Aðgengi er baráttumál okkar.

Á myndinni er Sigþór U. Hallfreðsson, formaður Blinrafélagsins að flytja ávarp sitt á afmælishátíð f…
Á myndinni er Sigþór U. Hallfreðsson, formaður Blinrafélagsins að flytja ávarp sitt á afmælishátíð félagsins. Mynd: Þórunn Hjartardóttir.

Sigþór Unnsteinn Hallfreðsson, formaður Blindrafélagsins, ávarpaði hátíðarsamkomu félagsins í tilefni af 80 ára afmæli þess þann 19. ágúst 2019. Þar hvatti hann félagsmenn til dáða og lagði áherslu á mikilvægi aðgengis til þess að brjóta jaðarsetningu og einangrun blindra og sjónskertra. Þar sagði hann meðal annars:

Nú sem fyrr er baráttan fyrir bættu aðgengi fyrirferðar mikil í okkar starfi, hvort sem litið er til umferlis í hinu manngerða umhverfi og viðeigandi ferðaþjónustu eða til aðgengis að upplýsingum í hinum stafræna heimi nútímans. Að eiga greiðan aðgang að sérhæfðum hjálpartækjum og að framboðið fylgi hinni öru tækniþróun sem við erum að upplifa er ekki síður mikilvægt verkefni. Sama gildir um aðgengi að endurhæfingu, menntun og atvinnu.

Hér fyrir neðan er hægt að lesa ávarpið í heild:

Ávarp Sigþórs U. Hallfreðssonar, formanns Blindrafélagsins, á 80 ára afmælissamkomu félagsins 19. ágúst 2019.

Forseti Íslands, herra Guðni Th. Jóhannesson, Félags- og barnamálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason, kæru félagsmenn, vinir og velunnarar. Ég bíð ykkur innilega velkomin á 80 ára afmælisfagnað Blindrafélagsins, samtaka blindra og sjónskertra á Íslandi. Til hamingju með daginn.

Það er merkilegt að ólíkt öðrum þjóðum höldum við Íslendingar ekki upp á fæðingardaginn. Við eigum afmæli. En hvað þýðir það? jú, það felur í sér að öllu er afmörkuð stund, á sér upphaf, framhald og endi. Og nú hefur ein stund til viðbótar verið mæld af Blindrafélaginu en þó svo að áttatíu ár hafi safnast í sarpinn, er svo sannarlega ekki komið að því að við séum að nálgast endalokin, þvert á móti. Við erum öflug, við erum kraftmikil og sterk. Og við erum komin til að vera svo lengi sem berjast þarf fyrir þeim sjálfsögðu mannréttindum að blint og sjónskert fólk á Íslandi fái notið sín til jafns við aðra. Þá er þörf fyrir Blindrafélagið.

Þann 19. ágúst árið 1939 komu saman 10 blindir einstaklingar ásamt þremur sjáandi styrktarmeðlimum og stofnuðu Blindrafélagið. Stofnun Blindrafélagsins átti sér nokkurn aðdraganda og þar fóru fyrir fólk sem vildi vera sjálft í forsvari fyrir réttindabaráttu sinni og ráða sjálft sinum málum. Eða eins og sagt er í dag „Ekkert um okkur án okkar“. Þremur árum síðar í október 1941 stofnaði sami hópur Blindravinnustofuna með það að markmiði að veita blindu fólki stöðuga atvinnu og örugga framfærslu. Blindravinnustofan starfar enn í fullu samræmi við það markmið og gengur vel.

En félagið varð ekki til á einni nóttu, það byggðist upp jafnt og þétt fyrir áhuga og samheldni félagsmanna. Á þessum tímamótum hugsar maður til forveranna sem með einurð og dugnaði stofnuðu til þessa félags okkar og þeirra sem hafa byggt það upp í tímans rás.

Brautryðjendastarfið er mikilvægt og verður seint fullþakkað og sama má segja um framlag þeirra sem síðar tóku við keflinu. Alla tíð hefur megintilgangur og hlutverk félagsins verið að stuðla að því að blindir og sjónskertir einstaklingar geti lifað sjálfstæðu og innihaldsríku lífi og séu ábyrgir og virkir samfélagsþegnar.

Æskilegast væri að mannréttindi væru svo sjálfsögð að engin þörf væri fyrir félög eins og okkar. En við eigum víst ennþá langt í land með að öllum séu sköpuð sanngjörn skilyrði.

