Vorhappdrætti Blindrafélagsins 2011

Stuðningur til sjálfstæðis!

Blindrafélagið, samtök blindra og sjónskertra á Íslandi, fjármagnar starfssemi sína að langmestu leyti með sjálfsaflafé. Þar gegnir happdrætti félagsins, með sínum glæsilegu vinningum, veigamiklu hlutverki. Með því að kaupa happdrættismiða tekur þú virkan þátt í að styðja til sjálfstæðis blinda og sjónskerta einstaklinga á öllum aldri og stuðlar þannig að auknum lífsgæðum þeirra og um leið betra samfélagi.

Stuðningsmenn félagsins fá sendan miða í pósti, sem einnig mun birtast í heimabönkum þeirra sem valkrafa. Að þessu sinni vill félagið einnig gera ungu fólki kleift að styðja félagið með miðakaupum. Því fá þeir sem eru á aldrinum 25 – 30 ára sendan rafrænan miða sem birtist sem valkrafa í heimabanka þeirra,

Blindrafélagið var stofnað árið 1939 og er því yfir 70 ára gamalt.  Með stofnárið í huga er verð miðanna ákveðið kr. 1.939,-

Alls eru 100 glæsilegir vinningar í boði. Þar á meðal eru bílavinningur frá Heklu, ferðavinningar frá Heimsferðum og gistivinningar innanlands frá Fosshótelum.

Stuðningur hins opinbera við starf Blindrafélagsins hefur dregist verulega saman á síðustu 2 – 3 árum sem leiðir til þess að félagið þarf enn frekar að leita til almennings í landinu eftir stuðningi.

Stærsta verkefni Blindrafélagsins um þessar mundir er smíði á nýjum íslenskum talgervli sem mun bæði henta blindu og fólki og öllum öðrum sem þurfa að fá tölvutexta lesinn upp á sjálfvirkan hátt. Þetta er kostnaðarsamt og ögrandi verkefni sem mun krefjast samstillts átaks allra þeirra sem hagsmuna eiga að gæta. Takist vel til, getur þetta verkefni valdið straumhvörfum í lífsgæðum þúsunda einstaklinga.