Trúnaðarmenn

 Trúnaðarmenn Blindrafélagsins, sem eru blindir eða sjónskertir, liðsinna öðrum blindum og sjónskertum. einstakligum. Starfið felst í að veita andlegan stuðning þeim sem hafa eða eru að missa sjón. Að jafnaði hringja trúnaðarmenn  í alla félasmenn Blindrafélagsins tvisvar á ári og spjalla við þá og veita þeim stuðning.

Enginn er hæfari til að leiðbeina þeim sem hafa misst sjón en sá sem þegar er blindur eða sjónskertur. Blindur eða sjónskertur trúnaðarmaður getur sett sig í spor þess sem aðstoðina sækir. Hann getur verið fyrirmynd um hvernig hægt er að lifa virku og innihaldsríku lífi.

Trúnaðarmaður veitir hjafnframt almennar upplýsingar um réttindi og þjónustu við blinda og sjónskerta. Hann á að vera vakandi fyrir nýjungum í tæknimálum og á sviði hjálpartækja og endurhæfingar og hvetja til virkrar þátttöku í samfélaginu.

 Trúnaðarmaður er bundinn þagnarskyldu um allt er hann verður áskynja í starfi sínu og varðar skjólstæðinga hans. 

Tvisvar á ári eru haldnir fundir eða námskeið í þeim tilgangi að styrkja trúnaðarmennina í starfi.

Trúnaðarmannakerfi Blindrafélagsins var sett á laggirnar árið 1998 í kjölfar tillögu nefndar á vegum heilbrigðisráðuneytisins sem lauk störfum í lok árs 1997.

Í lokaáliti nefndarinnar segir: Það er álit nefndarinnar að fela eigi Blindrafélaginu að skipuleggja fræðslu og stuðningskerfi blindra og sjónskertra við þá sem missa sjón og veita félaginu til þess fjárveitingu. Ennfremur að augnlæknum beri að upplýsa þá sem greinast lögblindir um að þeir eigi kost á slíkri ráðgjöf.

Trúnaðarmannakerfið hefur verið í þróun og endurnýjun síðan því var komið á stofn og hafa margir félagsmenn boðið fram starfskrafta sína sem sjálfboðaliðar í þágu blindra og sjónskertra og starfað ötullega að því að veita upplýsingar og andlegan stuðning félögum sínum.  Um áramótin 2013/2014 var ákveðið að þeir örfáu sjálfboðaliðar sem eftir voru myndu hætta og að. aðaltrúnaðarmennirnir þrír yrðu starfsmenn Blindrafélagsins í hlutastörfum.

Trúnaðarmenn Blindrafélagsins eru: Dagný Kristmannsóttir, Helga Friðrilksdóttir og Jón Helgi Gíslason.