Ferðaþjónusta Blindrafélagsins

Ferðaþjónusta Blindrafélagsins er þjónustuúrræði sem nýtir leigubílaþjónustu sem fyrir er í samfélaginu en reiðir sig ekki á sérlausnir. Samkvæmt lögum um málefni fatlaðra bera sveitarfélög ábyrgð á að bjóða þeim sem ekki geta nýtt sér almenningssamgöngur ferðaþjónustu sem gerir þeim kleift að stunda atvinnu, nám og tómstundir. Í upphafi árs 2011 var gerð sú breyting á 1. grein laga um málefni fatlaðra að nú er kveðið á um að við framkvæmd laganna skuli litið til alþjóðlegra samninga sem Ísland á aðild að, svo sem Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Í 20. grein samningsins er fjallað um ferlimál einstaklinga og í greininni segir m.a.:

Aðildarríkin skulu gera árangursríkar ráðstafanir til þess að tryggja að einstaklingum sé gert kleift að fara allra sinna ferða og tryggja sjálfstæði fatlaðra í þeim efnum, eftir því sem frekast er unnt, m.a. með því „að greiða fyrir því að fatlaðir geti farið allra sinna ferða með þeim hætti sem, og þegar, þeim hentar og gegn viðráðanlegu gjaldi“.
 

Blindrafélagið er með ferðaþjónustusamninga eða er í samstarfi um ferðaþjónustu við eftirtalin sveitarfélög:

 • Reykjavík, almennur samningur frá 2015, endurnýjaður 2017.
 • Seltjarnarnesbæ, almennur samningur frá janúar 2016. 
 • Stykkishólm, almennur samningur um ferðaþjónustu á höfuðborgarsvæðinu frá 2015. 
 • Vesturbyggð, almennur samningur um ferðaþjónustu á höfuðborgarsvæðinu frá 2015.
 • Garðabæ, samstarf um ferðaþjónustu tiltekinna einstaklinga. 
 • Blönduós, einstaklingsbundinn samningur um ferðaþjónustu á höfuðborgarsvæðinu. 
 • Akureyri, almennur samningur frá 2012. 
 • Hafnarfjörð, takmarkaður samningur um ferðaþjónustu á höfuðborgarsvæðinu frá 2011.
 • Árborg, viljayfirlýsing um ferðaþjónustu á höfuðborgarsvæðinu í tengslum við félagsstarf Blindrafélagsins. 
 • Ísafjörð, takmarkaður samningur um ferðaþjónustu á Ísafirði og höfuðborgarsvæðinu, 
 • Kaldrananeshrepp, einstaklingsbundinn samningur um ferðaþjónustu á Akureyri og höfuðborgarsvæðinu.
 • Vestmannaeyjabær.

Ferðaþjónusta Blindrafélagsins er mjög sveigjanlegt úrræði og þjónustustigið er hátt samanborið við ferðaþjónustu fatlaðs fólks á höfuðborgarsvæðinu. Kostnaðarþátttaka notenda í ferðaþjónustu Blindrafélagsins er jafnframt hærri og kostnaður sveitarfélaganna minni en í hefðbundinni ferðaþjónustu fatlaðs fólks.

Ferðaþjónusta Blindrafélagsins var sett á fót með samningi við Strætisvagna Reykjavíkur árið 1997. Í mars 2015 gerðu Blindrafélagið og velferðarsvið Reykjavíkur með sér nýjan ferðaþjónustusamning.

Ferðaþjónusta Blindrafélagsins virkar þannig að notendur panta leigubíl frá þeirri leigubílastöð sem samið hefur verið við og skrifa reikninginn á Ferðaþjónustu Blindrafélagsins. Notendur greiða sem samsvarar einu staðgreiðslufargjaldi með strætó fyrir hverja ferð. Þó er þak á fjárhæð hverrar ferðar og sé farið upp fyrir kostnaðarþakið hækkar kostnaðarþátttaka notenda um eitt strætófargjald. Sveitarfélögin greiða svo andvirði ferðarinnar að frádreginni kostnaðarhlutdeild notenda og afslætti leigubifreiðastöðvarinnar. Blindrafélagið annast alla skráningu, greiðslu til leigubifreiðastöðvarinnar og innheimtu á kostnaðarhlutdeild notenda og sveitarfélaga mánaðarlega. 

Þeir félagsmenn Blindrafélagsins sem búa í sveitarfélögum sem ekki hafa gert samning við Ferðaþjónustu Blindrafélagsins, eða eru ekki skilgrgreindir lögblindir, eiga kost á að sækja um heimild til að taka leigubifreið og skrifa hjá Ferðaþjónustu Blindrafélagsins. Þannig njóta þeir þess afsláttar sem samið hefur verið um við viðkomandi leigubifreiðastöð