Þegar litið erum um öxl getum við verið stolt og þakklát fyrir margt þar má m.a. nefna:

 • Stofnun Blindravinnustofunnar – sem er vel rekið fyrirtæki á samkeppnismarkaði sem veitir fjölda fólks atvinnu og mælir hagnað sinn í samfélagslegum ávinningi.
 • Bygging Hamrahliðar 17 sem tekin var notkun árið 1961. Það er ómetanlegt að eiga þessa aðstöðu.
 • Það voru líka merkileg tímamót Þegar fyrstu blindu og sjónskertu nemendurnir ruddu brautina og urðu fyrstir til að ljúka menntaskólanámi og síðar Háskólanámi.
 • Stofnun Blindrabóksafnsins sem nú heitir Hljóðbókasafn Íslands var mikilvægur áfangi. Loksins fengu blindir og sjónskertir tækifæri til að njóta bókmennta í rímum mæli.
 • Stofnun Sjónstöðvar Íslands á sínum tíma og síðar Þjónustu og þekkingarmiðstöðvarinnar fyrir blinda og sjónskerta einstaklinga og fólk með samþætta sjón og heyrnarskerðingu. Mörkuðu bylting í þjónustu við okkar hóp.
 • Ferðaþjónustusamningarnir sem opnað hafa mörgum víðtæk tækifæri til að vera virkir í leik og starfi.
 • Leiðsöguhundaverkefnið sem hefur tryggt framboð á leiðsöguhundum og skapað ný tækifæri.
 • Vefvarpið sem opnar gátt inn í starfræna heiminn á einfaldan og markvissan hátt.
 • Íslensku talgervlaraddirnar sem Blindrafélagið hafði forgöngu um að láta smíða.
 • Stofnun Almannaróms, sem Blindrafélagið átti sinn þátt í að varð að veruleika, við bindum líka miklar vonir við þær stafrænu lausnir sem fyrirhugað er að þróa á vegum almannróms. Ekki bara fyrir okkar hóp. heldur líka til að tungumálið okkar íslenskan verði gjaldgengt á stafrænni öld og hreinlega lifi af stafrænu byltinguna.

Hér er eingöngu tæpt á nokkrum atriðum sem markað hafa tímamót í áranna rás. En auðvitað er margir aðrir sigrar, stórir og smáir, sem vert hefði verið að minnast á en ekki er ráðrúm fyrir núna.

En enginn er eyland, við höfum í gegnum tíðina átt í margvíslega samstarfi bæði inna lands og utan og við höfum notið velvilja almennings, fyrirtækja og félagasamtaka. Án þess hefði leiðin orðið ærið mikið torsóttari.

Að öðrum ólöstuðum vil ég sérstaklega nefna Lions-hreyfingin á Íslandi og Blindravinafélagið, sem hafa í áranna rás verið okkur bæði öflugir bakhjarlar og traustir samstarfsaðili. Öllum þeim sem hafa lagt okkur lið í gegnum tíðina færi ég kærar þakkir fyrir sitt framlag.

En nýjum tímum fylgja nýjar áskoranir og viðfangsefnin eru mörg sem félagið vinnur að í dag.

Nú sem fyrr er baráttan fyrir bættu aðgengi fyrirferðar mikil í okkar starfi, hvort sem litið er til umferlis í hinu manngerða umhverfi og viðeigandi ferðaþjónustu eða til aðgengis að upplýsingum í hinum stafræna heimi nútímans. Að eiga greiðan aðgang að sérhæfðum hjálpartækjum og að framboðið fylgi hinni öru tækniþróun sem við erum að upplifa er ekki síður mikilvægt verkefni. Sama gildir um aðgengi að endurhæfingu, menntun og atvinnu. Aðstoð við félagsmenn við réttargæslu eru einnig á meðal fjölmargra málefna sem félagið sinnir og svona mætti lengi telja.. Þá er ótalin félagslegi þátturinn og sá jafningjastuðningur og fræðsla sem fram fer innan vébanda félagsins.

Til viðbótar höfum við á afmælisárinu álykta um eftirfarandi málefni sem við viljum leggja sérstaka áherslu á.

