Posar og hraðbankar ekki ætlaðir fyrir alla?

Mynd sýnir nýja posann frá Borgun/Salt
Mynd sýnir nýja posann frá Borgun/Salt

Fjölmargir hafa eflaust orðið varir við nýja gerð posa sem komnir eru í umferð og fer fjölgandi. Þeir eru frá Borgun, eru hvítir að lit og gömlu tökkunum hefur verið skipt út fyrir snertiskjá. Ekki eru allir á eitt sáttir við þessa þróun og hafa miklar umræður skapast meðal blindra og sjónskertra varðandi þessa þróun og margir hafa miklar áhyggjur.

Þeir sem eiga erfitt með að sjá á posana hafa hingað til stuðst við takkana við innslátt á PIN númeri. Margir hafa meira að segja átt erfitt með innslátt á PIN númerum hingað til og eru dæmi um að fólk hafi þurft að gefa öðrum upp númerið og fá þá til að slá það inn fyrir sig. Sumir hafa jafnvel þurft að fá undanþágu frá notkun PIN númers. Nú er vissulega hægt að greiða með snjallsímum á mörgum stöðum í dag, en gleymum því ekki að það er stór hópur fólks sem er ekki með snjallsíma.

Það eru grundvallarmannréttindi að geta staðið jafnfætis öðrum þegar kemur að því að greiða fyrir vörur og þjónustu. Sú staðreynd að allir geti ekki notið þeirrar verndar sem PIN númerin eiga að stuðla að, vegna ófullnægjandi tæknilausna, er með öllu ólíðandi.

Svipuð þróun hefur átt sér stað með hraðbanka hérlendis. Gömlu hraðbankarnir með tökkum hafa einnig þurft að víkja fyrir snertiskjáum. Það gefur auga leið að þeir sem ekki sjá á þessa skjái, geta ekki staðsett sig á skjánum og því ekki nýtt sér þá. Talandi hraðbankar hafa hins vegar verið til frá árinu 1997, eða í 23 ár, og má finna þá víða erlendis. Hér á landi hefur þessi lausn ekki verið innleidd og því enginn talandi hraðbanki hér.

Snertiskjáir þurfa ekki að vera óaðgengilegir, en of oft gleymist að huga að aðgengismálum í innleiðingu þeirra og er það miður. Það gerir þó lítið að stinga hausnum í sandinn og gefast upp, við verðum að halda okkar vinnu áfram, benda á hvar úrbóta er þörf og hjálpast að við að finna lausnir sem virka fyrir alla.

Blindrafélagið hefur vakið athygli Borgunar, eða Salt eins og það heitir í dag, á þessu vandamáli tengt posunum og var vel tekið í erindið. Í framhaldi af því áttum við fund með hönnuðum á vegum Salt erlendis og ætti vinna að úrbótum að vera hafin. Við lýsum yfir vonbrigðum með að blindir og sjónskertir hafi setið á hakanum í þessu máli og vonum að úr þessu verði bætt sem allra fyrst á fullnægjandi hátt.

Blindrafélagið hefur einnig haft samband við Advania og Origo, auk Arion Banka, Landsbankans, Íslandsbanka og Sparisjóðsins, varðandi hraðbankana. Líkt og með posana hafa allir aðilar tekið vel í þetta verkefni og við bindum vonir við að talandi hraðbankar verði orðnir að veruleika hérlendis fyrr en seinna.