Fundargerð stjórnar nr. 10 2018-2019

Fundargerð 10. stjórnarfundar Blindrafélagsins, starfsárið 2018 – 2019, haldinn miðvikudaginn 12. desember kl. 16:00 að Hamrahlíð 17.

Mættir: Sigþór U. Hallfreðsson (S.U.H.) formaður, Lilja Sveinsdóttir (L.S.) varaformaður, Eyþór Kamban Þrastarson (E.K.Þ.) gjaldkeri, Rúna Ósk Garðarsdóttir (R.Ó.G.) meðstjórnandi, Guðmundur Rafn Bjarnason (G.R.B.) varamaður, Rósa Ragnarsdóttir (R.R.) varamaður, Þórarinn Þórhallsson (Þ.Þ.) varamaður og Kristinn Halldór Einarsson (K.H.E.) framkvæmdastjóri.
Fjarverandi: Dagný Kristmannsdóttir (D.K.) varamaður, Hjalti Sigurðsson (H.S.) ritari.

1. Fundarsetning, dagskrá og lýst eftir öðrum málum.

Formaður (S.U.H.) setti fundinn kl. 16:00 og bauð fundarmenn velkomna.
S.U.H. bar upp tillögu að dagskrá, sem send hafði verið út með fundarboðinu. Var tillagan samþykkt samhljóða.

Lýst eftir öðrum málum: Engin önnur mál.

2. Afgreiðsla fundargerðar.

Fundargerð 9. fundar, sem send var stjórnarmönnum fyrir fundinn, var samþykkt samhljóða.

3. Skýrslur bréf og erindi.

Í skýrslu formanns var fjallað um:

 • Upplýsingafundur starfsmanna Blindrafélagsins og Miðstöðvarinnar 17. desember.
 • Málstofa um punktaletur 16. jJanúar.
 • Varðveisla Valdra greina.
 • Hvatningaverðlaun ÖBÍ.
 • Ritstjórnarfundur Víðsjár.
 • Stuðningsnet sjúklingafélaganna.
 • UNK ráðstefna 2019 - undirbúningur.
 • Erlent og innlent samstarf, mikilvægar dagsetningar.

Í skýrslu framkvæmdastjóra var fjallað um:

 • Framkvæmdir og húsnæðismál.
 • Ávöxtun sjóða.
 • Fjáraflanir.
 • Ráðning aðgengisfulltrúa.
 • Útleiga íbúðar í Hamrahlíð 17.
 • Ýmsa samninga Blindrafélagsins.
 • Af vettvangi Almannaróms.

Erindi: Engin erindi.

4. Inntaka nýrra félaga.

Ekki lágu fyrir umsóknir um félagsaðild.

5. Niðurstaða könnunar á húsnæðisaðstæðum og #MeToo.

S.U.H. bauð Tómas Bjarnason frá Gallup velkominn til að kynna niðurstöðu skoðanakönnunar sem að Gallup gerði fyrir Blindrafélagið í þeim tilgangi að fá fram upplýsingar um húsnæðisaðstæður félagsmanna, um reynslu þeirra af ýmiskonar neikvæðum samskiptum, einelti og áreiti almennt í sínu lífi og í starfi sínu innan Blindrafélagsins.

Markmið rannsóknarinnar var að kanna stöðu ýmissa mála meðal félagsmanna Blindrafélagsins á eftirfarandi þáttum, í þeim tilgangi að gera félaginu betur kleift að vinna að hagsmunum félagsmanna:

 • Staða húsnæðismála.
 • Lífshamingja og velferð félagsmanna.
 • Aðstæður og einkenni svarenda.
 • Tíðni neikvæðra samskipta; #metoo og áreitni.
 • Hvenær samskiptin voru.
 • Hvar þau fóru fram.
 • Hver var gerandinn.
 • Af þeim sem hringt var í eða send var könnun, svöruðu 235 eða 47%.

