Lög

1. Kafli Nafn og tilgangur.

1. gr.

Nafn félagsins er Blindrafélagið fta., sam­tök blindra og sjónskertra á Íslandi. Heim­ili þess og varn­ar­þing er í Reykjavík. Enskt heiti félagsins er: Blindrafelagid, Icelandic Association of the Visually Impaired (BIAVI).

 

2. gr.

Blindrafélagið, samtök blindra og sjónskertra á Íslandi, er samfélagslegt afl – mannréttindasamtök - sem berst fyrir að blindir og sjónskertir einstaklingar geti lifað sjálfstæðu, innihaldsríku og ábyrgu lífi, og að þeim sé tryggður jafn réttur og jöfn tækifæri til ábyrgrar, virkrar og viðurkenndrar þátttöku í öllum þáttum samfélagsins.

 

3. gr.

Hlutverk Blindrafélagsins er að stuðla að því að blindir og sjónskertir einstaklingar geti lifað sjálfstæðu og innihaldsríku lífi og séu ábyrgir og virkir samfélagsþegnar. Stuðningur til sjálfstæðis eru einkunnarorð félagsins.

Stjórn félagsins getur heimilað að innan þess starfi deildir er sinni félagsstarfi og hagsmunamálum einstakra hópa félagsmanna. Deildirnar skulu starfa samkvæmt sérstakri reglugerð sem staðfest hefur verið af stjórn Blindrafélagsins.

Félagið hafi meðal annars eftirfarandi að leiðarljósi;

  • að gæta þess að blindir og sjónskertir njóti þeirra lífsgæða sem almennt eru talin eðlileg.
  • að stuðla að því að blindir og sjónskertir geti aflað sér menntunar og hafi atvinnu
  • að stuðla að því að blint og sjónskert fólk hafi aðgang að upplýsingum á því formi sem hentar
  • að efla samskipti blindra og sjónskertra með félagslífi og öflugu trúnaðarmannakerfi
  • að þrýsta á að opinberir aðilar og aðrir veiti blindum og sjónskertum þá þjónustu og endurhæfingu sem þeir þurfa á að halda og hafa aðhald á þá þjónustu sem veitt er
  • að hafa samstarf við erlend systursamtök og hagsmunasamtök fatlaðra hér á landi
  • að stuðla að rannsóknum í þágu blindra og sjónskertra
  • að stuðla að útgáfu og kynningu þannig að málefni blindra og sjónskertra séu öllum aðgengileg

2. kafli Félagsaðild.

4. gr.

Félagsmaður getur hver sá verið sem hefur sjón sem nemur 6/18 eða minna, eða hefur sjóngalla eða augnsjúkdóm sem jafna má við greinda sjónskerðingu að mati augnlæknis.

Stjórn Blindrafélagsins fer yfir umsóknir um félagsaðild og staðfestir. Afgreiðslur stjórnar skulu staðfestar af aðalfundi Blindrafélagsins.

Félagsmenn skulu greiða árstillag til félagsins í samræmi við ákvörðun aðalfundar. Félagsmenn njóta aðildar frá greiðslu fyrsta árstillags.

Úrsögn úr Blindrafélaginu skal berast skriflega. Skuldi félagsmaður árstillag til tveggja ára er stjórn Blindrafélagsins heimilt að skrá félagsmann af félagaskrá.

Forráðamenn ólögráða barna sem uppfylla skilyrði til félagsaðildar skv. 1. mgr. fara með félagsleg réttindi og skyldur barnanna. Sama á við um þá félagsmenn sem sökum fjölfötlunar eða af öðrum ástæðum geta ekki sinnt félagslegum skyldum sínum eða gætt hagsmuna sinna.

5. gr.

Aðrir en að ofan greinir geta gerst bakhjarlar Blindrafélagsins og hafa þeir málfrelsi og tillögurétt á fé­lags­­fundum. Bakhjarlar félagsins eru kjör­geng­ir til trún­aðarstarfa á vegum félagsins og hafa þá óskor­aðan atkvæðisrétt á fundum stjórna og nefnda sem þeir eru kjörnir til setu í.

