Fundargerð stjórnar nr. 1 2019-2020

Fundargerð 1. stjórnarfundar Blindrafélagsins, starfsárið 2019 – 2020, haldinn miðvikudaginn 22. maí kl. 16:00 að Hamrahlíð 17.

Mættir: Sigþór U. Hallfreðsson (SUH) formaður, Lilja Sveinsdóttir (LS) varaformaður, Eyþór Kamban Þrastarson (EKÞ) gjaldkeri, Hlynur Þór Agnarsson (HÞA), Kaisu Hynninen (KH), Dagný Kristmannsdóttir (DK) varamaður, Guðmundur Rafn Bjarnason (GRB) varamaður, Rósa Ragnarsdóttir (RR) varamaður og Kristinn Halldór Einarsson (KHE) framkvæmdastjóri.

Fjarverandi: Þórarinn Þórhallsson (ÞÞ) varamaður

1. Fundarsetning og lýst eftir öðrum málum.

SUH bauð nýja stjórnarmenn velkomna til starfa í stjórn Blindrafélagsins.

SUH bar upp tillögu að dagskrá, sem send hafði verið út með fundarboðinu. Var tillagan samþykkt samhljóða.

Önnur má: KH

2. Afgreiðsla fundargerðar.

Fundargerðir 19. fundar, sem send hafði verið stjórnarmönnum fyrir fundinn, var samþykkt samhljóða.

3. Skýrslur bréf og erindi.

Í skýrslu formanns var fjallaði um:

  • Aðalfundur Blindravinnustofunnar.
  • Ritstjórn Valdra greina.
  • Víðsjá, fundur með ritnefnd.
  • Aðalfundur Stuðningsnetsins.
  • Fræðsluerindaröðin.
  • Ráðstefna um heilatengda sjónskerðingu CVI í október 2019.
  • Undirbúningur RIWC, fundur með NOK nefndinni.
  • Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og Blindrafélagið.
  • UNK ráðstefnan 26 – 30 ágúst.

Í skýrslu framkvæmdastjóra var fjallað um:

  • Aðalfundur Blindrafélagsins.
  • Starfsmannamál.
  • Rekstur Blindrafélagsins á 1. ársfjórðungi 2019.
  • Framkvæmdir og húsnæðismál.
  • Fjáraflanir.
  • Aðalfundur Blindravinnustofunnar.
  • Fyrirtækjakönnun VR.
  • Ferðaþjónusta.
  • málefni Hljóðbókasafns Íslands.
  • Almannarómur.
  • Færeyjaferð.
  • Erfðafjárgjafir.

Engin innsend erindi lágu fyrir.

4. Inntaka nýrra félaga.

Ekki lágu fyrir umsóknir um félagsaðild.

5. Rekstraryfirlit 1. ársfjórðungs.

Vegna þess að nýir stjórnarmenn hafa komið inn í stjórnina þá þykir ástæða til að fara aftur yfir rekstraryfirlit fyrsta ársfjórðungs 2019 sem gerð er ítarleg grein fyrir í skýrslu framkvæmdastjóra.

Megin rekstrarniðurstað á 1. ársfjórðungi 2019 er:
Heildartekjur 66,2 miljónir króna, sem er 0,3% undir áætlun.
Heildargjöld 57,8 miljónir króna, sem er 5% undir áætlun.
Afkoma fyrir fjármagnsliði er jákvæð um 8,4 miljónir króna, en áætlun gerði ráð fyrir 7,2 miljónum króna.
Hagnaður af reglulegri starfsemi að meðtöldum fjármagnskostnaði er 7,7 miljónir króna en áætlun gerði ráð fyrir 6,6 miljónum króna.

6. Starfsáætlun stjórnar.

Starfsáætlun stjórnar Blindrafélagsins maí til desember 2019, lögð fram af SUH:

Maí:
22. maí (miðvikudagur). Stjórnarfundur nr. 1 (Þema heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna).
Júní:
5. júní (miðvikudagur). Stjórnarfundur nr. 2 (Þema Stefnumótun Bf. og Heimsmarkmiðin).
26. júní (miðvikudagur). Stjórnarfundur nr. 3 (Þema frh. af stefnumótun.
Júlí:
3. júlí (miðvikudagur). Stjórnarfundur nr. 4 (þema frh. af stefnumótun).
10-15 júlí (miðvikudagur til mánudags). Færeyjaferð Blindrafélagsins.
Sumarfrí (boðað til stjórnarfundar ef nauðsyn krefur).
Ágúst:
7 eða 14. ágúst (miðvikudagur). Stjórnarfundur nr. 5.
16. ágúst (föstudagur). Samráðsfundur stjórnar, nefnda og deilda (mætti líka brjóta upp og færa á virkan dag).
19. ágúst (mánudagur). Afmælishóf á Hótel Nordica klukkan 16:00 til 17:30.
24. ágúst (laugardagur). Afmælishátíð á Menningarnótt frá 14:00 til c.a. 19:00.
26. til 30 ágúst (mánudagur til fimmtudag). UNK ráðstefna í Svíþjóð.
30. til 31 ágúst (föstudag og laugardag) NSK/NKK fundur í Svíþjóð.
September:
4. september (miðvikudagur). Stjórnarfundur nr. 6.
6 til 8. september (föstudagur til sunnudags) RP-norden í Færeyjum.
25. september (miðvikudagur) Stjórnarfundur nr. 7.
26. september (fimmtudagur). Hádegisspjall nr. 1.
Október:
10 til 11. október (fimmtudag og föstudag) þemadagar um heilatengda sjónskerðingu CVI
10. október (fimmtudagur). Alþjóðlegi sjónverndardagurinn.
15. október (þriðjudagur). Dagur hvíta stafsins.
16. október (miðvikudagur). Stjórnarfundur nr. 8.
17. október (fimmtudagur). Hádegisspjall nr. 2.
28. til 30. október (mánudagur til miðvikudagur) EBU aðalfundur í Róm.
Nóvember:
6. nóvember (miðvikudagur) Stjórnarfundur nr. 9.
14. nóvember (fimmtudagur) Félagsfundur.
27. nóvember (miðvikudagur). Stjórnarfundur nr. 10.
28. nóvember (fimmtudagur). Hádegisspjall nr. 3.
Desember:
11. desember (miðvikudagur). Stjórnarfundur nr. 11.
Umræðum um áætlunina var frestað.

7. Siðareglur.

SUH vakti athygli á siðareglum kjörinna fulltrúa félagsins. Siðareglurnar eru birtar í fundargerðinni fyrir alla stjórnarmenn til að kynna sér.

Siðareglur kjörinna fulltrúa Blindrafélagsins eru meðal annars byggðar á gildum félagsins en þau eru:

  • Jafnrétti - Eykur þátttöku og færir með sér gæfu.
  • Sjálfstæði - Stuðlar að virkni og ábyrgð.
  • Virðing - Elur af sér viðurkenningu og réttsýni.
  • Umburðarlyndi - Stuðlar að fjölbreytileika og víðsýni.

1. gr. Markmið siðareglna.

Markmið þessara siðareglna er að skilgreina það hátterni og viðmót sem stjórn Blindrafélagsins ber að sýna af sér við störf sín fyrir hönd félagsins og upplýsa félagsmenn og aðra um kröfurnar sem gerðar eru til þeirra. Siðareglurnar gilda einnig um þá sem kjörnir eru til setu í nefndum eða til annarra ábyrgðarstarfa hjá Blindrafélaginu.

2. gr. Lög og reglur.

Stjórnarmenn skulu í störfum sínum fylgja lögum, reglugerðum og samþykktum Blindrafélagsins, sem og sannfæringu sinni. Þeim ber að gæta hagsmuna Blindrafélagsins og að setja almenna hagsmuni ofar sérhagsmunum, hvort heldur er sínum eigin, annarra einstaklinga eða einstakra hópa.

3. gr. - Góðir stjórnhættir.

Stjórnarmenn skulu ávallt hafa í heiðri grundvallaratriði góðrar stjórnunarhátta í störfum sínum, þ.m.t. gagnsæja, upplýsta og málefnalega ákvarðanatöku og framkvæma ekkert það sem er til þess fallið að vekja grunsemdir um að annað en lögmæt og málefnaleg sjónarmið ráði för við stjórn félagsins.

Stjórnarmönnum ber að sinna verkefnum sínum af trúmennsku og haga störfum sínum og málflutningi á þann veg að verkefni sem eru til úrlausnar innan stjórnar nái framgangi án óþarfa tafa.

Stjórnarmenn upplýsa eins og kostur er félagsmenn um störf sín og annað sem skiptir máli í rekstri Blindrafélagsins.

4. gr. Umboð og háttvísi.

Stjórnarmenn skulu koma fram af háttvísi og gæta þess að fara ekki út fyrir umboð sitt í störfum sínum og virða verkaskiptingu í stjórnkerfi Blindrafélagsins og hlutverk starfsmanna félagsins. Þeir mega ekki hlutast til um að starfsmenn aðhafist nokkuð sem hefur þann tilgang að verða stjórnarmanni til hagsmunalegs ávinnings, né heldur aðila nátengdum honum eða ákveðnum hópum eða fyrirtækjum.

Stjórnarmenn sýna hver öðrum, félagsmönnum, viðskiptavinum og starfsmönnum félagsins fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu.

5. gr. Misbeiting valds.

Stjórnarmenn mega ekki beita réttindum eða aðstöðu sem fylgir stjórnarsetunni í þágu einkahagsmuna sinna eða annarra í því skyni að geta notið beinna eða óbeinna persónulegra hagsbóta. Einnig skulu þeir gæta þess að nýta sér ekki óopinberar upplýsingar til að hagnast á þeim persónulega eða hjálpa öðrum að gera það.

