldnir fundir sem eru opnir öllum félögum á svæðinu auk þess sem deildin stendur fyrir ýmiss konar viðburðum.

Suðurnesjadeild

Suðurnesjadeild er vettvangur félagsmanna á Suðurnesjum.  

Ungblind

Ungblind er vettvangur unga fólksins í Blindrafélaginu. Meginhlutverk Ungblind er fræðsla, félagsstarf, skemmtanir og jafningjastuðningur fyrir félagsmenn en Ungblind er ætluð blindum og sjónskertum einstaklingum á aldrinum 16-30 ára.

Ungblind stendur fyrir margs konar uppákomum, svo sem veitingahúsaferðum, innanhússskemmtunum og fræðslu af ýmsu tagi. Ungblind tekur þátt í erlendum samstarfsverkefnum, t.d. norrænum sumarbúðum blindra og sjónskertra ungmenna.

Hægt er að hafa samband við Ungblind með að senda póst á netfangið ungblind@blind.is.

Facebook hópur Ungblindar.
Instagram Ungblindar.

Vesturlandsdeild

Vesturlandsdeild er vettvangur félagsmanna sem búa á Vesturlandi.