Ritgerð um arfgerð Íslendinga með arfgenga hrörnunarsjúkdóma í sjónhimnu.

Út er komin ritgerð til B.Sc gráðu í læknisfræði við Háskóla Íslands sem fjallar um arfgerð Íslendinga með arfgenga hrörnunarsjúkdóma í sjónhimnu með undirtitilinn Afturskyggn lýsandi rannsókn með klínískt notagildi. Höfundur ritgerðarinnar er Daníel Arnar Þorsteinsson. Blindrafélagið var einn af styrktaraðilum verkefnisins.

Hér er um mjög merkan atburð að ræða þar sem þetta er yfirgripsmesta rannsókn á arfgerð Íslendinga með arfgenga og hrörnunarsjúkdóma í sjónhimnu. Um leið er þetta fyrsta skrefið í þá átt að byggja upp sjúklingaskrá sem að er nauðsynleg til að sjúklingar eigi kost á meðferðum þegar að þær líta dagsins ljós.

Úr ritgerðinni:

Inngangur: Arfgengir hrörnunarsjúkdómar í sjónhimnu (AHS) er stór hópur ágengra sjónskerðingarsjúkdóma og eru samanlagt ein aðalorsök fyrir sjónskerðingu/blindu í heiminum. Þeir stafa af breytingum í genum sem eru nauðsynleg fyrir eðlilega virkni í sjónhimnu, sem er sérhæfður ljósnæmur taugavefur í augnbotnum. Sjúkdómsflokkar AHS eru t.a.m. litefnahrörnun í sjónhimnu (RP), Stargardt sjúkdómur, arfgengt sjóntaugamein Lebers (LHON), sjónhimnurof og Usher heilkenni. Markmið rannsóknar var að kortleggja erfðaorsakir AHS á Íslandi, meta árangur í erfðagreiningu þeirra og endurmeta erfðabrigði sjúklinga.

Efni og aðferðir: Rannsóknarúrtak samanstóð af íslenskum AHS sjúklingum, sem höfðu undirgengist klínískt erfðapróf á erfða- og sameindalæknisfræðideild Landspítala (ESD). Alls höfðu 69 sjúklingar farið í erfðapróf á tímabilinu 2004 - mars 2020. Þar af voru 53 á skrá hjá ESD en 16 bættust við, sem fóru framhjá gagnasöfnun á ESD, eftir yfirferð yfir komulista í sjónhimnuritsmælingu á augndeild Landspítala. Listar með ICD10 númerunum H35.5 og Z82.1 frá Landspítala og Sjúkrahúsi Akureyrar og listar frá Þekkingar- og þjónustumiðstöð blindra og Blindrafélaginu voru notaðir til hliðsjónar. Sjúklingar höfðu undirgengist klíníska stökkbreytingarleit í þekktum meingenum fyrir sjúkdóma þeirra. Prófin voru mismunandi víðfeðm eftir próftíma. Útbúinn var gagnabanki með 18 breytum, m.a. niðurstöður erfðarannsókna, upplýsingar um sjúkdóm og lýðupplýsingar. Þýðing erfðabrigða var endurmetin.

Niðurstöður: Um 2/3 sjúklinga voru með erfðaskýringu á sínum sjúkdómi eftir endurmat. 17 meingen fundust í RP sjúklingum, þar af var RLBP1 genið algengast (n=4). Erfðabrigðið c.1073+5G>C í PRPF31 geni er mögulega erfðaorsök fyrir víkjandi RP í íslensku þýði. Algengasta erfðabrigðið í Stargardt sjúklingum var c.768G>T í ABCA4 geni. Eingöngu eitt erfðabrigði fannst hjá 30% Stargardt sjúklinga. Erfðabrigðið m.3460G>A í MT-ND1 geni fannst í öllum tilvikum hjá LHON sjúklingum. Sjúklingar með sjónhimnurof voru allir með sömu breytinguna, p.W147X. Meingen í Usher sjúklingum voru ADGRV1 og USH2A. Ályktun: Erfðaorsakir RP eru fjölbreyttar og verða ekki útskýrðar með landnemaáhrifum. Hins vegar, þar sem samsætutíðni erfðabrigðisins c.1073+5G>C í PRPF31 geni er töluvert hærri hér á landi, þá er mögulegt að um landnemaáhrif fyrir þetta tiltekna erfðabrigði sé að ræða. Einnig gæti sjónhimnurof verið útskýrt með landnemaáhrifum, þar sem p.W147X gæti verið séríslensk breyting. Það er þekkt vandamál að aðeins eitt erfðabrigði finnist hjá um 30% Stargardt sjúklinga, sem samsvarar hlutfallinu hérlendis.

Ritgerðin í PDF sniði