Úrsögn úr Blindrafélaginu skal berast skriflega. Skuldi félagsmaður árstillag til tveggja ára er stjórn Blindrafélagsins heimilt að skrá félagsmann af félagaskrá.

3. Kafli Félagsfundir

6. gr.
Almennan félagsfund skal stjórn boða með minnst viku fyrirvara með dagskrá á miðlum félagsins eða á annan opinberan hátt.

Boðað skal til almenns félagsfundar ef minnst 25 aðalfélagar óska þess og senda stjórn félagsins um það skriflega beiðni. Skulu þeir tilgreina ástæðu þess að óskað er eftir að félagsfundur verði boðaður. Stjórn skal boða til félagsfundar  innan hálfs mánaðar frá því að ósk berst.

7. gr.
Atkvæðisrétt á fundum félagsins hafa allir félagsmenn skv. 4. gr. laganna.

4. Kafli Aðalfundur

8. gr.

Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum félagsins. Aðalfund skal halda eigi síðar en í maílok ár hvert og skal hann boðaður með minnst fjögurra vikna fyrirvara. Framboðum til stjórnar félagsins og tillögum að lagabreytingum skal skila til skrifstofu félagsins eigi síðar en þremur vikum fyrir boðaðan aðalfund.

Berist fleiri framboð til stjórnar en kjósa á um hverju sinni skal stjórn félagsins undirbúa kosningu og birta lista yfir þá sem í kjöri eru. Berist ekki nægilegur fjöldi framboða skal kjörnefndin, svo fljótt sem verða má, hlutast til um að afla þeirra fyrir aðalfund. Kjörnefnd skal jafnframt leggja mat á kjörgengi frambjóðenda og athuga hvort að félagsgjöld séu í skilum.

Stjórn skal setja nánari reglur um framkvæmd kosninga og utankjörfundaratkvæðagreiðslu og skulu þær birtar félagsmönnum.

9. gr.

Fastir dagskrárliðir aðalfundar skulu vera:

a.  Skýrsla stjórnar um störf félagsins á síðast­liðnu starfsári.

b.  Afgreiddir reikningar félagsins og sjálf­stæðra rekstrareininga þess fyrir næsta ár á undan.

c.   Ákveðið árstillag félagsmanna og gjald­dagi þess.

d.  Kosning formanns félagsins til tveggja ára.

e.  Kosning tveggja aðalmanna og tveggja varamanna í stjórn til tveggja ára, samanber 10 grein.

f.    Kosning tveggja skoðunarmanna og jafn margra varamanna til tveggja ára.

g.  Kosning í kjörnefnd.

h.  Lagabreytingar.

i.    Aðalfundur ákveði laun stjórnarmanna.

j.    Önnur mál.

5. Kafli Stjórn Blindrafélagsins

10. gr.
Stjórn Blindrafélagsins skal kjörin á aðalfundi, hana skipa fimm aðalmenn og fjórir varamenn. Atkvæðamagnræður hverjir eru kjörnir í aðalstjórn eða varastjórn. Formaður skal kjörinn sérstaklega til tveggja ára. Stjórnin velur úr hópi sínum varaformann, gjaldkera, ritara og meðstjórnanda.

Stjórnarmenn og varamenn skulu kosnir til tveggja ára í senn þannig að árlega skulu kosnir tveir aðalmenn og tveir varamenn og jafnmargir gangi úr stjórn. Varamenn taka sæti aðalmanna er kosnir voru til sama tíma í forföllum þeirra, fyrst sá er fleiri atkvæði hefur að baki sér. Séu varamenn, er kosnir voru til sama tíma, ekki tiltækir skal varamaður, sem kjörinn hefur verið á öðrum aðalfundi, taka sæti stjórnarmanns eftir sömu reglu um atkvæðamagn. Falli stjórnarmaður frá eða gangi úr stjórn félagsins tekur varamaður sæti hans á sama hátt og situr út kjörtíma þess stjórnarmanns.

