Fundargerð aðalfundar 19. mars 2016.

1.       Halldór Sævar Guðbergsson starfandi formaður Blindrafélagsins (hér eftir nefndur formaður) setti fundinn kl. 13:21, en töf varð á fundarsetningu vegna þess hversu margir sóttu fundinn. Þegar fundur hófst voru um 70 félagsmenn mættir og fjölgaði eftir því sem á fundinn leið. Halldór lagði mikla áherslu á kjaramál öryrkja og sagði umræður um þau mál yrðu að fara fram innan félagsins og annarra aðildarfélaga Öryrkjabandalagsins en ekki eingöngu á vettvangi Öryrkjabandalagsins. Hann kvað Blindrafélagið ein öflugustu hagsmunasamtök fatlaðra á Íslandi og sagðist sannfærður um að félagsmenn gengju út að loknum aðalfundi sem ein heild.

2.        Þá fór fram kynning aðalfundarfulltrúa og voru rúmlega 70 félagsmenn mættir við upphaf aðalfundar.

3.        Þá var næst kjör fundarstjóra og fundarritara. Stungið var upp á Þresti Emilssyni sem fundarstjóra og Gísla Helgasyni sem fundarritara. Var það samþykkt samhljóða.

4.        Fundargerð síðasta aðalfundar var borin upp til samþykktar og var hún samþykkt samhljóða.

5.        Inntaka nýrra félaga. Arnheiður Björnsdóttir ráðgjafi Blindrafélagsins las upp nöfn þeirra sem gengið höfðu í félagið frá síðasta aðalfundi. Alls voru 60 nýir félagsmenn boðnir velkomnir í félagið.

6.        Þá var látinna félaga minnst en alls létust 39 félagar frá síðasta aðalfundi. Fundarmenn risu úr sætum og minntust þeirra með einnar mínútu þögn.

7.        Skýrslur lagðar fram:

Formaður fór yfir helstu atriði í skýrslu stjórnar. Sagði frá skipan stjórnar í upphafi síðasta aðalfundar, og greindi frá breytingum á stjórn þegar Bergvin Oddsson steig til hliðar sem formaður í lok félagsfundar 30. september síðastliðin.

Þá varð Halldór formaður, Rósa María Hjörvar varaformaður, Baldur Snær Sigurðsson gjaldkeri, Lilja Sveinsdóttir ritari og Rósa Ragnarsdóttir meðstjórnandi.

Formaður kvað innra starf innan félagsins kraftmikið og viðburðaríkt. Stofnaðar voru þrjár nýjar deildir innan félagsins, AMD-deild, leiðsöguhundadeild og vesturlandsdeild. Formaður ræddi um þýðingu innra starfs, að gæfi kost á jafningjafræðslu og áréttaði mikilvægi trúnaðarmannakerfisins.

Þá fjallaði formaður um alþjóðastarf. Samnorræn ráðstefna var haldin á Hótel Glym Hvalfirði í lok ágúst sl. þar sem fjallað var m.a. um málefni barna og ungmenna, Evrópuþing blindra var í London þar sem fjallað var um ýmsar tækninýjungar og ýmsir norrænir fundir voru á starfsárinu.

Þrír leiðsöguhundar voru afhentir á árinu og formaður þakkaði Lions-hreyfingunni þeirra framlag til leiðsöguhundaverkefnisins, en þeir seldu rauðu fjöðrina til styrktar verkefninu.

Þá gat formaður um ljósmyndakeppnina Blindir sjá, sem JCI-hreyfingin stóð fyrir og vakti athygli.

Víðsjá kom út tvisvar og er eitt víðlesnasta tímarit á landinu. Þá var frumsýnd heimildamynd um að lifa með sjónskerðingu í Ríkissjónvarpinu og vakti hún verðskuldaða athygli. Formaður kvað vonir standa til þess að gera fleiri kynningarmyndir um málefni blindra og sjónskertra.

Þá fjallaði formaður um fjáraflanir. Rekstur Blindrafélagsins og Blindravinnustofunnar skilaði alls 20 milljóna króna hagnaði fyrir afskriftir og horfa menn fram á bjartari tíma.

