Viðbragðsáætlun Blindrafélagsins í eineltismálum

Í samræmi við siðareglur Blindrafélagsins er ætlast til að félagsmenn og starfsmenn sýni hver öðrum kurteisi og virðingu í samskiptum. Einelti og kynferðisleg áreitni verður undir engum kringumstæðum umborin og meðvirkni félags- og starfsmanna í einelti er fordæmd.

Skilgreining Blindrafélagsins á hvað felst í einelti og kynferðislegu áreitni styðst við 3. grein reglugerðar nr. 1009/2015  „Reglugerð um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum“, 

Einelti:Síendurtekin hegðun sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða að valda honum ótta. Skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna fellur ekki hér undir.

Við úrlausn eineltismála eru eftirfarandi meginreglur hafðar í huga:

  • Ákvarðanir um málsmeðferð eru alltaf teknar í samráði við þolandann sem hefur alltaf síðasta orðið um það.
  • Leitast verður við að koma í veg fyrir einelti með því að leysa úr ágreiningsmálum og árekstrum, sem valdið geta óþægindum og þróast yfir í einelti, án tafar og áður en þau þróast til verri vegar.
  • Tekið verður á fölskum ásökunum um einelti af sömu festu og einelti almennt.
  • Gerandi eineltis verður látinn axla ábyrgð.

Viðbrögð.

Félagsmaður eða starfsmaður sem verður fyrir einelti eða kynferðislegri áreitni innan Blindrafélagsins skal snúa sér hið fyrsta til næsta yfirmanns og tilkynna um atvikið.  Næsti yfirmaður er í tilfelli almennra félagsmanna formaður eða varaformaður félagsins en framkvæmdastjóri í tilfelli starfsmanna.  Ef einhver þessar aðila á hlut að máli getur þolandi leitað til hvers sem er innan stjórnar.

Lögð verður áhersla á að leysa málið hið fyrsta og koma í veg fyrir frekara einelti. Þörf þolanda fyrir bráðan stuðning er metin og hann veittur strax ef þörf er á.

Yfirmaður í samráði við þolanda ákveður hvert framhaldið verður. Þolandi getur valið á milli óformlegrar eða formlegrar málsmeðferðar.  Málum sem varða kynbundið áreiti eða kynferðislegt ofbeldi er beint til fagráðs Blindrafélagsins sbr. viðbragðsáætlun gegn kynferðislegu ofbeldi.

Óformleg málsmeðferð.  

Velji þolandi óformlega málsmeðferð felur það í sér að leitað er upplýsinga hjá þolanda og honum veittur stuðningur með trúnaðarsamtali eða ráðgjöf. Aðrir eru ekki upplýstir um málið.

Formleg málsmeðferð.  

Velji þolandi formlega málsmeðferð er gerð hlutlaus athugun á málsatvikum. Rætt er við þolanda, geranda og aðra sem veitt geta upplýsingar um málið. Mikilvægt er að leita upplýsinga um tímasetningar og fá fram gögn ef einhver eru, s.s. tölvupósta, SMS-skilaboð eða annað. 

Gerandi mun fá leiðsögn og aðvörun og fundin verður lausn sem m.a. getur falist í eftirfarandi:

a) Ef gerandi er starfsmaður félagsins:  Breytingum á vinnustaðnum, vinnubrögðum eða vinnuskipulagi og hann gæti líka verið færður til í starfi. Láti gerandi ekki segjast og viðheldur eineltinu leiðir það til uppsagnar hans úr starfi.

b) Ef gerandi er félagsmaður: Óskað verði eftir því að hann dragi sig út úr félagsstarfinu.
Málinu verður fylgt eftir og rætt við aðila að ákveðnum tíma liðnum og fylgst verður með samskiptum aðila málsins.

Alvarleg atvik verða hugsanlega kærð að höfðu samráði við þolanda.

 Þessi viðbragðsáætlun var samþykkt á stjórnarfundi Blindrafélagsins 15. mars 2017..