Af vettvangi blindra og sjónskertra

Sigþór U. Hallfreðsson, formaður Blindrafélagsins, skrifar:

Um helgina birti Morgunblaðið aðsenda grein eftir Svavar Guðmundsson, félagsmann Blindrafélagsins. Greinin var hressilega skrifuð, enda Svavar skemmtilegur penni, og vinnur það með honum að hann lætur staðreyndir ekki trufla sig við frásögnina. Þar sem hann getur þess þó hvergi að hann hafi tekið sér skáldaleyfi til að skapa gáskafulla sögu finn ég mig knúinn til að setja nokkur atriði í grein hans í samhengi.

Eru meðallaun há laun?

Í greininni er minnst á aðalfund Blindrafélagsins sem haldinn var síðasta vor. Fyrir fundinn hafði verið óskað eftir upplýsingum um launakjör starfsmanna. Upplýsingarnar voru veittar og voru engar athugasemdir gerðar á fundinum. Í umræddri grein birtust þó athugasemdir við launakjör framkvæmdastjóra. Vert er þó að geta þess að launin byggja á launastefnu félagsins sem staðfest eru af stjórn. Launastefnan felur í sér að taka skuli mið af meðallaunum í launakönnun VR og eru í samræmi við það sem gerist hjá félagasamtökum og fyrirtækjum með sambærileg umsvif. 

Laun framkvæmdastjóra Blindrafélagsins segir hann um 1.400 þúsund á mánuði sem hann telur vel í lagt hjá félagi sem velti 180 milljónum á ári. Hér þarf að árétta að framkvæmdastjóri Blindrafélagsins er einnig framkvæmdastjóri Blindravinnustofunnar og eru launin sem hann nefnir fyrir framkvæmdastjórastörf hjá báðum einingunum. 

Eignir Blindrafélagsins 31.12.2022 voru metnar 1342 milljónir og munar þar mest um húseignina Hamrahlíð 17. Velta Blindrafélagsins, Blindravinnustofunnar og ferðaþjónustu Blindrafélagsins sem Blindrafélagið hefur umsjón með var 616 milljónir króna á árinu 2022. Í hverjum mánuði eru laun reiknuð fyrir 40 starfsmenn. Af 20 starfsmönnum Blindrafélagsins eru 12 blindir eða sjónskertir og af 20 starfsmönnum Blindravinnustofunnar eru 18 blindir eða sjónskertir. 

Dagvinnutaxti framkvæmdastjóra og formanns Blindrafélagsins, sem er í 50% starfshlutfalli, er 1.100 þúsund, laun framkvæmdastjóra Blindrafélagsins árið 2022 voru 1.297 þúsund á mánuði en ekki 1.400 þúsund líkt og haldið var fram. Innifalið í þessum launum eru yfirvinna, orlof, desemberuppbót og orlofsuppbót. 

Að teknu tilliti til launaþátttöku Blindravinnustofunnar er heildarkostnaður Blindrafélagsins að launum framkvæmdastjóra 1.047 þúsund.

Blindrafélagið er ekki bara á höfuðborgarsvæðinu.

Gerðar eru athugasemdir við að formennska í Blindrafélaginu sé launað hlutverk og að formaður sé búsettur í Stykkishólmi. Í því samhengi er bent á að sama fyrirkomulag um hlutverkið hefur verið viðhaft frá árinu 2005 og því ekki nýtt fyrirkomulag líkt og skrifin benda til. Undirritaður er með lögheimili í Reykjavík en hefur verið í fjarbúð í Stykkishólmi og því gjarnan og í vaxandi mæli eftir því sem sjónskerðingin ágerist kosið að vinna í fjarvinnu þaðan. Í ljósi þessara athugasemda er þó einnig vert að minna á að Blindrafélagið er samtök blindra og sjónskertra á Íslandi, og er ekki takmarkað við höfuðborgarsvæðið. Enda finnast bæði meðal stjórnar- og starfsmanna þess aðilar búsettir á landsbyggðinni. 

Starfsendurhæfing og heilsuefling blindra.

Í greininni segir einnig að meðalmánaðarlaun starfsmanna Blindravinnustofunnar séu um 182 þúsund á mánuði. Talan er hugsanlega fengin út með því að deila samanlögðum launakostnaði stofunnar á fjölda starfsfólks sem þar starfar án þess að tillit sé tekið til þess að þar er fólk flest í lágu starfshlutfalli. Blindravinnustofan er enda hugsuð bæði sem vinnustaður og starfsþjálfunarstaður blindra og sjónskertra einstaklinga. Laun fatlaðra starfsmanna Blindravinnustofunnar eru reiknuð út frá taxta í kjarasamningi Eflingar, ASÍ og SA. Laun starfsmanna eru síðan reiknuð út frá starfsgetu og starfshlutfalli. Starfsmenn Blindravinnustofunnar eru langflestir í þeim sporum að eiga ekki möguleika á þátttöku á almennum vinnumarkaði sökum þess að atvinnulífið býður þeim ekki upp á störf við hæfi. 

