Fundargerð stjórnar nr. 1 2020-2021

Fundargerð 1.  stjórnarfundar Blindrafélagsins, starfsárið 2020 – 2021, haldinn miðvikudaginn 28. október kl. 16:00.  

Mættir: Sigþór U. Hallfreðsson (SUH) formaður, Ásdís Evlalía Guðmundsdóttir (AEG), Kaisu Hynninen (KH), Eyþór Kamban Þrastarson (EKÞ), Guðmundur Rafn Bjarnason (GRB) varamaður, tekur sæti HÞA sem aðalmaður, Dagný Kristmannsdóttir (DK) varamaður, Rósa Ragnarsdóttir (RR) varamaður, Þórarinn Þórhallsson (ÞÞ) varamaður, Kristinn Halldór Einarsson (KHE) framkvæmdastjóri. 

Forföll: Hlynur Þór Agnarsson (HÞA)  

1. Fundarsetning. 

SUH setti fundinn og bauð stjórnarmenn velkomna til stjórnarstarfa á nýju starfsári sem væri að hefjast óvenju seint vegna Covid-19 faraldursins. Hann bar síðan upp tillögu að dagskrá, sem send hafði verið út með fundarboðinu. Var tillagan samþykkt. 

2. Afgreiðsla fundargerðar. 

Fundargerð  22, 23 og 24 fundar, sem sendar voru stjórnarmönnum fyrir þennan fund, voru samþykktar samhljóða. 

3. Lýst eftir öðrum málum. 

Engin önnur mál boðuð. 

4. Inntaka nýrra félaga.   

Engin tilkynning um nýja félaga. 

5. Skýrslur, bréf og erindi. 

SUH kynnti erindi frá Arnþóri Helgasyni um að stjórn félagsins stofnaði tölvupóstlista sem gæti verið vettvangur fyrir umræðu um eitt og annað sem snýr að hagsmunum blindra og sjónskertra einstaklinga. Stjórnin féllst ekki á að stofna slíkan lista en bendir á hverjum og einum sé frjálst að gera það.  

Í skýrslu formanns var fjallað um: 

  • Aðalfund. Blindrafélagsins 2020. 

  • Aðalfundur ÖBÍ. 

  • Starfsáætlun stjórnar fram að áramótum. 

  • Félagsstarf á Covid tímum. 

  • Sjóðurinn Blind börn á Íslandi, úthlutun haust 2020.  

  • Vika sjónverndar, aðgengis og hvíta stafsins.  

  • Mikilvægar dagsetningar. 

Ábending kom fram um að kalla eftir athugasemdum við framkvæmd aðalfundarins.  
SUH óskaði eftir að bókað yrði þakklæti og ánægja með viku sjónverndar, aðgengis og hvíta stafsins, sem skipulögð var af starfsfólki félagsins og Miðstöðvarinnar. 

 Í skýrslu framkvæmdastjóra var fjallað um: 

  • Rekstraryfirlit janúar til september 2020. 

  • Fjáraflanir.  

  • Viðvera á skrifstofu. 

  • Húsnæðismál.  

  • Ferðaþjónusta Blindrafélagsins. 

  • Frumvarp til laga um höfundalög (takmarkanir á einkarétti til hagsbóta fyrir fólk með sjón- eða lestrarhömlun), 136. mál.  

  • Leiðsöguhundaverkefnið. 

  • Vika sjónverndar, aðgengis og hvíta stafsins.  

6. Siðareglur Blindrafélagsins 

Í tilefni nýs starfsárs þá vakti SUH athygli stjórnarmanna á siðareglum kjörinna fulltrúa  Blindrafélagsins og hvatti stjórnarmenn til að lesa þær yfir.  Siðareglurnar eru meðal annars byggðar á gildum félagsins en þau eru: 

  • Jafnrétti - Eykur þátttöku og færir með sér gæfu.  

  • Sjálfstæði - Stuðlar að virkni og ábyrgð.  

  • Virðing - Elur af sér viðurkenningu og réttsýni.  

  • Umburðalyndi - Stuðlar að fjölbreytileika og víðsýni. 

Ákveðið var að fjalla frekar um siðareglurnar á næsta fundi. 

Siðreglurnar má sjá í heild sinni  hér: https://www.blind.is/is/blindrafelagid/stjornun/sidareglur/sidareglur-kjorinna-fulltrua-blindrafelagsins 

7. Níu mánaða rekstrar uppgjör. 

KHE gerði grein fyrir afkomu félagsins fyrstu 9 mánuði ársins. Tekjur voru 171.8 mkr en áætlun gerði ráð fyrir 180,78 mkr.  Rekstrargjöld voru 196,4 mkr en áætlun gerði ráð fyrir 191,2 mkr. Á tekjuhliðinni eru fjáraflanir að skila 6,5 mkr minni tekjum en áætlun gerði ráð fyrir og sala á vörum og þjónustu er 3 mkr minni en áætlun gerði ráð fyrir. Aðrir tekjuliðir eru nokkuð nálægt áætlun. Samtals eru tekjur því 9,7 mkr (5,36%) undiráætlun. 

