Fundargerð aðalfundar Blindrafélagsins 17. október 2020

1. Fundarsetning.

Formaður Blindrafélagsins, Sigþór Unnsteinn Hallfreðsson, setti fundinn kl. 13:20. Hann sagðist vera að rísa upp úr kórónuveikindunum. Vegna fordæmalausra tíma urðum við að fresta aðalfundinum í vor og það var ljóst í sumar að það væri ekki hægt að halda hann með hefðbundnum hætti. Þess vegna lagði stjórnin til að fundurinn væri haldinn rafrænt. Sigþór sagðist vera viss um að þessi nýja nálgun væri komin til að vera. Vonandi geta þeir sem þess óska næsta vor, komið upp í Hamrahlíð en hinir tekið þátt í fundinum rafrænt.

2. Kosning fundarstjóra og fundarritara.

Formaður félagsins lagði til að Jón Þór Víglundsson yrði fundarstjóri og Marjakaisa Matthíasson fundarritari. Var það samþykkt.

3. Kynning fundarmanna.

Fundarstjóri las upp nöfnin á viðstöddum. Á fundinum sátu 28 félagsmenn og 6 starfsmenn.

4. Fundargerð síðasta aðalfundar borin upp til samþykktar.

Fundarstjóri bar upp fundargerðina, sem birt hafði verið á miðlum félagsins upp til samþykktar og var hún samþykkt einróma.

5. Inntaka nýrra félaga.

Marjakaisa Matthíasson kynnti félagsmenn sem gengu í Blindrafélagið á starfsárinu og var félagsaðild þeirra að því loknu staðfest samróma.

6. Látinna félaga minnst.

Marjakaisa Matthíasson minntist þeirra félagsmanna sem féllu frá á starfsárinu.

7. Skýrsla stjórnar um störf félagsins á síðastliðnu ári.

Formaður félagsins þakkaði stjórnarmönnum fyrir samstarfið á liðnu ári og sagði frá helstu verkefnum stjórnar. 80 ára afmæli félagsins stóð upp úr og var afmælisdagurinn viðburðarríkur: forsetinn heimsótti félagið og vinnustofuna en afmælisdagskráin var haldin eftir hádegi á Hilton hótel Nordica. Blindrafélagið var einnig heiðursgestur á menningarnótt og var með fjölbreytta dagskrá í Tjarnarsal ráðhússins. Skv. talningu heimsóttu yfir 10.000 manns húsið á meðan á dagskránni stóð.

Vegna kórónuveirunnar höfum við þurft að fella niður meira eða minna allt félagsstarf. Tveir félagsfundir voru þó haldnir á tímabilinu: annar um fjöldaþróun öryrkja en hinn um leigubílafrumvarpið og áhrif þess á ferðaþjónustu blindra. Retina international ráðstefnan sem átti að vera í júní í ár var frestað um tvö ár og einnig norrænu kvennaráðstefnunni sem átti að vera á Íslandi í september. World Blind Union hefur líka frestað sínum aðalfundi til maí 2021.

Blindrafélagið hefur náð ferðaþjónustusamning við Hafnafjörð en nú bíðum við eftir að Mosfellsbær losni undan samningi við ferðaþjónustu fatlaðra. Leiðsöguverkefnið er í fullum gangi og hafa 13 leiðsöguhundar komið til landsins frá árinu 2008. Af þeim eru níu hundar starfandi. Reglur um sóttkví fyrir leiðsöguhunda var stytt í tvær vikur í staðinn fyrir fjórar og má telja þetta áfangasigur.

Í fyrra var lokið við miklar viðhaldsframkvæmdir á Hamrahlíð 17. Verið er að huga að því að stækka húsið og hefur deiliskipulagið verið samþykkt. Stjórnin hefur þó enn ekki tekið ákvörðun um framkvæmdina. Að lokum nefndi formaður að dagur hvíta stafsins og sjónverndardagurinn voru í ár haldnir rafrænt vegna ástandsins.

Umræður um skýrslu formanns:
Bergvin Oddsson spurði hvernig ferðaþjónustumál standa á landsbyggðinni. Sigþór svaraði að hver félagsmaður þurfi að óska eftir ferðaþjónustu í sínu sveitafélagi. Ef því er hafnað getur félagið veitt viðkomanda aðstoð við að sækja sinn rétt.

Gísli Helgason lýsti því yfir að hann væri ekki ánægður með það hve sjaldan formaður félagsins tjái sig opinberlega. Hann nefndi einnig að Hljóðbrot hafi farið vel af stað en hefur ekki staðist undir væntingum.