Félagsmenn og bakhjarlar Blindrafélagsins eru kjörgengir til stjórnar. Þó mega ekki fleiri en tveir úr hópi bakhjarla sitja í stjórn félagsins hverju sinni.

Falli atkvæði í kosningum jafnt á frambjóðendur skal hlutkesti látið ráða röð.

11. gr
Stjórn Blindrafélagsins fer með málefni félagsins á milli aðalfunda. Stjórnin framkvæmir ákvarðanir aðalfunda og félagsfunda.

Stjórnarfundur er lögmætur hafi allir aðal- og varastjórnarmenn verið sannanlega boðaðir og á fundinn séu mættir a.m.k. þrír sem geta tekið sæti í aðalstjórn samkvæmt ákvæðum 10. greinar.

Tryggt skal að öll mál afgreidd af stjórn hafi meirihluta stjórnar á bak við sig.

Formaður boðar til stjórnarfunda og stýrir þeim og kemur fram fyrir hönd stjórnar. Hann skal vera í fyrirsvari fyrir félagið á opinberum vettvangi.

12. gr.
Stjórnin boðar til aðalfundar og undirbýr hann, leggur fyrir fundinn endurskoðaða reikninga síðasta árs, hefur umsjón með eignum Blindrafélagsins og gætir hagsmuna þess í öllum greinum.

13. gr.

Stjórn Blindrafélagsins er heimilt að fela einstaklingum og nefndum, sem hún kýs, afmörkuð verkefni fyrir félagið á milli stjórnarfunda.

Stjórn Blindrafélagsins veitir stjórnarmönnum eða framkvæmdastjóra heimild til að rita firma félagsins. Ritunarréttinn má takmarka á þann hátt að fleiri en einn fari með hann í sameiningu.

Stjórn Blindrafélagsins getur afturkallað heimild sem hún hefur veitt til að rita firma félagsins.

Gerðarbók skal halda yfir fundi stjórnar og skulu fundargerðir staðfestar af öllum viðstöddum stjórnarmönnum og framkvæmdastjóra.

14. gr.
Stjórnin ræður framkvæmdastjóra félagsins og hefur eftirlit með störfum hans. Framkvæmdastjóri félagsins annast daglegan rekstur, starfsmannaráðningar og starfsmannahald í umboði stjórnar.

Stjórn félagsins ber ábyrgð á störfum sínum gagnvart aðalfundum og almennum félagsfundum, stjórnendur einn fyrir alla og allir fyrir einn, nema sá sem hefur látið bóka ágreiningsatriði í gerðarbók stjórnar.

15. gr.

Stjórnarmanni ber að víkja sæti við meðferð og afgreiðslu máls ef hann hefur hagsmuna að gæta sem kunna að fara í bága við hagsmuni Blindrafélagsins eða ef fyrir hendi eru aðstæður sem eru til þess fallnar að draga óhlutdrægni hans í efa með réttu.

 

Stjórnarmanni Blindrafélagsins er óheimilt að taka þátt í meðferð eða afgreiðslu máls ef málið varðar aðila sem er eða hefur verið maki stjórnarmanns, skyldur eða mæðgur stjórnarmanni í beinan legg eða að einum lið til hliðar eða tengdur stjórnarmanni með sama hætti vegna ættleiðingar.

