Siðareglur stjórnenda og starfsmanna Blindrafélagsins.

Siðareglur stjórnenda og starfsmanna Blindrafélagsins eru meðal annars byggðar á gildum félagsins en þau eru:
Jafnrétti - Eykur þátttöku og færir með sér gæfu.
Sjálfstæði - Stuðlar að virkni og ábyrgð.
Virðing - Elur af sér viðurkenningu og réttsýni.
Umburðalyndi - Stuðlar að fjölbreytileika og víðsýni.

1. gr. Markmið siðareglna.

Markmið þessara reglna er að skilgreina það hátterni og viðmót sem starfsmönnum Blindrafélagsins ber að sýna við störf sín á vegum félagsins.  Með starfsmanni er hér átt við stjórnendur, almenna starfsmenn og undirverktaka sem taka að sér verkefni fyrir hönd félagsins sem Blindrafélagið hefur stjórnunarlega ábyrgð á.

2. gr.  Lög og reglur.

Starfsmanni ber að gæta þess í störfum sínum að fylgja lögum, reglum og samþykktum Blindrafélagsins sem við eiga sem og sannfæringu sinni. Honum ber að gæta hagsmuna Blindrafélagsins og að setja almennahagsmuni ofar sérhagsmunum, hvort heldur er sínum eigin, annarra einstaklinga eða einstakra hópa.

3. gr.  Ábyrgð í samskiptum.

Starfsmanni ber að gegna störfum sínum af alúð og samviskusemi, gæta kurteisi, lipurðar og réttsýni og veita þeim sem til hans leitar aðstoð og leiðbeiningar.

Starfsmanni ber að sýna samstarfsfólki sínu alltaf kurteisi og virðingu í samskiptum. Einelti og kynferðisleg áreitni verður undir engum kringumstæðum umborin á vinnustaðnum. 

4. gr.  Ráðdeild í fjármálum.

Starfsmanni ber að virða fjárhagsáætlun og grundvallarreglur um fjármálastjórn sem tryggja réttmæta og ábyrga meðferð á fjármunum Blindrafélagsins. Við störf sín skal hann ekki aðhafast neitt sem getur falið í sér misnotkun á eignum og fjármunum félagsins.

Starfsmenn skulu virða eftirlit og úttektir, sem framkvæmdar eru af skoðunarmönnum og endurskoðendum félagsins og leggja sitt af mörkum til þess að markmið þess náist.

5. gr.   Trúnaður.

Starfsmenn skulu gæta þagmælsku og trúnaðar um málefni sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og gæta ber trúnaðar um. Trúnaðarskylda helst þótt látið sé af störfum.

6. gr.  Stöðuveitingar.

Starfsmönnum sem koma að mannaráðningum ber að gæta þess að þegar skipað er í stöður verði einstaklingum ekki veitt starf eða stöðuhækkun hjá Blindrafélaginu á öðrum forsendum en hæfni til að rækja starfið og að hæfasti umsækjandinn hljóti starfið.

7. gr.  Hagsmunaárekstur.

Starfsmenn skulu forðast hagsmunaárekstra í störfum sínum. Þegar starfsmaður á óbeinna eða beinna persónulegra hagsmuna að gæta í máli sem er til umfjöllunar hjá félaginu, skal hann gera grein fyrir þessum hagsmunum áður en umræður fara fram og ákvörðun tekin.

 8. gr.  Gjafir og fríðindi.

Starfsmenn þiggja ekki gjafir, sem túlka megi sem persónulega þóknun fyrir greiða eða ívilnun, frá félagsmönnum og viðskiptavinum Blindrafélagsins eða þeim sem leita eftir þjónustu eða verkefnum hjá félaginu.

9. gr.  Miðlun og endurskoðun.

Siðarreglur starfsmanna Blindrafélagsins hvers tíma skulu vera hluti af starfsskyldum þeirra og ber starfsmönnum að tileinka sé þær.

Siðareglur þessar eru kynntar starfsmönnum á starfsmannafundum.

Siðarreglurnar skulu teknar til umræðu í stjórn í upphafi hvers kjörtímabils og endurskoðaðar ef þörf þykir.

Siðareglunar eru birtar á heimasíðu félagsins www.blind.is og í vefvarpi Blindrafélagsins.

Siðareglur þessar voru samþykktar á stjórnarfundi Blindrafélagsins 15. mars 2017.