Rekstrargjöld fyrstu 9 mánuði ársins 196,4 mkr sem er 15,7 mkr (8,7%) yfir áætlun. Meginskýringin liggur í auknum kostnaði vegna viðhalds innanhúss og einskiptis kostnaðar við öflun bakhjarla (6 x mánaðargjald), sem mun allur skila sér í formi aukinna tekna frá bakhjörlum. Framkvæmdastjóri vakti athygli á því að hugsanlega gæti verið rétt að eignafæra kostnað vegna bakhjarlasöfnunarinnar, sem er 34 mkr á tímabilinu, og afskrifa síðan kostnaðinn á 3 - 5 árum, en það er sá tími sem gera má ráð fyrir að sé líftími hvers bakhjarls sem stuðningsaðila. Það mun verða tekið upp með endurskoðendum félagsins. 

Þó nokkrar sveiflur eru á milli ára á einstökum tekju og gjaldaliðum og hér má sjá þá liði sem að sveiflast mest á milli ára. 

Tekjur af Víðsjá minnka um 6.6 mkr. úr 27 í 20,4 mkr.  
Tekjur af dagatali minnka um 3.9 mkr. úr 15 í 11 mkr 
Tekjur af happadrættinu hækka um 4.6 mkr. úr 18,3 í 21,1 mkr. 
Tekjur af bakhjörlum hækka um 13.7 mkr úr 18,6 í 32,3 mkr  
Húsnæðiskostnaður hækkar um 6.1 mkr. úr 15,6. Í 21,4 mkr. 
Kostnaður vegna félagsmála og mötuneytis minnkar um 14.5 mkr. úr 23,5 í 8,5 mkr. 
Fjáraflanakostnaður hækkar um 38.7 mkr. úr 23,7 í  62,5 mkr. 

Í ljósi þess að hvernig staðið er að söfnun bakhjarla og hvernig greitt er fyrir þá söfnun er ljóst að tekjur af bakhjörlunum á árinu 2021 munu líklega verða um 42 mkr en kostnaðurinn þeirra vegna mun einungis nema 10% af þeirri upphæð eða 4,2 mkr.  

8. Verkaskipting stjórnar. 

SUH gerði tillög um að verkaskipting stjórnar yrði með eftirfarandi hætti: 

  • Kaisu varaformaður.  

  • Ásdís gjaldkeri. 

  • Eyþór ritari. 

Var tillagan samþykkt samhljóða. 

9. Starfsáætlun stjórnar. 

SUH lagði fram eftirfarandi drög að starfsáætlun stjórnar fram að áramótum: 

  • 28 október, miðvikudagur, stjórnarfundur nr. 1.  

  • 18 nóvember, miðvikudagur, stjórnarfundur nr. 2.  

  • 9 desember, miðvikudagur, stjórnarfundur nr. 3. 

Var tillagan samþykkt samhljóða. 

10. Leiðsöguhundaverkefnið. 

KHE gerði grein fyrir tilboði sem að borist hefur frá dönskum leiðsöguhundaskóla sem við fyrstu sýn virðist vera mjög hagkvæmt. Einnig hafa borist óskir frá sænska aðilanum sem að Blindrafélagið hefur verið að taka hunda frá. Ákveðið var að skoða þetta frekar ræða við báða aðilana og leggja niðurstöðuna fyrir stjórn.  Var framkvæmdastjóra falið að ganga í málið og gefa skýrslu til stjórnar sem síðan tekjur ákvörðun um framhaldið.   

11. Umsögn um frumvarp til laga um breytingar á höfundarlögum. 

Fyrir Alþingi liggur frumvarp til breytinga á höfundarlögum vegna staðfestingar á Marrakesh sáttmálanum. Blindrafélaginu hefur verð boðið að senda inn umsögn um frumvarpið og er skilafrestur til 29. október. Fyrir fundinum liggur eftirfarandi tillaga að umsögn sem KHE samdi í samstarfi við Hljóðbókasafn Íslands: 

„Umsögn Blindrafélagsins, samtaka blindra og sjónskertra á Íslandi, um frumvarp til laga um um höfundalög (takmarkanir á einkarétti til hagsbóta fyrir fólk með sjón- eða lestrarhömlun) 