 

Ef stjórn Blindrafélagsins er falið að taka ákvörðun er tengist störfum yfirmanna Blindrafélagsins eða Blindravinnustofunnar ehf., er stjórnarmanni, sem er jafnframt almennur starfsmaður Blindrafélagsins eða Blindravinnustofunnar ehf., óheimilt að taka þátt í afgreiðslu eða meðferð málsins. Hér undir geta t.d. fallið ákvarðanir um launa- eða ráðningarkjör, lok ráðningarsambands eða afmörkun starfsskyldna. Ef stjórnarmaður hefur, sem almennur starfsmaður Blindrafélagsins, Blindravinnustofunnar ehf. eða Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónarskerta og daufblinda einstaklinga, tekið þátt í að undirbúa ákvörðun í tilteknu máli eða tekið ákvörðun í tilteknu máli, sem er síðan lagt fyrir stjórn Blindrafélagsins, er hann alltaf vanhæfur til að fjalla um málið. Þetta á þó ekki við um almenna stefnumótun eða aðra slíka áætlanagerð.

Ef stjórnarmaður er jafnframt leigutaki hjá Blindrafélaginu, hvort sem hann leigir viðkomandi húsnæði sem almennur íbúi eða undir atvinnurekstur, er honum óheimilt að taka þátt í afgreiðslu eða meðferð mála þar sem teknar eru ákvarðanir sem á einhvern hátt tengjast leiguhúsnæði í eigu Blindrafélagsins.

 

Stjórnarmaður skal upplýsa stjórn Blindrafélagsins um vanhæfistilvik. Ef ágreiningur er uppi um hæfi stjórnarmanns greiðir stjórn félagsins atkvæði um hæfi viðkomandi  stjórnarmanns.. Viðkomandi stjórnarmaður má ekki taka þátt í slíkri atkvæðagreiðslu og ræður atkvæði formanns úrslitum ef atkvæði standa jafn.

 

Stjórnarmaður, sem er vanhæfur til meðferðar og afgreiðslu máls, má ekki taka þátt í meðferð þess eða hafa áhrif á það með öðrum hætti og skal ávallt yfirgefa stjórnarfund við meðferð þess og afgreiðslu og skal þá varamaður taka sæti hans.

 

16 gr.
Gerist stjórnarmaður brotlegur við refsilög og/eða siðareglur Blindrafélagsins, vinnur gegn hagsmunum félagsins eða félagsmanna þess eða sýnir af sér aðra verulega ámælisverða háttsemi og allar sáttatilraunir reynast árangurslausar, er stjórn Blindrafélagsins heimilt að samþykkja tillögu um vantraust á viðkomandi stjórnarmann. Meirihluti aðal og varastjórnarmanna, að undanskildum þeim sem vantrauststillaga lýtur að, þurfa að vera samþykkir slíkri ákvörðun.

Ef stjórn Blindrafélagsins samþykkir tillögu um vantraust samkvæmt 1. mgr., er stjórninni skylt að boða til félagsfundar innan tveggja vikna og skal boða til fundarins í samræmi við 6. gr. þessara laga. Á meðan beðið er ákvörðun félagsfundar, er þeim stjórnarmanni sem lýst hefur verið vantrausti á óheimilt að taka þátt í stjórnarstörfum á vegum félagsins.

 

Félagsfundur, sem er boðaður skv. 2. mgr. þessarar greinar, skal hlýða á sjónarmið stjórnarinnar og þess stjórnarmanns sem vantrauststillaga lýtur að. Í kjölfar þess að báðir aðilar hafa gert grein fyrir sjónarmiðum sínum, tekur félagsfundur afstöðu til tillögu stjórnar. Verði tillaga stjórnar staðfest felur það í sér tafarlausa brottvikningu viðkomandi stjórnarmanns úr embætti, verði tillögunni hafnað, felur þá í sér að viðkomandi stjórnarmaður heldur stöðu sinni. Skal einfaldur meirihluti greiddra atkvæða ráða niðurstöðu félagsfundar um samþykkt tillögu stjórnar um vantraust.

 

Ef félagsfundur staðfestir tillögu stjórnar, tekur varamaður sæti þess stjórnarmanns sem félagsfundur hefur vikið úr embætti og situr út kjörtíma þess stjórnarmanns.

6. Kafli Endurskoðun

17. gr.
Reikningsleg endurskoðun skal framkvæmd af löggiltum endurskoðanda. Reikningsár félagsins er almanaksárið.

