Laugardaginn 10. febrúar kl. 14:00 verður blásið til útgáfuhátíðar í sal Blindrafélagsins, að Hamrahlíð 17 í tilefni af því að þann sama dag verður símaforritið RetinAid Tabletop aðgengilegt í App store fyrir iPhone og Play store fyrir Android.
Þetta forrit er íslensk hönnun og er einsdæmi á heimsvísu. Forritið hjálpar blindum og sjónskertum að spila borð- og kortaspil með því að sjónlýsa spilum. Byrjað verður á stuttri kynningu á tækninni á bak við forritið og svo munu spilasérfræðingar frá Nexus bjóða upp á spilakennslu þar sem hægt verður að kynnast hinum ýmsu spilum, flóknum eða einföldum, allt eftir smekk. Einnig verður hægt að kaupa á staðnum spil frá Nexus á sérstökum kynningarafslætti í tilefni útgáfu forritsins. Borðspilahlaðvarpið Pant vera blár verður líka á svæðinu.
Vonumst til að sjá sem flest áhugafólk um aðgengishugbúnað sem og spilamennsku.
Skráning fer fram á skrifstofu Blindrafélagsins á netfangið afgreidsla@blind.is eða í síma 525 0000
Kveðja Ísak Jónsson.