Formaður benti á að framlög hins opinbera námu árið 2007 um 10% af útgjöldum félagsins. Nú eru þau komin niður í 3,8% af útgjöldum félagsins. Nauðsynlegt er að opna augu ráðamanna fyrir aukinni þátttöku í starfi Blindrafélagsins t.d. með fleiri þjónustusamningum. Formaður minnti á að Blindrafélagið og Blindravinnustofan greiddu skatta og ýmis gjöld til ríkisins.

Þá vék formaður að þeim erfiðu málum sem hafa hvílt á félaginu í vetur og kvað verða að loka þeim á farsælan hátt. Hann sagðist myndi leggja fram dagskrártillögu þess efnis, skoða þyrfti innra starf og fleira.

Hann vék að þætti framkvæmdastjóra, annars starfsfólks, félagsmanna og velunnara í starfi félagsins og bað fundarmenn um að klappa fyrir öllu þessu ágæta fólki sem hafði lagt sitt á plóginn til þess að byggja upp innra starf félagsins. Formaður sagði liðinn vetur hafa reynst sér mjög erfiðan, en þótt hann dragi framboð sitt til formanns aftur væri hann ekkert á förum frá félaginu, þar liði honum vel.

Að lokum þakkaði Halldór fyrir hversu vel fólk hefði tekið honum þegar hann tók við sem formaður, en í aldarfjórðungs starfi innan félagsins hefði málið í vetur reynst sér eitt það erfiðasta sem hann hefði tekist á við.

Fundarstjóri las síðan upp ályktun stjórnar félagsins fyrir fundinn en út á hana gengur svo dagskrártillaga Halldórs Sævars sem liggur fyrir fundinum: „

Ályktunartillaga stjórnar Blindrafélagsins fyrir aðalfund félagsins 19. Mars 2016.

Aðalfundur Blindrafélagsins haldinn þann 19. Mars 2016 felur stjórn félagsins að hefja vinnu við að endurskoða og móta lög, siðareglur og verklagsferla fyrir starfsemi Blindrafélagsins.

A)        Endurskoða lög félagsins með það að markmiði að færa lögin betur að starfsemi félagsins, gera lögin skýrari og færa inn í þau venjur, hefðir og óskráðar reglur sem breið samstaða er um. Tillögur að nýjum lögum Blindrafélagsins skulu lagðar fyrir aðalfund félagsins 2017.

b)        Að gera tillögu að siðareglum Blindrafélagsins. Siðareglurnar skulu byggja á gildum Blindrafélagsins og meðal annars fjalla um ábyrgð allra þeirra, sem starfa á vettvangi félagsins og samskipti bæði inn á og út á við. Tillaga að nýjum siðareglum fái umfjöllun og staðfestingu félagsfundar Blindrafélagsins.

c)        Að setja niður verklagsferla fyrir starfsemi félagsins. Þar með talið fyrir stjórn félagsins, deildir, nefndir og skrifstofu. Við þessa vinnu verði lögð á það rík áhersla að kalla fram sjónarmið félagsmanna og starfsmanna og leita ráðgjafar fagfólks eftir því sem við á“.

Rökstuðningur:

„Blindrafélagið fagnaði ný verið 75 ára afmæli sínu. Félagið er öflugt hagsmunaafl, sem ítrekað hefur skipt sköpum þegar kemur að því að tryggja blindum og sjónskertum öryggi og jafnrétti. Félagið er mannréttindafélag og hefur gengið vel að kynna og efla mannréttindi félagsmanna sinna. Blindrafélagið hefur yfir 660 aðalfélaga og er það mikil fjölgun frá því sem var, þegar félagið var stofnað og starfið mótað. Umhverfið hefur einnig breyst töluvert frá stofnun félagsins. Alþjóðavæðing, upplýsingaaðgengi og ríkari kröfur almennings um innsæi í málefni þeirra félaga, sem hann styrkir, hefur komið til. Undanfarin misseri hefur reynt á lög og venjur félagsins. Starf sannleiksnefndarinnar leiddi enn fremur í ljós að mikið vantar upp á þegar kemur að verkferlum og starfsháttum félagsins. Þess vegna leggur stjórn til þessa ályktun fyrir aðalfund 2016.