Húsnæðismál:

Ríflega sjö af hverjum tíu félagsmönnum búa í eigin húsnæði, nærri einn af hverjum fimm býr í leiguhúsnæði og einn af hverjum tíu býr í foreldrahúsum eða annarsstaðar.
Húsnæðisstaða félagsmanna er áþekk því sem má sjá í tölum Íbúðarlánasjóðs fyrir þjóðina og svipað hlutfall félagsmanna býr í eigin húsnæði eða leiguhúsnæði og þjóðin almennt.
Húsnæðisstaða er mjög tengd aldri svarandans. Nær helmingur félagsmanna 34 ára og yngri býr í foreldrahúsum. Til samanburðar búa um 42% 20 til 29 ára í foreldrahúsum almennt, skv. tölum Hagstofu. Með hækkandi aldri, búa fleiri í eigin húsnæði.

Sé horft á tölur frá Eurostat, má sjá að fatlaðir – eða þeir sem telja sig búa við „nokkrar eða talsverðar takmarkanir við daglegar athafnir, svo sem í námi, vinnu, við heimilisstörf eða þátttöku í frístundastarfi sex mánuði eða meira“ – búa að jafnaði sjaldnar í eigin húsnæði á Norðurlöndum en þjóðin almennt ef Finnland er undanskilið – en þar er hlutfallið jafnt.

Af þeim sem hafa miklar áhyggjur af fjárhagslegri stöðu sinni, búa hlutfallslega fleiri í leiguhúsnæði miðað við þá sem hafa litlar/engar áhyggjur af fjárhagslegri stöðu sinni, en þeir búa oftar í eigin húsnæði.
Af þeim sem búa í leiguhúsnæði, búa 76% í leiguhúsnæði á vegum sveitarfélags/félagasamtaka en 12% leigja á almennum markaði. Til samanburðar má sjá samkvæmt tölum Hagstofu að um helmingur leigjenda leigir á almennum markaði.

Hjá félagsmönnum Blindrafélagsins eru fáir á biðlistum eftir leiguhúsnæði, en þó helst þeir sem búa í foreldrahúsum. 

Húsnæðisöryggi þeirra sem búa í leiguhúsnæði er almennt gott og um 85% telja sig búa við húsnæðisöryggi. Meðal almennings er húsnæðisöryggi svipað – en um átta af hverjum tíu telja sig búa við húsnæðisöryggi, samkvæmt tölum Íbúðarlánasjóðs.

Þá hafa nær allir félagsmenn staðið í skilum með afborganir af húsnæðislánum síðustu tvö ár. Til samanburðar eru vanskil húsnæðislána eða leigu um 7% á síðustu 12 mánuðum skv. tölum Hagstofu.
Af þeim sem búa í eigin húsnæði er ríflega helmingur sem á 75 til 100% í húsnæðinu. Meðaleignarhlutur er um 70% sem er áþekkt því sem gerist hjá þjóðinni. Eignarhlutur í húsnæði er mjög aldursbundinn og vex með hækkandi aldri.

Lífshamingja og velferð:

Nærri átta af hverjum tíu félagsmönnum segjast ánægðir með lífið, en nærri einn af hverjum tíu eru óánægðir með lífið. Lítið eitt færri eru óánægðir með lífið meðal almennings, eða 6%.
Ánægja með lífið er mest meðal þeirra sem búa í foreldrahúsum og meðal 65 ára og eldri sem ekki búa einir. Minnst er ánægjan með lífið meðal foreldra á aldrinum 18-64 ára.

Nærri fjórðungur hefur oft eða alltaf verið einmanna á síðustu þremur mánuðum, ríflega þriðjungur hefur ekki verið einmanna. Einmannaleiki er mest áberandi meðal þeirra sem búa einir á aldrinum 18-64 ára. Þeir eru t.d. mun oftar einmanna en þeir sem búa einir á aldrinum 65 ára og eldri.

Þá var metin staða fólks á svokölluðum Cantril stiga sem heitir eftir sálfræðingnum Hadley Cantril. Tvær spurningar mynda kvarðann. Annars vegar mat á núverandi stöðu og svo stöðu í framtíðinni (eftir fimm ár). Fólk er beðið um að ímynda sér stiga með þrepum sem eru númeruð frá 0 neðst í stiganum, sem lýsir versta mögulega lífi og upp í 10 efst í stiganum sem lýsir besta mögulega lífi.