8. Kynning og afgreiðsla ársreikninga félagsins og sjóða sem eru í eigu félagsins.

Hjördís Ýr Ólafsdóttir og Erla Kristinsdóttir endurskoðendur frá KPMG fóru yfir ársreikninga Blindrafélagsins og verkefnasjóðsins.

Rekstrartekjur í rekstrarreikningi fyrir árið 2019 námu 245 miljónum króna sem er 4,4% hækkun frá fyrra ári. Það eru litlar breytingar milli ára. Rekstrargjöld námu samtals 234 miljónum króna samanborið við 209 miljónir árið áður. Þar er helsta hækkun í launum og launatengdum gjöldum. Ástæðan er fjölgun starfsmanna og samningsbundnar launahækkanir. Í félagsmáladeildinni voru gjöld umfram tekjur tæplega 80 miljónir króna samanborið við 66 miljónir árið 2018. Rekstur fasteigna skilaði tekjum umfram gjöld tæpum 11 miljónum króna og fjáraflanir skiluðu tekjum umfram gjöld um 53 miljónir króna. Það eru ekki miklar sveiflur í einstökum liðum á milli ára. Sala jólakorta skilar minni tekjum en áður og sama má segja um dagatöl.

Efnahagsreikningur í lok 2019 sýnir að heildareignir námu 1,2 milljörðum króna sem er 3% hækkun, mesta hækkunin er í rekstrarfjármunum sem námu 979 miljónum króna og hafa hækkað um 130 miljónir á milli ára. Óráðstafað eigið fé félagsins nemur 187 miljónum króna en skuldir 263 miljónir króna en lækka lítillega á milli ára.

Erla kynnti ársreikning verkefnasjóðsins sem er í vörslu félagsins og er sá reikningur einfaldur. Í honum námu tekjur umfram gjöld rétt tæpri 1 miljón króna. Gjafir og áheit voru 8,9 miljónir. Kostnaðurinn í heildina var 12,5 miljónir á móti tekjum 11,5 miljónum. Eignahagsreikningurinn sýnir heildareignir upp á 79,5 miljónir króna.

Umræður um ársreikninga:

Sigurjón Einarsson benti á að ekki hefði verið hægt að fá aðgang að reikningum rafrænt. Hann bað um að fá að sjá áritun stjórnarmanna á þeim.

Framkvæmdastjóri félagsins Kristinn Halldór Einarsson svaraði að hægt hefði verið að nálgast reikningana á skrifstofu félagsins viku fyrir aðalfund. Það hefur ekki verið venja að senda þá rafrænt en ef svo á að vera, þarf að taka ákvörðun um það.

Gísli Helgason staðfesti að það hafi aldrei verið venja að senda út reikninga. Hann benti einnig á að undirskriftir væru mismunandi og stundum ólæsilegar. Hjördís Ýr Ólafsdóttir sagði að rafræn undirritun væri notað í æ meira mæli en sjálfsagt væri að bæta við nöfnum þeirra sem undirrita reikninga.
Reikningarnir voru samþykktir með öllum greiddum atkvæðum.

9. Kosning formanns til tveggja ára.

Í framboði voru þeir Arnþór Helgason og Sigþór Unnsteinn Hallfreðsson. Báðir fengu að kynna sig, Arnþór í gegnum síma þar sem hann var ekki viðstaddur á fundinum.
Í kosningunum voru alls greidd 78 atkvæði. Arnþór hlaut 14 en Sigþór 62 og er Sigþór réttkjörinn formaður.

10. Kosning tveggja aðalmanna og tveggja varamanna í stjórn.

Allir frambjóðendum fengu tækifæri til að kynna sig. Eftir kynninguna taldi Sigurjón Einarsson að ekki væri hægt að loka fyrir kosningu fyrr en búið væri að telja atkvæði í formannskjöri. Fallist var á það.
Í aðalstjórnina voru kjörin þau Ásdís Evlalía Guðmundsdóttir með 52 atkvæði og Eyþór Kamban Þrastarson með 46 atkvæði. Varamenn eru Þórarinn Þórhallsson með 40 atkvæði og Dagný Kristmannsdóttir 35 atkvæði.

11. Lagabreytingar.

Fyrir fundinn lá lagabreytingartillaga frá Arnþóri Helgasyni um að taka út úr lögum félagsins 5. grein um bakhjarla. Arnþór mælti með tillögu sinni og sagði að hann sæi ekki ástæðu til þess að gefa bakhjörlum óskoðaðan atkvæðisrétt. Sum félög fatlaðra eins og SIBS hafi verið eyðilögð með því að þar hafi verið smalað inn í stjórnir fólki sem ekki var fatlað í raun og veru. Þar að auki er Blindrafélagið talið eitt stærsta félag ÖBI vegna bakhjarla. Hann lagði áherslu á að Blindrafélagið væri ekki félagið þeirra heldur blindra og sjónskertra.