Alþjóðasamtök blindra og sjónskertra hafa um margra ára skeið barist fyrir fullu aðgengi blindra og sjónskertra að rituðu máli. Marrakesh sáttmálinn er afrakstur þeirra baráttu. Blindrafélagið fagnar því þessu frumvarpi sem felur í sér breytingar á höfundalögum til að uppfylla ákvæði Marrakesh samningsins og Marrakesh tilskipunarinnar. Með breytingunni er stigið mikilvægt skref í þá átt að skilgreina betur og skerpa á hlutverki og skyldum Hljóðbókasafnsins til samræmis við áþekkar stofnanir hinna Norðurlandanna. Afnot af einstökum aðildarríkja Marrakesh sáttmálans munu hafa mikla þýðingu fyrir lánþega safnsins og er óskandi breytinganna sé ekki langt að bíða. Á þetta sérstaklega við þegar um námsmenn með leshemlanir er að ræða, en Marrakesh sáttmálinn mun opna fyrir þeim aðgengi að námsefni sem að óbreyttu er þeim óaðgengilegt. 

Blindrafélagið hefur um margra ára skeið gert kannanir meðal félagsmanna sinna um mikilvægi þeirra þjónustu sem þeim stendur til boða. Í öllum þessum könnunum hefur þjónusta Hljóðbókasafn Íslands skorað hæst sem mikilvægasta þjónustan. 

Blindrafélagið telur reglur Marrakesh sáttmálans og Marrakesh tilskipunarinnar mikla réttarbót og að nauðsynlegt að tryggja að hægt verði að nálgast efni sem t.d. einvörðungu er gefið út á rafrænu formi eða sem hljóðrit, þ.e.a.s. þegar útgefinn texti liggur ekki til grundvallar. 

Hljóðbókasafnið þjónustar afar ólíka hópa og eru sumir viðkvæmir fyrir breytingum, s.s. aldraðir, sjónskertir og blindir. Það er því mikilvægt að huga að því að ef setja á upp frekari öryggisráðstafanir, sem kveðið er á um til að koma í veg fyrir misnotkun, yfirskyggi ekki mikilvægi aðgengis í takt við reglur Marrakessh tilskipunarinnar. Viðkvæmustu hóparnir eiga erfitt með að skipta oft um notendanöfn og lykilorð eða að læra á nýja tækni. 

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins. 

19. gr. a.  Í lið d er lagt til að orðalag verði: getur ekki á annan hátt, vegna líkamlegrar fötlunar eða veikinda, haldið á bók eða meðhöndlað hana eða náð sjónskerpu eða hreyft augun að því marki að viðunandi sé til að geta lesið.   

Rök fyrir breytingunni: Hljóðbókasafnið lánar bækur með tímabundnum aðgangi til veikra einstaklinga, s.s. þeirra sem eru máttfarnir vegna meðferðar og/eða endurhæfingar. 

19. gr. d. Í lið d er lagt til að orðinu blindraletri verði breytt í punktaletur.  

Rök fyrir breytingunni: Þetta er til samræmis við aðra lagatexta sem Alþingi hefur samþykkt á undanförnum árum.  

19. gr. e. Í lið e er lagt til að orðalag verði: geri viðeigandi ráðstafanir til þess að vinna gegn óheimilli eftirgerð eintaka á aðgengilegu formi eða því að þeim sé dreift, miðlað til almennings eða þau gerð aðgengileg almenningi með óheimilum hætti.  Öryggisráðstafanir hamli þó ekki aðgengi til þeirra sem á þurfa að halda. 

Rök fyrir breytingunni: Blindrafélagið tekur undir með Hljóðbókasafninu og bendir á að aldraðir, sjónskertir og blindir eigi sumir hverjir erfitt með tæknibreytingar og breytingar á aðgengi að safninu. Eins eru frekari öryggisráðstafanir en nú eru gerðar líklegar til að hafa í för með sér aukinn kostnað fyrir safnið. 

Blindrafélagið hvetur eindregið til þess að þetta frumvarp verði samþykkt með þeim smávægilegu athugasemdum sem félagið hefur lagt fram og að Marrakesh sáttmálinn verði staðfestur hið fyrsta. Athugasemdirnar eru efnislega samhljóða athugasemdum Hljóðbókasafns Íslands enda fara hagsmunir þessara aðila saman.“ 

Var umsögnin samþykkt samhljóða og KHE falið að senda hana inn. 

12. Önnur mál. 

SUH mæltist til þess að aukið verði við úthringingar trúnaðarmanna vegna Covid-19 faraldursins.  

RR sagði frá frétt um snjall ljósi í Hveragerði. 

Fundi slitið kl. 18:25. 

Fundargerð ritaði Kristinn Halldór Einarsson.