Ærumeiðingar eða tjáningarfrelsi - Hæstiréttur sýknar stjórnarmenn Blindrafélagsins í meiðyrðamáli sem Bergvin Oddsson höfðaði gegn þeim.

Fimmtudaginn 21 júní 2018 sýknað i Hæstiréttur fyrrverandi og núverandi stjónarmenn Blindrafélagsins í meiðyrðamáli sem Bergvin Oddsson höfðaði gegn þeim. Var málshöfðunin tilkomin  vegna orðalags í ályktun stjórnar Blindrafélagsins, þegar stjórnin lýsti yfir vantrausti á Bergvin í september 2015, en þá var Bergvin formaður Blindrafélagsins. 
 
Reifun

Með héraðsdómi var fallist á kröfu BO, fyrrum formanns Blindrafélagsins, um að ómerkt yrðu ummæli í ályktun sem samþykkt var með atkvæðum BSB o.fl. á stjórnarfundi félagsins um að hann hefði vélað ungan félagsmann þess til að leggja allt sitt sparifé í fasteignabrask honum tengt. Í dómi Hæstaréttar kom fram að ekki væri unnt að draga þá ályktun að í ummælunum hefði falist aðdróttun um refsiverða háttsemi BO, en það breytti því þó ekki að í þeim hefðu verið fólgnar alvarlegar ásakanir sem gætu talist ærumeiðandi samkvæmt 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við úrlausn um það yrði í fyrsta lagi að líta til stöðu Blindrafélagsins og starfsemi þess sem væri að stórum hluta háð fjárframlögum frá öðrum. Eflaust ekki síst af þeirri ástæðu væri lögð áhersla á það í lögum félagsins að hver og einn stjórnarmaður þess virti siðareglur félagsins, hagsmuni þess og einstakra félagsmanna, en yrði misbrestur á því væri félagsstjórn heimilt að samþykkja tillögu um vantraust á hann. Við þær aðstæður, sér í lagi ef talið yrði að stjórnarmaðurinn hefði gengið gegn hagsmunum félagsmanns sem stæði höllum fæti vegna fötlunar sinnar, yrði að játa öðrum stjórnarmönnum rýmkuðu tjáningarfrelsi. Í annan stað hefði það verulega þýðingu hvort ummælin í garð BO ættu sér stoð í málsatvikum. Að sögn BO hefði A, sem var ungur að árum og hafði nýlega misst sjónina að mestu leyti, leitað til sín og hann í kjölfarið lagt til að A stofnaði fasteignafélag með sér og föður sínum. Gert var ráð fyrir að stofnfé félagsins yrði 7.000.000 krónur og legði A fram 20% þess og BO og faðir hans samtals 80%. Við stofnun félagsins var hins vegar ákveðið að stofnféð yrði 500.000 krónur, en engu að síður greiddi A skömmu síðar 1.400.000 krónur inn á persónulegan reikning BO. Í dómi Hæstaréttar sagði að ekkert í málsgögnum benti til að BO og faðir hans hefðu lagt neitt fé eða annars konar verðmæti til félagsins við stofnun þess eða strax í kjölfar hennar. Þá væri engar upplýsingar að finna um það hvort fé sem A hafði ítrekað lagt á reikning BO hefði verið ráðstafað af reikningnum og þá í hvaða tilgangi. Ályktun stjórnarfundarins hefði verið reist á frásögn A af málsatvikum og gögnum sem hann hafði ýmist látið BSB o.fl. í té eða þau aflað með öðrum hætti. Áður en tillaga að ályktunninni hefði verið tekin til afgreiðslu á fundinum hefði BO verið gefinn kostur á að skýra málið frá sinni hlið, auk þess sem hann svaraði fyrirspurnum um einstök atriði þess. Þrátt fyrir að BSB o.fl. hefðu tekið óþarflega sterkt til orða með hinum umdeildu ummælum var ekki talið að þau hefðu með þeim farið út fyrir mörk tjáningarfrelsis síns samkvæmt 2. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 1. mgr. 10. gr. samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu. Voru BSB o.fl. því sýknuð af kröfum BO.

Tengill inn á dóminn