Fundargerð félagsfundar Blindrafélagsins 21. febrúar 2019

Félagsfundur í Blindrafélaginu samtökum blindra og sjónskertra á Íslandi haldinn að Hamrahlíð 17, 21. febrúar 2019 kl. 17:00.

Meginefni fundarins var kynning á niðurstöðum kannana sem Gallup framkvæmdi fyrir Blindrafélagið, almannatryggingakerfið og fyrirhugaðar breytingar á því, framkvæmdir að Hamrahlíð 17 og tillaga sem lá fyrir fundinum um nýtt merki Blindrafélagsins sem byggt væri á hvíta stafnum.

Fundarsetning.

Formaður félagsins Sigþór U. Hallfreðsson setti fund kl. 17:04 og bauð alla fundarmenn velkomna með nokkrum orðum. hann vék að rekstri Blindrafélagsins og Blindravinnustofunnar, ræddi um fyrirhugað 80 ára afmælishald félagsins og fleira.

1. Kynning fundarmanna.

Þá kynntu fundarmenn sig. Alls voru um 20 manns á fundinum, þar af 3 til 5 utan félags.

2. Kjör fundarstjóra og fundarritara.

Samkvæmt tillögu formanns var Eyþór Kamban Þrastarsson kjörinn fundarstjóri og Gísli Helgason fundarritari.

3. Tillaga að dagskrárbreytingu.

Fundarstjóri bar upp tillögu að breytingu á dagskrá fundarins þar sem borist hefði tillaga um nýtt merki Blindrafélagsins. Var dagskrárbreyting samþykkt samhljóða.

4. Fundargerð síðasta félagsfundar frá 21. nóvember sl.

Var lögð fram og samþykkt samhljóða.

5. Niðurstöður könnunar um húsnæðismál og almenna líðan félagsmanna.

Þá fór Tómas Bjarnason frá Gallup á Íslandi yfir niðurstöður könnunar sem gerð var fyrir Blindrafélagið. Könnunin var þríþætt, um húsnæðismál, vellíðan og #metoo, þ.e. kynferðislega áreitni á meðal félagsmanna Blindrafélagsins. Bar niðurstöður saman við aðra hópa samfélagsins.

Umræður urðu að lokinni kynningu á könnuninni. Til máls tóku Rósa María Hjörvar, Marjakaisa Matthíasson og Steinar Björgvinsson.

6. Kjaramál öryrkja.

Rósa María Hjörvar, formaður kjaramálahóps Öryrkjabandalagsins, og Halldór Sævar Guðbergsson, varaformaður Öryrkjabandalagsins, höfðu framsögu um almannatryggingakerfið og fyrirhugaðar breytingar á því. Megin inntakið í máli þeirra var fyrirhugað starfsgetumat í stað örorkulífeyris og vöruðu þau bæði við slíkum breytingum. Þá var mikið rætt um krónu á móti krónuskerðingu og atvinnuþátttöku fatlaðs fólks ásamt fleiru.

Miklar og tilfinningaþrungnar umræður sem stóðu yfir í um hálfa klukkustund sköpuðust. Rætt var m.a. um atvinnu fólks með örorkulífeyri og margt fleira. Til máls tóku auk framsögumanna:
Steinar Björgvinsson, Hreiðar Sigmarsson, Lilja Sveinsdóttir, Gísli Helgason, og Baldur Snær Sigurðsson.
Formaður Blindrafélagsins las upp eftirfarandi ályktun frá stjórn Blindrafélagsins sem var samþykkt með orðalagsbreytingum frá Steinari Björgvinssyni.

Öruggt þjóðfélag, örugg framfærsla.
Félagsfundur Blindrafélagsins haldinn 21. febrúar 2019 skorar á íslensk stjórnvöld að tryggja fötluðu fólki viðunandi framfærslu með því að tryggja því raunverulegt aðgengi að vinnumarkaði til jafns við aðra og með því að tryggja örugga afkomu fyrir þá, sem reiða sig á almannatryggingakerfið sér til framfærslu.

