Mikilvægi góðs aðgengis. Áminning frá Blindrafélaginu.

Við lifum á tímum þar sem tæknilausnir spretta upp og þróast hraðar en nokkru sinni fyrr. Í nýjum lausnum felast ný tækifæri en einnig nýjar áskoranir. Undanfarin ár hefur Blindrafélagið, ásamt öðrum, lagt mikla vinnu í að benda á mikilvægi góðs aðgengis enda lifa um 20% jarðarbúa við einhvers konar fötlun eða skerðingu samkvæmt opinberum tölum Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar (WHO).

Undanfarna mánuði hefur færst í aukana að lausnir sem áður voru aðgengilegar hafi því miður farið aftur hvað þau mál varðar með nýjum uppfærslum og útgáfum. Þetta veldur auðvitað áhyggjum og bendir til þess að aðgengismál séu ekki höfð í fyrirrúmi í þessum aðgerðum og oft getur tekið margar vikur eða jafnvel mánuði að ná því til baka.

Blindrafélagið telur því brýna þörf á að vekja athygli á þessum málum og hvetja til breytinga þess efnis að aðgengismál verði skilgreind sem hluti af daglegum rekstri stafrænna lausna og nýjunga. Aðgengi skal ekki hugsast sem áfangastaður heldur er það stöðugt ferli sem þarf alltaf að hafa í huga.

Hjá Blindrafélaginu starfar teymi sem sinnir aðgengis- og tæknimálum og hvetjum við aðila til að leita þangað ef þörf er á aðstoð, upplýsingum eða leiðbeiningum er varða þessi mál. Við erum boðin og búin til að vinna með hverjum sem er í bættu aðgengi fyrir okkar félagsmenn, sem og alla aðra.

Það er í þessum málum sem og öðrum sem við verðum öll að standa saman og vinna saman. Mikilvægi stafræns aðgengis hefur að öllum líkindum aldrei verið jafn mikilvægt og í dag þar sem sífellt fleiri fyrirtæki og stofnanir færa sig yfir í stafræna þjónustu með nýjum lausnum. Að auki ýtir það undir þörfina fyrir stafrænt aðgengi á vefsvæðum og smáforritum þegar margir vinna að heiman og ætla má að fleiri sækja sér upplýsingar með stafrænum hætti en áður.

Aðgengi skiptir okkur öll máli og almenna reglan er sú að lausnir eins og vefsíður, smáforrit o.s.frv. sem skarta góðu aðgengi eru auðveldari í notkun fyrir alla.