Gísli Helgason tók til máls og studdi tillöguna.

Lilja Sveinsdóttir nefndi að bakhjarlar hafi málsrétt en ekki atkvæðisrétt í aðalfundi en auk þess geta ekki fleiri en tveir í einu setið í stjórn félagsins. Kristinn Halldór Einarsson bætti við að heiti styrktarfélaga var breytt í bakhjarla fyrir þó nokkrum árum og að þeir hafi ekki sýnt áhuga á að taka þátt í stjórninni. Þeirra staða er mjög takmörkuð innan félagsins. Sigþór U. Hallfreðsson sagðist upphaflega hafa komið í félagið sem bakhjarl og taldi þá mikilvæga stuðningsmenn. Eyþór Kamban Þrastarson og Oddur Stefánsson studdu ekki heldur þessa tillögu.

Kosið var um tillöguna með því að lyfta upp hönd. Tveir studdu breytingartillöguna en 22 voru á móti og var hún því ekki samþykkt.

12. Árstillag félagsmanna og gjalddagi þess.

Stjórnin leggur til að árstillag verði áfram 4000 kr. með gjalddaga í febrúar. Tillagan var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

13. Kosning í kjörnefnd.

Stjórn félagsins leggur til óbreytta kjörnefnd: Bessa Gíslason, Brynju Arthúrsdóttur, Sigtrygg R. Eyþórsson og Hörpu Völundardóttur sem varamann. Tillaga stjórnar var samþykkt án atkvæðagreiðslu.

14. Kosning tveggja skoðunarmanna.

Stjórn félagsins gerði tillögu um Hjört Heiðar Jónsson og Jón Heiðar Daðason og var tillagan samþykkt án atkvæðagreiðslu.

15. Aðalfundur ákveður laun stjórnarmanna.

Fyrir fundinum lá tillaga stjórnar um óbreytt laun, 7500 kr. fyrir hvern fund. Sigurjón Einarsson lagði til að ekki yrði greitt fyrir stjórnarsetu. Kristinn Halldór Einarsson gerði athugasemd við þessa tillögu. Samkvæmt lögum félagsins ákveður aðalfundur laun stjórnarmanna og til þess að gera þessa tillögu þarf að breyta lögum.

Tillaga Sigurjóns hlaut ekki stuðning. Tillaga stjórnar var samþykkt með 19 atkvæðum gegn einu.

16. Önnur mál.

Margir tóku til máls undir þessum lið. Flestir óskuðu nýkjörinni stjórn til hamingju og stjórnarmenn þökkuðu fyrir stuðninginn.

Patrekur Axel Andrésson velti því fyrir sér hvort hægt væri að koma vefvarpinu í smáforritaform fyrir snjallsíma. Hann hrósaði félagið og Þjónustu- og þekkingarmiðstöðina fyrir sýnileika á félagsmiðlum undanfarna viku í tengslum við dag hvíta stafsins. Baldur Snær Sigurðsson útskýrði að vefvarpið notar svo sérhæft kerfi að það væri varla hægt að breyta vefvarpinu í smáforrit en til stendur að þróa Hljóðbrot í alvöru podcast.

Eyþór Kamban Þrastarson skoraði á félagsmenn að taka mynd af sér með hvíta stafnum og birta hana á félagsmiðlum til að sýna að við værum stoltir stafanotendur.

Halldór Sævar Guðbergsson lagði til að félagið mundi kanna upplifun félagsmanna af þátttöku þeirra á rafræna fundinum. Hann óskaði einnig eftir því að stjórn félagsins ynni nánar með Þjónustu- og þekkingarmiðstöðina m.a. varðandi leiðsöguhunda sem eru taldir hjálpartæki en sem Blindrafélagið hefur fjármagnað hingað til.

Rósa María Hjörvar bað um að félagið myndi kanna aðgengi sjálfsafgreiðslukassa sem verða æ algengari.

17. Fundarslit.

Nýkjörin formaður staðhæfði að þetta fundarform væri komið til að vera. Vonandi sem val þannig að þeir sem þess óska geta tekið þátt í fundarhöldunum heima hjá sér. Hann sagði að fundarstjórinn Jón Þór Víglundsson hafi tekið þátt í því hjá ÖBI að gera kosningarkerfið aðgengilegt. Blindrafélagið mun senda þátttakendum aðalfundar spurningarlista um hvernig til tókst og hvað mætti betur fara. Hann þakkaði fyrir góðan og ganglegan fund og sleit honum kl. 17:05.