Um þessar mundir stendur yfir heildar endurskoðun á almannatryggingakerfinu með hliðsjón af hugmyndum stjórnvalda um nýtt starfsgetumat. Blindrafélagið fagnar því að stjórnvöld skuli leggja áherslu á málefni fatlaðra með þessum hætti en ítrekar jafn framt að öll slík vinna skuli ávallt fara fram með hagsmuni og sjálfsákvörðunarrétt fatlaðra að leiðarljósi. það er því grundvallarkrafa að allt starf um framtíðar atvinnuumhverfi fatlaðra sé byggt á sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, og í virku samráði við hagsmunaqfélög fatlaðra. Staða málaflokksins er í dag ekki góð, þar sem aðgengi að vinnumarkaði er takmarkað og þeir sem þurfa að reiða sig á framfærslu hins opinbera lenda í fátæktargildru skerðinga.

Reynsla nágrannalanda okkar af svokölluðu starfsgetumati er ekki jákvæð og virðast slík kerfi ekki hafa borið gæfu til þess að gera atvinnumarkaðinn aðgengilegri, né heldur að hækka heildartekjur fatlaðra. það virðist því vera borðleggjandi að endurskoða þessar hugmyndir í ljósi þeirrar reynslu sem hlotist hefur, til að mynda á Bretlandi og í Danmörku.

Á meðan unnið er að því að þróa slíkt kerfi er ekkert því til fyrirstöðu að þingheimur afnemi krónu á móti krónuskerðinguna. Það er heldur engin ástæða til þess að bíða lengur með að gera ríkari kröfur til aðila á vinnumarkaði um að tryggja raunverulegt aðgengi að vinnu á réttlátum kjörum og forsendum.

Blindrafélagið hvetur stjórnvöld til að tryggja fjármagn í vinnumarkaðsaðgerðir sem gerir vinnuveitendum kleift að gera allar ráðstafanir sem þarf til að gera viðeigandi aðlögun fyrir blinda og sjónskerta, en kostnaðurinn við slíka aðlögun er ein stærsta hindrunin sem okkar hópur rekur sig á á vinnumarkaði í dag.
Jafnframt eru atvinnurekendur hvattir til að skipuleggja störf þannig að þau henti fólki með skerta starfsgetu og tryggja framboð af slíkum störfum.

Blindir og sjónskertir á Íslandi eru virkari á vinnumarkaði en gengur og gerist í nágrannalöndum okkar. Þessi hópur sinnir fjölbreyttum störfum og tekur virkan þátt í verðmætasköpun á Íslandi. Það er ekki sjálfgefið að það verði svoleiðis áfram. Til þess að styðja við þennan hóp og gera honum kleift að sinna vinnu lengur en ella, þarf að afnema allar skerðingar og skapa betri möguleika á stuðningi til virkni.”

Stjórn Blindrafélagsins, samtaka blindra og sjónskertra á Íslandi.

7. Viðhaldsframkvæmdir á Hamrahlíð 17

Kristinn Halldór Einarsson framkvæmdastjóri félagsins gerði grein fyrir þeim framkvæmdum sem unnið er að í Hamrahlíð 17

Stefnt er að því að þeim ljúki fyrir afmælisdag félagsins 19. ágúst nk. en þá fagnar félagið 80 ára afmæli sínu. Framkvæmdirnar eru því vel á undan áætlun.

Halldór Sævar Guðbergsson tók til máls undir þeim lið og fjallaði um Framkvæmdasjóð fatlaðra sem eitt sinn var til, en þar var hægt að sækja um styrki vegna viðhalds á fasteignum félaga fatlaðra.

8. Tillaga um að breyta merki Blindrafélagsins.

Þá var tekin fyrir tillaga frá Arnþóri Helgasyni og Sigtryggi R. Eyþórssyni um nýtt merki fyrir Blindrafélagið sem byggði á hvíta stafnum en ekki lýsislampanum eins og sagði í tillögu og rökstuðningi tillöguhöfunda. Í tillögunni var vísað til stjórnar um að taka þetta fyrir og leggja fram tillögu um nýtt merki Blindrafélagsins á næsta aðalfundi og að nýtt merki yrði tekið í notkun á 80 ára afmæli félagsins 19. ágúst nk.