Út frá svörum fólks við þessum tveimur spurningum flokkar Gallup fólk í þrjá hópa. Í flokkinn „Dafna“ falla þeir sem sjá sig fyrir sér í 7. þrepi eða ofar og áætla að eftir 5 ár muni þeir standa í þrepi 8 eða ofar. Í flokknum „Í þrengingum“ eru þeir sem núna sjá sig fyrir sér í þrepum 0 til 4 og búast við að vera í þrepum 0 til 4 eftir 5 ár. Þeir sem hvorki „Dafna“ né eru „Í þrengingum“ eru sagðir vera „Í basli“.

Gallup metur stöðu almennings í fjölmörgum löndum og í heiminum öllum er um fjórðungur fólks sem telst „Dafna“ (thriving). Í skýrslu Gallup frá 2010 tróna Norðurlöndin, að undanskildu Íslandi, á toppi listans, Danmörk efst allra landa þar sem 82% dafna (sjá https://news.gallup.com/poll/126965/gallup-global-wellbeing.aspx). Ísland er talsvert neðar á lista, en samkvæmt þessari mælingu sem gerð er 2005-2009 dafnar um helmingur þjóðarinnar.

Gallup á Íslandi mælir reglubundið stöðu þjóðarinnar á Cantril kvarðanum. Í nýjustu mælingum Gallup á Íslandi dafna um 61% þjóðarinnar. Til samanburðar dafna 45% félagsmanna Blindrafélagsins. Þegar staðan er skoðuð eftir aldurshópum má sjá að staða félagsmanna er lítið eitt lakari í öllum aldurshópum, nema þeim elsta þar sem hún er sú sama og hjá þjóðinni.

Um 72% félagsmanna Blindrafélagsins hafa litlar eða engar áhyggjur af fjárhagsstöðu sinni. Matið er þó mjög aldursbundið og nær allir í elsta hópnum (75 ára og eldri) hafa litlar/engar áhyggjur af fjárhagsstöðu samanborið við tæplega helming svarenda meðal 34 ára og yngri. Þá hefur meira en helmingur foreldra miklar áhyggjur af fjárhagsstöðu sinni.

Aðstæður og einkenni svarenda.

Tæplega sex af hverjum tíu svarendum eru konur og ríflega fjórir af hverjum tíu hafa verið félagsmenn í Blindrafélaginu 11 ár eða lengur. Nærri helmingur svarenda er 75 ára eða eldri. 

Ríflega níu af hverjum tíu eru ekki í neinu formlegu námi. Nærri fjórðungur vinnur einhverja launaða vinnu um þessar mundir. Ríflega sex af tíu eru starfandi í aldurshópnum 55-64 ára, en minna í öðrum hópum og minnst í hópnum 75 ára og eldri. Um átta af hverjum tíu eru starfandi á Íslandi, samkvæmt vinnumarkaðskönnun Hagstofu, þannig að hlutfall starfandi er mun lægra hjá félagsmönnum Blindrafélagsins.

Nærri fjórir af tíu svarendum búa einir, en nærri helmingur svarenda býr með maka. Börn búa á heimili 12% svarenda.

Alblindir (með innan við 5% sjón) eru 8% svarenda, lögblindir (með 5 til 10% sjón) eru 65% svarenda og sjónskertir (með 11 til 30% sjón) eru 27% svarenda.

Neikvæðir atburðir, áreiti og ofbeldi.

Um 73% svarenda kusu að svara spurningum um „reynslu af ýmiskonar neikvæðum atburðum, kynferðislegu ofbeldi og áreitni“ af heildarhópi svarenda, en átta af hverjum tíu kusu að halda áfram og svara í öllum aldurshópum, utan þeim elsta þar sem ríflega helmingur kaus að svara. Fleiri karlar en konur svöruðu spurningunum.

Rannsóknir sýna almennt að líkur á áreitni og ofbeldi eru meiri meðal fatlaðra og þeirra sem búa við einhverskonar hamlanir en meðal almennings sem aftur hefur neikvæð áhrif á líðan og lífsgæði fólks.
Í könnuninni er tíðni neikvæðra allra atburða sem voru mældir og samanburður fékkst á lítið eitt hærri meðal félagsmanna en samanburðarhópsins.

