Á þessu ári eru liðin 100 ár frá fæðingu Rósu Guðmundsdóttur, fyrrum formanns Blindrafélagsins. Rósa var fædd 8. október 1923 og ein stofnenda Blindrafélagsins 19. ágúst 1939. Hennar verður minnst í Opnu húsi þriðjudaginn 5. desember næst komandi.
Gísli Helgason segir frá Rósu, spilaðar verða upptökur þar sem hún segir frá sjálfri sér og hugðarefnum sínum, en hún bar mjög fyrir brjósti málefni blindra og sjónskertra og lífsstarf hennar gekk út á að sýna fram á að þrátt fyrir sjóndepru eða sjónleysi væri blindum og sjónskertum ýmislegt eða nær allt fært. Þá mun Helga Magnúsdóttir systurdóttir Rósu segja frá ýmsu, en Helga var mjög nátengd Rósu og kynntist vel mörgum félögum í Blindrafélaginu og var mikið á Blindravinnustofunni sem barn og segir frá lífinu á Grundarstíg 11, en Blindrafélagið eignaðist það hús og rak Blindravinnustofuna þar og leigði blindu og sjónskertu fólki þar íbúðir og herbergi. Boðið verður upp á veitingar.