Þá eru gerðar athugasemdir við laun þjálfara í heilsuklúbbi Blindrafélagsins og sagt að réttast væri að Blindrafélagið kaupi fremur árskort í almennar líkamsræktarstöðvar. Vert er að taka fram að verktakagreiðslur þjálfara eru í samræmi við það sem greitt hefur verið fyrir störf á vegum félagsstarfs Blindrafélagsins. Þá er vinnutími þjálfara lengri en haldið er fram í greininni sem vísað er í eða tvisvar sinnum í viku og hver tími er tvær og hálf klukkustund með undirbúningi. Heilsuklúbbnum var upphaflega komið á laggirnar sem tilraunaverkefni til að auðvelda félagsmönnum að sækja sér heilsueflandi hreyfingu – ekki síst fyrir þá sem illa treystu sér að sækja almennar líkamsræktarstöðvar. Góð mæting og almenn ánægja þeirra sem í klúbbnum eru urðu til þess að verkefninu var haldið áfram. Margt aftrar því að félagsmenn Blindrafélagsins sæki hefðbundnar líkamsræktarstöðvar má þar nefna erfitt aðgengi og slysahættur svo sem eins og lóð á gólfum og stangir hangandi úr lofti svo eitthvað sé nefnt. Því hentar það vel að sækja líkamsrækt við hæfi í húsnæði Blindrafélagsins þar sem félagsfólk þekkir vel til og tillit er tekið til þarfa þess. 

Blindir og sjónskertir koma betur auga á vanda blindra og sjónskertra en aðrir.

Trúnaðarmannakerfi Blindrafélagsins hefur frá upphafi verið hugsað sem jafningjastuðningur í formi símtals. Trúnaðarmenn Blindrafélagsins eru blindir eða sjónskertir sjálfir og er ætlað að liðsinna öðrum blindum og sjónskertum, veita stuðning, miðla reynslu sinni, veita almennar upplýsingar um réttindi og þjónustu, hvetja til virkrar þátttöku í samfélaginu og rjúfa einangrun. Almennt hringja trúnaðarmenn Blindrafélagsins í allt félagsfólk tvisvar á ári og stundum oftar, nema slíkt sé afþakkað. Trúnaðarmenn á vegum félagsins eru jafnan þrír og hafa frjálsa starfsstöð við hringingarnar enda þjónustan ekki bundin við höfuðborgarsvæðið. 

Mikilvæg þjónusta Blindrafélagsins byggir nær alfarið á sjálfsafla fé og eignatekjum.

Sú mikilvæga þjónusta sem félagið veitir blindu og sjónskertu fólki er nær alfarið fjármögnuð í gegnum sjálfsafla fé eða með tekjum af eignum félagsins, eða í kringum 80-90 prósent. Styrkir frá hinu opinbera dekka undir 5% af fjárþörf félagsins . Það eru því einkum einstaklingar og bakhjarlar sem standa undir þessari mikilvægu starfsemi og félagið leggur mikla áherslu á að vanda alla þjónustu sína og birtist árangurinn í því að 91 prósent félagsmanna þykir Blindrafélagið sinna hagsmunamálum blindra og sjónskertra vel. Þá má geta þess að mikil ánægja mælist með alla þá þjónustu sem veitt er í húsi Blindrafélagsins en auk mikillar ánægju með starfsemi Blindrafélagsins mældist starfsemi Sjónstöðvarinnar í sumar með mestu ánægju allra þeirra 134 ríkisstofnana sem í ár tóku þátt í könnun á þjónustu á vegum hins opinbera við almenning. 

Ég enda þessi skrif á að taka undir lokaorð Svavars og minna á að vetrarhappdrætti Blindrafélagsins hefst fljótlega. Þátttaka almennings í því er mikilvæg fjáröflunarleið til að standa undir starfsemi félagsins. Að lokum hvet ég blint og sjónskert fólk til að nýta sér fjölbreytta þjónustu og félagslíf innan félagsins. Hægt er að nálgast frekari upplýsingar á heimasíðu félagsins blind.is. 

Höfundur er formaður Blindrafélagsins.