Hvað eru færnibúðir?
Færnibúðir eru valdeflandi helgarbúðir fyrir börn og ungmenni sem eru blind, sjónskert eða með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu. Þær eru haldnar í samstarfi Blindrafélagsins, Sjónstöðvarinnar, Íþróttafélags fatlaðra og Háskólans í Reykjavík, og byggja á hugmyndafræði Camp Abilities sem þróuð var af Lauren Lieberman í Bandaríkjunum.
Í færnibúðum fá þátttakendur tækifæri til að prófa fjölbreyttar íþróttir og leiki sem þeir hefðu annars ekki haft aðgang að. Þjálfunin fer fram „maður á mann“ og þátttakendur fá að velja sínar eigin áskoranir. Samhliða fer fram færnimat sem Háskólinn í Reykjavík sér um, og niðurstöðurnar nýtast í áframhaldandi þjálfun með íþróttakennurum.

Markmið og áhrif
Markmið færnibúðanna er að:
- Auka sjálfstraust og sjálfstæði þátttakenda.
- Efla hreyfifærni og þátttöku í íþróttum.
- Veita þjálfurum og kennurum verkfæri til að vinna með fötluðum ungmennum.
- Skapa vettvang fyrir félagsleg tengsl og gleði.
Hvernig skrái ég mig?
Færnibúðir eru haldnar árlega í október. Skráning á búðirnar verður auglýst í lok sumars ár hvert.