Um 7% félagsmanna höfðu orðið fyrir ógnandi hegðun, hótunum eða ofbeldi á síðustu 12 mánuðum. Til samanburðar hafa um 5% í könnunum meðal stéttarfélaga og almennings upplifað það sama. Um 4% höfðu fengið kynferðislegar athugasemdir eða spurningar á síðustu 12 mánuðum, en 3% í viðmiðunarhópnum. Um 3% höfðu fengið óumbeðið kynferðislegt efni sent, en 1% í viðmiðunarhópnum. Um 3% höfðu verið snert óumbeðin(n) á kynferðislegan hátt en 1% í samanburðarhópnum og um 1% höfðu orðið fyrir því að þrýst var á viðkomandi að klæðast á kynferðislegan hátt á síðustu 12 mánuðum, en nær enginn hafði orðið fyrir því í viðmiðunarhópnum.

Á flestum spurningum er tíðni neikvæðra atburða hærri meðal kvenna en karla. Tíðni neikvæðra atburða lækka með hækkandi aldri. Þetta er sama mynstur og má sjá í samanburðargögnum.

Oftast er gerandinn „Annar“ aðili, þ.e. annar en þeir sem eru tilgreindir eru í spurningunni. En næst oftast er gerandinn aðili tengdur fjölskyldunni og oftast gerist atburðurinn á heimilinu. Næst oftast er gerandinn tengdur skólanum og í þriðja lagi tengdur vinnunni. Sjaldnar er þetta umönnunar- eða þjónustuaðili eða skipuleggjandi/þátttakandi í tómstundarstarfi.

Tæpur þriðjungur vissi að starfandi væri fagráð og sagðist ein(n) haft samband við fagráðið. Helmingur þeirra sem svöruðu töldu líklegt að þeir myndu hafa samband við fagráðið ef þeir yrðu fyrir kynferðislegri áreitni og/eða ofbeldi á vettvangi Blindrafélagsins.

Fyrirhugað er að kynna þessar rannsóknir fyrir félagsmönnum á félagsfundi í febrúar 2019.

6. Starfsáætlun stjórnar og útgáfuáætlun Valdra greina 2019.

S.U.H. fór yfir drög að starfsáætlun stjórnar janúar til maí 2019 sem hann kynnti á seinasta stjórnarfundi. Eftir umræður þá varð niðurstaðan þessi:

 • 9. janúar (miðvikudagur) Stjórnarfundur nr. 11.
 • 16. janúar (miðvikudagur) Málstofa um Punktaletur.
 • 18. jJanúar (föstudagur) Samstarfsfundur stjórnar, deilda og nefnda.
 • 19. jJanúar (laugardagur) Stjórnarfundur nr. 12 (fundur stjórnar með UngbBlind).
 • 30. jJanúar (miðvikudagur) Stjórnarfundur nr. 13.
 • 30. jJanúar (miðvikudagur) Hádegisspjall.
 • 20. febrúar (miðvikudagur) Sstjórnarfundur nr. 14.
 • 21. febrúar (fimmtudagur) Félagsfundur.
 • 27. febrúar (miðvikudagur) Hádegisspjall.
 • 4-8. mars NSK/NKK fundur í Noregi (Hurdal) (eftir er að fastsetja dagana).
 • 13. mars (miðvikudagur) Sstjórnarfundur nr. 15.
 • 3. apríl (miðvikudagur) Stjórnarfundur nr. 16.
 • 15- 22. apríl dymblivika / páskar (19 apríl sumardagurinn fyrsti).
 • 24. apríl (miðvikudagur) Stjórnarfundur nr. 17.
 • 24. apríl (miðvikudagur) Hádegisspjall.
 • 11. maí (laugardagur) Aðalfundur.

Einnig lá fyrir útgáfuáætlun Valdra greina fyrir 2019 og er gert ráð fyrir útgáfu á tveggja vikna fresti, alls 23 tölublöð.

7. Önnur mál.

Engin önnur mál

Fundi slitið kl 18:30.

Fundargerð ritaði Kristinn Halldór Einarsson.