 • Að Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um réttindi Fatlaðs Fólks verði lögfestur svo hann verði sú réttarbót sem að er stefnt.Að vefaðgengistilskipun Evrópusambandsins verði innleidd hér á landi. En hún setur þá skyldu á herðar þeim sem bera ábyrgð á opinberum vefsvæðum og smáforritum að þau séu aðgengileg öllum.
 • Að starfsemi Hljóðbókasafns Íslands verði ekki sett í uppnám og við mótmælum áformum um að breytingar þar á. Rétturinn til að lesa og njóta bókmennta er mannréttindi sem ekki á að leika sér með.
 • Að Ferðafrelsi leiðsöguhunda til og frá landinu taki mið af fyrirliggjandi áhættumati og verði rýmkað þannig að það sé raunhæfur kostur að fara með leiðsöguhund til og frá landinu.

Þegar maður veltir fyrir sér stöðu Blindra og sjónskertra þá hefur hún gjörbreyst til hins betra frá því sem var árið 1939. En Steinn Steinarr hitti þá naglann á höfuðið í kvæðinu „Utan hringsins“ og það á að mörgu leiti enn við í dag.

(Steinn Steinarr. „Utan Hringsins“ úr bókinni "Ferð án fyrirheits“ sem kom út árið 1942.)

UTAN HRINGSINS

Ég geng í hring
í kringum allt sem er.
Og innan þessa hrings
er veröld þín.

Minn skuggi féll um stund
á gluggans gler.

Ég geng í hring
í kringum allt, sem er.
Og utan þessa hrings
er veröld mín.

 • Þessar fáu en myndrænu hendingar kalla fram tilfinningu um einsemd og einangrun. Sjónarhornið er þess sem er utangarðs og „allt sem er, inna hringsins“ er honum óaðgengilegt.
 • Þannig líður þeim í dag sem opnar vefsvæði sem reynist svo óaðgengilegt fyrir skjálesarann.
 • Þannig líður þeim í dag sem lokið hefur námi en fær ekki vinnu við hæfi vegna fötlunarfordóma samfélagsins.
 • Þannig líður þeim í dag sem nær ekki endum saman vegna ófullnægjandi framfærslulífeyris.
 • Þannig líður þeim í dag sem ekki komast leiðar sinnar vegna óþarfa hindrana sem verða á vegi manns.


og svo mætti lengi telja. Í stuttu máli er þetta jaðarsetning og hún hittir okkur öll fyrir með einum eða öðrum hætti þó aðstæður okkar séu eins misjafnar og við erum mörg.

Blinda og sjónskerðing getur verið og er mörgum mikil hömlun og skerðing á sjálfstæði. En hún þarf ekki að vera það. Með viðeigandi þjálfun, endurhæfingu og hjálparbúnaði og bættri hönnun í hinu manngerða umhverfi hverfa þessar hindranir. Um leið gufar fötlunin upp. Þetta varðar okkur öll sem byggjum þetta land og það á að vera sameiginlegt átak að breyta þessu og við getum og eigum að gera miklar kröfur til þjóðfélagsins um að gera það. En þegar upp er staðið kæru félagsmenn verður sá sem er blindur eða sjónskertur fyrst og fremst að geta treyst á sjálfan sig. Við þurfum að tileinka okkur þá færni og kunnáttu sem til þarf til að standa á eigin fótum og til að geta staðið jafnfætis öðrum.

Þess vegna er kjörorð Blindrafélagsins „Stuðningur til sjálfstæðis“.

Því er oft fleygt fram að æðsta lokatakmark félagasamtaka eins og okkar sé að verða óþarft. Þegar öllum hindrunum hefur verið rutt úr vegi, félagslegu ójafnvægi hefur verið útrýmt, réttur allra til að rækta og njóta hæfileika sinna er virtur, þegar samfélagið er að fullu aðgengilegt fyrir alla. En þangað er ennþá langt í land.

Áttatíu ár eru langur tími og margt hefur áunnist í tímans rás og fyrir það erum við sem njótum ávaxtanna þakklát.

En það er ekki allt unnið enn, við eigum enn þá verk að vinna. Blindrafélagið, samtök blindra og sjónskertra á Íslandi á ennþá ríkt erindi við samtíð sína, ekki síður en fyrir áttatíu árum. Og við munum eiga jafn brýnt erindi við samfélagið í fyrirsjáanlegri framtíð.

Það er ekki tímabært að leggja árar í bát fyrr enn við öll,
fötluð sem ófötluð,
göngum saman hring,
umhverfis allt sem er,
og innan þess hrings, er veröldin okkar allra.