Skoðunarmenn athuga hag og rekstur félagsins og sjálfstæðra rekstrarþátta þess.

7. kafli Fjármál Blindrafélagsins.

18. gr.
Blindrafélagið greiðir

1.  Kostnað við rekstur félagsins.

2.  Ferðakostnað og uppihald stjórnarmanna á stjórnarfundum.

3.  Kostnað vegna fundarsóknar fulltrúa félagsins í stjórnum og nefndum samtaka, stofnana og fyrirtækja sem félagið á aðild að ásamt kostnaði vegna ferða fulltrúa félagsins á ráðstefnur og fundi.

4.  Stjórn setur reglur er varðar ferðir og dvalarkostnað vegna ferða fulltrúa félagsins á ráðstefnur og fundi erlendis sem stjórn hefur samþykkt þátttöku í.

19. gr.

Framkvæmdastjóri leggur fram endurskoðaða reikninga fyrir stjórn félagsins eigi síðar en tveimur vikum fyrir aðalfund. Reikningar skulu vera aðgengilegir á stafrænu formi á völdum miðlum félagsins eigi síðar en einni viku fyrir aðalfund.

20. gr.

Ef um kaup, sölu eða veðsetningu fasteigna er að ræða, þá skal stjórnin kalla til varastjórn. Hafa varamenn þá óskoraðan atkvæðisrétt.

8. Kafli Heiðursmerki

21. gr.
"Gulllampinn" er æðsta heiðursmerki Blindrafélagsins.

Merkið er veitt þeim einstaklingum sem hafa skarað fram úr vegna starfa sinna í þágu blindra og sjónskertra. Gulllampann má því aðeins veita að fyrir liggi einróma samþykki fulltrúa í stjórn og varastjórn. Skal skrifleg greinargerð fylgja tillögu um veitingu merkisins og skal hún birt um leið og Gulllampinn er afhentur. Óheimilt er öðrum að bera "Gulllampann" en þeim sem hann hefur verið veittur.

Stjórn Blindrafélagsins er heimilt að gefa út sérstök merki í ákveðnum tilvikum sem veitt eru í viðurkenningarskyni.

9. Kafli Lagabreytingar og slit félagsins

22. gr.

Til þess að breyta lögum þessum þarf að ræða og samþykkja breytingar á aðalfundi. Til venjulegra lagabreytinga þarf 2/3 hluta greiddra atkvæða, en til að slíta félaginu eða sameina það öðru félagi þarf ¾ greiddra atkvæða á tveimur fundum er slík tillaga er tekin til meðferðar og skal annar þeirra vera aðalfundur. Lög þessi öðlast þegar gildi.

Fundur sem samþykkir að slíta félaginu ákveður einnig hvernig ráðstafa skuli eignum þess og skuldum. Eignum félagsins má aðeins ráðstafa í samræmi við markmið Blindrafélagsins.

23. gr.

Lög Blindrafélagsins, samtaka blindra og sjónskertra á Íslandi voru samþykkt á fundum í Blindrafélaginu 28. desember 1939, á aðalfundi 4. febrúar 1940, á aðalfundi 6. febrúar 1944, á aðalfundi 7. maí 1954, á aðalfundi 1971, á almennum félagsfundi 16. október 1971, á aðalfundi 28. maí 1979, á félagsfundi 7. febrúar 1980, á aðalfundi 9. maí 1987, á almennum félagsfundi 7. október 1987, á aðalfundi 16. maí 1992, á almennum félagsfundi 3. júní 1992, á aðalfundi 24. apríl 1997, á aðalfundi 21. maí 2002, á aðalfundi 15. maí 2004, á aðalfundi 7. maí 2005, á aðalfundi 19. maí 2007, á aðalfundi 13. maí 2010, á aðalfundi 11. maí 2013, á aðalfundi 9 maí 2015, á aðalfundi 6. maí 2017 og á aðalfundi 26. maí 2022.