Víðsjá komin út

Augndeild Landsspítalans hefur unnið þrekvirki að undanförnu í því að stytta bið eftir augnasteinaaðgerðum. En starfsemin í gamla fæðingarheimilinu við Eiríksgötu er öflug og teygir anga sína um heim allan. Víðsjá fór í heimsókn á deildina og fræddist um verkefnin og stöðuna.

Ungir blindir og sjónskertir frá öllum Norðurlöndum hittust í Reykjavík í sumar og  stóðu fyrir átaksverkefninu Yellow Reykjavík í samstarfi við Reykjavíkurborg. Þar sem fatlaðir taka málin í eigin hendur og gera borgina aðgengilegri. Víðsjá fékk að taka þátt og hitta Dario Sorgato sem er maðurinn á bakvið Yellow the World.

Opið hús lagði land undir fót. Það er starfrækt Opið hús í Hamrahlíð 17 allan veturinn þar sem félagsmenn geta hist og skemmt sér. Þegar vora tekur leggja félagsmenn land undir fót og fara í svokallaða vorferð. Víðsjá fékk að fljóta með.

Hægt er að lesa blaðið hér.

Í blaðinu kemur fram að blaðið sé borið út í umhverfisvænum pokum en því miður tókst það ekki vegna tæknilegra örðuleika. Blindrafélagið stefnir samt sem áður að því að bera út næsta blað í umhverfisvænum umbúðum.  

Viðsjá skipar lykilhlutverk í fjáröflun Blindrafélagsins en félagið þarf að afla 90% af tekjum sínum með eigin fjáröflun til að standa undir nauðsynlegri starfsemi og þjónustu. Víðsjá kemur út tvisvar á ári, í febrúar og ágúst. Upplag blaðsins er um  20.000 eintök. Því er dreift til félagsmanna, styrktarfélaga, bakhjarla og annarra velunnara félagsins sem stutt hafa félagið á síðastliðnum árum. Auk þess er blaðið sent til ýmissa félaga, fyrirtækja og opinberra aðila með áherslu á þá sem tengjast heilbrigðisþjónustu.
Samkvæmt könnunum Capacent, sem gerðar voru fyrir Blindrafélagið, þá sögðust 74% aðspurðra hafa lesið eða flett blaðinu, það þýðir að um 15 þúsund manns skoðuðu blaðið. Af þeim sem voru 82% ánægðir með efnistök blaðsins sem sýnir að ritstjórnarstefna blaðsins höfðar vel til markhópsins. 
Tilgangur Víðsjár er að stuðla að sem viðtækustum skilningi og stuðningi, meðal félagsmanna og almennings á: 
Lífsgæðum og mannréttindum blinds og sjónskerts fólks á Íslandi.  
Nýjustu rannsóknum og meðferðartilraunum á sviði augnlækninga. 
Verkefnum á vettvangi Blindrafélagsins eða sem eru studd af því.

Stuðningur hins opinbera við starf Blindrafélagsins hefur dregist verulega saman á síðustu árum sem leiðir til þess að félagið þarf enn frekar að leita til almennings í landinu eftir stuðningi.
Eitt af verkefnum Blindrafélagsins er Vefvarpið. Það er nettengd lestölva sem les upphátt í rauntíma texta á erlendu efni í sjónvarpi, Morgunblaðið, alla helstu vefmiðla, bækur frá Hljóðbókasafni Íslands og margt fleira. Vefvarpið notar talgervilinn Karl og Dóru við upplesturinn. Ekki þarf neina tölvukunnáttu til að geta nýtt tækið. Þessi tækni hefur valdið straumhvörfum í upplýsingamiðlun til blindra og sjónskertra eldri borgara.
Á þessu ári eru 78 ár frá stofnun Blindrafélagsins. Í allan þann tíma hefur félagið barist af alefli fyrir réttindum blindra og sjónskertra og í dag er félagið í fararbroddi í jafnréttisbaráttu fatlaðra á Íslandi