Punktaletur

Þjónustu og þekkingarmiðstöðin fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga ber ábyrgð kennslu punktaleturs og úthlutun punktaleturshjálpartækja.

Punktaletur er upphleypt letur sem byggt er á sex punktum. Hægt er að raða punktunum upp á 63 mismunandi vegu og mynda þannig 63 mismunandi tákn. Þannig er hægt að mynda alla stafi stafrófsins, tölustafi, greinarmerki og alls kyns tákn. Punktarnir verða að vera upphleyptir, annars er ekki hægt að tala um eiginlegt punktaletur, enda er það lesið með fingrunum. 

Þeir sem lesa með fingrunum nota báðar hendur, hafa alla fingur á lesmálinu og nota eins marga og þeir geta til lesturs. Þeir sem hraðast lesa nota báðar hendur þannig að þeir lesa með vinstri hönd að miðri leslínunni, þá tekur sú hægri við og les að enda línunnar á meðan sú vinstri fer niður í þá næstu og les hana að miðju og þannig koll af kolli. Það má því segja að sú vinstri lesi vinstri helming lesmálsins og sú hægri þann hægri. Þeir sem ná tökum á þessari tækni ná yfirleitt góðum lestrarhraða.

Sérstök ritvél er notuð til að skrifa letrið, svo kölluð punktaletursritvél. Ritvélin hefur sex skriftartakka, þrjá vinstra megin og þrjá hægra megin, en á milli þeirra er takki sem slegið er á vilji menn gera bil á milli orða. 

Punktaletur er þeim sem lesa það og skrifa afar nauðsynlegt. Fyrir utan að nota það við leik og störf  er það einnig notað til að merkja ýmislegt í kringum sig, t.d. geisladiska, kryddin á heimilinu eða niðursuðudósirnar þannig að notandinn geti hindrunarlaust gengið að þessum hlutum þegar á þarf að halda.  Jafnframt er hægt að kaupa ýmsa hluta merkta með punktaletri, s.s. ýmis konar spil, málbönd o.fl.

Þjónustu og þekkingarmiðstöðin