6. gr. Trúnaður og virðing.

Stjórnarmenn gæta þagmælsku um málefni sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og gæta ber trúnaðar um, vegna einkahagsmuna eða almannahagsmuna samkvæmt lögum og eðli máls. Trúnaðarskylda helst eftir að kjörtíma lýkur.

Stjórnarmönnum ber jafnframt að virða trúnað um ummæli einstakra fundarmanna á lokuðum fundum stjórnar Blindrafélagsins sem og um innihald skjala eða annarra gagna, sem þeir fá aðgang að og trúnaður skal vera um.

Stjórnarmenn virða einkalíf og sjálfsákvörðunarrétt þeirra sem til stjórnar leita með sín málefni með þagmælsku um persónulega hagi þeirra og með því að upplýsa þá eftir bestu getu um möguleg úrræði.

7. gr. Ábyrg meðferð fjármuna og ráðsmennska.

Stjórnarmönnum ber að gera og virða fjárhagsáætlun Blindrafélagsins og sýna ráðdeild við meðferð fjármuna og eigna félagsins.

8. gr. Stöðuveitingar.

Stjórnarmenn gæta þess þegar þeir koma sjálfir að ákvörðun um val á starfsmönnum, að leggja til grundvalla faglegar forsendur og hæfni til að rækja starfið og að hæfasti umsækjandinn hljóti starfið.

9. gr. Hagsmunaárekstrar/hæfi.

Stjórnarmenn nýta sér ekki stöðu sína í þágu einkahagsmuna sinna, eða annarra sem þeim eru tengdir, hvort sem ávinningur af slíku kemur fram strax eða síðar, þ.m.t. eftir að störfum fyrir Blindrafélagið lýkur. Stjórnarmenn skulu forðast hagsmunaárekstra í störfum sínum. Ef stjórnarmaður á beinna eða óbeinna persónulegra hagsmuna að gæta í máli sem kemur til umfjöllunar skal hann gera grein fyrir þeim og ef vafi leikur á hæfi hans eru greidd atkvæði um það. Um hæfi stjórnarmanna við meðferð einstakra mála er farið eftir 15. gr. laga Blindrafélagsins.

10. gr. Gjafir og fríðindi.

Stjórnarmenn þiggja ekki gjafir eða önnur fríðindi frá félagsmönnum og viðskiptavinum Blindrafélagsins, eða þeim sem leita eftir verkefnum eða þjónustu félagsins, þannig að túlka megi þær sem persónulega þóknun eða greiða fyrir ákvarðanir á vegum stjórnar eða nefnda/ráða.

11. gr. Málsmeðferð vegna ætlaðs brots.

Komi fram ábending eða grunur um að kjörinn fulltrúi hafi brotið siðareglurnar tekur stjórn málið til umfjöllunar. Telji stjórn að um brot sé að ræða getur hún samþykkt að ávíta viðkomandi fyrir brotið.

Við málsmeðferð skal þess gætt að virða andmælarétt og leita sátta. Telji stjórn sér ekki fært að skera úr um málið getur hún leitað utanaðkomandi sérfræðiaðstoðar.

Stjórnarmanni ber að taka hagsmuni og orðstír Blindrafélagsins fram fyrir sína eigin og draga sig í hlé frá stjórnarstörfum á meðan mál er til rannsóknar ef um alvarleg brot á siðareglum er að ræða og eins ef hann sæti opinberri rannsókn vegna alvarlegs lögbrots.

12. gr. Endurskoðun og miðlun siðareglna.

Siðareglur þessar skulu teknar til umræðu í stjórn Blindrafélagsins við upphaf kjörtímabils hverra stjórnar og endurskoðaðar ef þörf þykir á.
Stjórnarmönnum ber að undirgangast og tileinka sér siðareglurnar og staðfesta með samþykki sínu að þeir ætli að hafa þær að leiðarljósi.
Siðareglurnar eru birtar á heimasíðu félagsins www.blind.is og í vefvarpi Blindrafélagsins.

Siðareglur þessar voru samþykktar á stjórnarfundi Blindrafélagsins 15. mars 2017.

8. Stefnumótun – Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.

Harpa Júlíusdóttir framkvæmdastjóri Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og Þóra Þórarinsdóttir framkvæmdastjóri Ás styrktarfélags kynntu Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og hvernig markmiðin voru innleidd í stefnumótun Ás styrktarfélags.

9. Önnur mál.

KH lagði til að efnt yrði til ritgerðasamkeppni um hvernig það er að verða blindur, sjónskertur eða aðstandandi. Málinu var vísað til ritnefndar til útfærslu.

Fundi slitið kl. 18:10.
Fundargerð ritaði Kristinn Halldór Einarsson.