Það er sannfæring stjórnar að með breiðri þátttöku félagsmanna í þessu starfi verði það skemmtilegt og árangursríkt. Hægt verði að ná góðri samvinnu  og sátt um lög, siðareglur og verkferla félagsins.

Blindrafélagið er til fyrir blinda og sjónskerta og við viljum virkja alla félagsmenn til góðra starfa. Félagsmenn okkar búa yfir rödd og reynslu sem þarf að heyrast í hvort sem það er innan félags eða utan. Í stað þess að einbeita okkur að því sem er ábótavant er lykilatriði að sjá tækifærin í stöðunni. Tækifæri til þess að gera gott félag enn betra“.

Þá kynnti fundarstjóri dagskrártillögu formanns um ályktun stjórnar hér á undan:

„Undirritaður leggur til að tillaga um endurskoðun laga Blindrafélagsins, setningu siðareglna og gerð verklagsferla fyrir starfsemi Blindrafélagsins verði tekið til umræðu og afgreiðslu þegar að lokinni afgreiðslu skýrslu stjórnar“.

Greinargerð:

„Fyrir aðalfundi Blindrafélagsins liggja þrjár tillögur til breytinga á lögum félagsins. Ljóst er að endurskoðunar tiltekinna ákvæða laga Blindrafélagsins er þörf. Í ljósi þess, sem á undan er gengið er brýnt að vanda vel til verka og skoða heildstætt lög Blindrafélagsins, setningu siðareglna sem og alla verkferla í starfsemi Blindrafélagsins. Við þá vinnu er brýnt að kalla eftir sjónarmiðum félagsmanna og starfsmanna, og leita eftir atvikum ráðgjafar óháðra aðila. Við það er miðað að tillögurnar liggi fyrir, fyrir aðalfund félagsins 2017“.

Reykjavík 19. Mars 2017  Halldór Sævar Guðbergsson.

Fundarstjóri bar upp dagskrártillögu Halldórs Sævars sem felur í sér að tillaga stjórnar verði tekin inn á dagskrá aðalfundarins. Dagskrártillagan var samþykkt með 63 atkvæðum, þ.e. megin þorra fundarmanna.

8.Þá hófust umræður um skýrslu formanns. Til máls tók Konráð Einarsson.

Þá hófust umræður um ályktunartillögu stjórnar félagsins um endurskoðun á lögum félagsins, setningu siðareglna og gerð verklagsferla fyrir starfsemi félagsins.

Arnþór Helgason og Bergvin Oddsson fögnuðu þessari ályktunartillögu stjórnar. Arnþór benti á að um þrískipta vinnu væri að ræða, endurskoðun laga, setningu siðareglna og gerð verklagsferla innan félagsins og þar á meðal reglur um auglýsingu starfa á vegum félagsins, þ.á.m. starf framkvæmdastjóra. Þá kvað Arnþór felast í tillögunum að fyrirliggjandi lagabreytingatillögum yrði vísað til stjórnar og þær teknar af dagskrá. Bergvin var sama sinnis og beindi spurningu til fundarstjóra þar að lútandi.

Halldór Sævar áréttaði að ljúka ætti vinnu við lagabreytingar og setningu siðareglna og kynna á aðalfundi 2017. Sagði að þessi vinna yrði fyrirferðarmikil á komandi fundum.

Rósa María Hjörvar hvatti alla félagsmenn til þess að taka þátt í þeirri vinnu sem væri fram undan.