Flutningsmenn voru ekki á fundinum, annar mætti ekki, hinn þurfti að fara af fundi áður en tillagan var tekin á dagskrá og mælti Gísli Helgason fyrir henni.

Í greinargerð með tillögunni var minnt á að systursamtök okkar á hinum Norðurlöndunum væru með merki sem væri grundvallað á hvíta stafnum. Ef nýtt merki yrði tekið upp myndi t.d. gulllampinn hverfa og heiðursmerki sem byggði á hvíta stafnum koma í staðinn.

Á eftir urðu umræður um tillöguna. Baldur Snær Sigurðsson sagðist hafa skoðað merki ýmissa erlendra blindrasamtaka og væru merki þeirra margs konar. Hann var jákvæður fyrir því að skoða hvort taka ætti upp nýtt merki fyrir félagið eða halda því gamla. Taldi merkið þekkt í samfélaginu og kannski varhugavert að skipta um það.

Friðrik Steinn Friðriksson var sammála tillöguhöfundum hugmyndafræðilega að taka til athugunar að skipta um merki. En þá yrði að taka merkið algjörlega í gegn. Eins og merki Blindrafélagsins er nú er það fagurfræðilega mjög ójafnt og virkar kannski svolítið illa. Friðrik sagði nafn Blindrafélagsins miklu dýrmætara en merkið, lampinn sjálfur.

Sigþór Hallfreðsson ræddi vítt og breytt um merkið og fannst lampinn í því hafa trúarlega skírskotun. Hann velti fyrir sér hvað stofnendur félagsins hefðu hugsað með gerð merkisins.
Sigþór lagði fram breytingatillögu frá stjórn við tillögu Arnþórs og Sigtryggs um að félagsfundurinn fæli stjórn félagsins að rýna í merki Blindrafélagsins, sögulegan bakgrunn þess og tilgang. Niðurstöður þessarar vinnu verði kynntar á aðalfundi Blindrafélagsins árið 2020.

Jafnframt yrði að kanna hug félagsmanna til þess að breyta því. Í þeirri vinnu skuli haldið til haga hugmyndafræðilegum rökstuðningi fyrir því að merki félagsins endurspegli styrk og sjálfstæði Blindra og sjónskertra einstaklinga með vísan í kjörorð félagsins Stuðning til sjálfstæðis.

Rósa María Hjörvar taldi jákvætt að breyta merkinu og að það myndi hugsanlega skapa meiri umræður um málefni blindra og sjónskertra í þjóðfélaginu. Minnti á breytingu á stöðumerki fyrir fatlaða sem hefði skapað jákvæðari ímynd.

Gísli Helgason og Sigþór Hallfreðsson tókust áum hvort skipa ætti nefnd í málið eða hvort þetta ætti að vera á borði stjórnar. Niðurstaðan var að nefnd skyldi kosin í málið.

Halldór Sævar Guðbergsson og Baldur Snær lýstu ánægju með að merkið yrði skoðað og nútímavætt.
Breytingatillaga stjórnar við tillögu Arnþórs og Sigtryggs var síðan borin upp og samþykkt með þeirri orðalagsbreytingu að nefnd á vegum stjórnar yrði skipuð í málið.

9. Kynning á starfi aðgengisfulltrúa Blindrafélagsins.

Rósa María Hjörvar sem nýlega ráðin sem aðgengisfulltrúi Blindrafélagsins kynnti starf sitt.

10. Fundarslit.

Formaður sleit síðan fundi með nokkrum orðum um kl. 19:40. Nokkur orðaskipti urðu á milli fundarritara og formanns í upphafi og lok fundar vegna ritunar fundargerðar síðasta félagsfundar.

Hljóðritun af fundinum í heild er á heimasíðu félagsins og enn í vefvarpinu þegar þessi fundargerð er rituð.

Reykjavík 8. september 2019

Gísli Helgason.