Rósa Ragnarsdóttir, Sigtryggur R. Eyþórsson, Magnús Jóel Jónsson og Gísli Helgason tóku einnig til máls og voru ánægð með ályktunartillögu stjórnar og umræður urðu um hvenær þessi vinna skyldi hefjast. Halldór Sævar minnti á að verkferlar væru ávalt í skoðun, lagði áherslu á opið ferli í væntanlegri vinnu við gerð siðareglna, verkferla og vinnu við endurskoðun laga skyldi ljúka árið 2017 og að sem flestir félagsmenn kæmu að henni.

Ályktunartillaga stjórnar var borin upp til atkvæða og samþykkt með 70 atkvæðum gegn einu.

9.        Efnahags og rekstrarreikningar Blindrafélagsins ásamt reikningum verkefnasjóðs félagsins voru lagðir fram og fór Guðný Helga Guðmundsdóttir löggiltur endurskoðandi hjá KPMG yfir þá.

Megin niðurstöður: heildartekjur félagsins á árinu 2015 voru  208,7 milljónir króna sem er 1% aukning frá 2014. Rekstrargjöld voru 202,6 mkr. Hagnaður ársins að meðtöldum fjármagnsliðum og afskriftum nam 2,5 milljónum króna í samanburði við 2,4 milljóna króna tap árið 2014. Hagnaður af rekstrinum fyrir fjármagnsliði var 6,1 milljónir. Alls störfuðu 20 einstaklingar hjá félaginu á árinu, sem voru að meðaltali í 14,2 stöðugildum. Hlutfall opinberra framlaga hefur minnkað verulega á undanförnum árum. Þannig er styrkur Velferðarráðuneytisins nú einungis um 3% af rekstrargjöldum félagsins en var um 10% fyrir nokkrum árum. Félagið þarf því að reiða sig að mestu á eigin fjáraflanir. Eigið fé félagsins 31.12.2015 er 705 milljónir króna og handbært fé frá rekstri á árinu var 16 milljónir króna.

Síðan fór endurskoðandi yfir árs og efnahagsreikning verkefnasjóðs. Frekari upplýsingar um reikninga félagsins eru í ársreikningum fyrir árið 2015. 

 Þá hófust umræður um reikninga. Marjakaisa Matthíasson spurði um kostnað við verkefnið „Blindir sjá“.

Svavar Guðmundsson spurði um bókfært virði Hamrahlíðar 17 og hvaða fasteign hefði verið seld á árinu.

Guðný endurskoðandi svaraði spurningum Svavars. Bókfært verð Hamrahlíðar 17 er 679 milljónir og Stigahlíð 71 sem var seld á árinu er bókfærð á 68 milljónir.

Konráð Einarsson spurði um lífeyrisskuldbindingar félagsins.

Kristinn Halldór Einarsson gerði grein fyrir verkefninu blindir sjá. Aðal kostnaður fólst í gerð stuttmyndbands en verkefninu var ætlað að sýna að blint fólk geti gert nær allt sem sjáandi fólk gerir.

Varðandi Stigahlíð 71, sem hefur verið í eigu Blindrafélagsins frá því fyrir síðust aldamót og rekið sem sambýli voru fyrirsjáanlegar miklar viðhaldsframkvæmdir. Reykjavíkurborg hefur rekið þar seinni árin sambýli fyrir blint og sjónskert fólk og mun halda því áfram að kröfu Blindrafélagsins en Félagsbústaðir hf. keyptu húsið.

Varðandi lífeyrisskuldbindingar sagði Kristinn þær vera vegna nokkurra starfsmanna sem greiddu í lífeyrissjóð ríkisins fyrir nokkrum árum.

Þar með lauk umræðum um ársreikninga.

Reikningarnir voru síðan bornir upp og samþykktir með 61 atkvæði gegn einu.

10.      Kosning formanns Blindrafélagsins til tveggja ára.

Fundastjóri kynnti frambjóðendur. Sex buðu sig fram til formanns en tveir drógu framboð sín til baka.

Fyrst var kosin talningarnefnd.

Tillaga lá fyrir um Friðrik Stein Friðriksson, Hildi Björnsdóttur, Margréti Pálsdóttur og Pál Rúnar Kristjánsson lögmann Blindrafélagsins. Stungið var upp á Þórunni E. Guðnadóttur og voru þau öll kjörin í talninganefnd.

Þá kynntu frambjóðendur sig í stafrófsröð og fékk hver og einn 2 – 3 mínútur til umráða.

Í framboði til formanns voru:

Bergvin Oddsson, Sigurður G. Tómasson, Sigþór U. Hallfreðsson og Svavar Guðmundsson.

Gert var fundarhlé frá kl. 15:21 til 15:50 þegar kosningu til formanns lauk.

11.      Þá hófst kosning tveggja aðalmanna og tveggja varamanna í stjórn til tveggja ára, en ekki var hægt að hefja kosningu til stjórnar fyrr en að úrslit úr formannskjöri lágu fyrir.

Fundarstjóri ákvað að frambjóðendur til stjórnar myndu kynna sig að undanskildum þeim sem voru einnig í framboði til formanns og höfðu kynnt sig.

Í framboði til stjórnar voru:

Elínborg Lárusdóttir, Friðgeir Þ. Jóhannesson, Guðmundur Rafn Bjarnason, Halldór Sævar Guðbergsson, Haraldur Matthíasson, Lilja Sveinsdóttir, Ólafur Haraldsson, Rósa Ragnarsdóttir, Sigríður Hlín Jónsdóttir og Þórarinn Þórhallsson.

Auk þess höfðu Bergvin Oddsson og Svavar Guðmundsson formannsframbjóðendur boðið sig einnig fram til stjórnar.

Þá kynntu frambjóðendur til stjórnar sig nema þeir tveir sem buðu sig einnig fram til formanns.

12.      Þá var næst gengið til kosninga um þrjá fulltrúa í kjörnefnd og eins til vara.

Stungið var upp á Brynju Arthúrsdóttur, Bessa Gíslasyni og Sigtryggi R. Eyþórssyni sem aðalmönnum og Hörpu Völundardóttur til vara. Var það samþykkt samhljóða.

13.      Þá var gengið til kosningar tveggja skoðunarmanna reikninga Blindrafélagsins og tveggja varamanna til tveggja ára.

Listi kom fram með eftirfarandi nöfnum:

Hjörtur Heiðar Jónsson og Jón Heiðar Daðason sem aðalmenn, varamenn Særún Sigurgeirsdóttir og Sigtryggur R. Eyþórsson. Þau voru kjörin með öllum atkvæðum til tveggja ára.

14.      Þá var ákvörðun um árstillag félagsmanna fyrir næsta almanaksár 2017. Tillaga kom fram um óbreytt tillag, 3.500 krónur með gjalddaga 15. mars. Var tillagan samþykkt samhljóða.

15.      Þá var næst liðurinn lagabreytingar á dagskrá, en sá liður féll niður þar sem lagabreytingartillögum hafði verið vísað áður til stjórnar samkvæmt samþykkt ályktunartillögu stjórnar.

Þá var gert 5 mínútna fundarhlé kl. 16:20 á meðan beðið var eftir úrslitum kosningar til formanns.

Fundur hófst aftur kl. 16:34.

16.      Þar sem enn var beðið úrslita úr kosningu til formanns var tekinn fyrir liðurinn aðalfundur ákveði laun stjórnarmanna.

Tillaga kom fram um óbreytt laun 6.061 krónu fyrir hvern stjórnarfund.

Arnþór Helgason tók til máls og tillagan var borin upp til atkvæða. Var hún samþykkt með 59 atkvæðum gegn einu.

17.      Þá var tekinn fyrir liðurinn önnur mál, þar sem ekki höfðu enn borist úrslit úr formannskosningu.

Arnþór Helgason tók til máls og gerði að umtalsefni að leitað skyldi út fyrir raðir félagsmanna um fundarstjóra. Kvað hann hafa myndast hefð fyrir því að kosnir hafa verið tveir fundarstjórar, þar af annar blindur eða sjónskertur.

Þá sagði hann Blindrafélagið hafa brugðist í aðgengismálum og taldi nauðsynlegt að félagið stæði á næsta kjörtímabili fyrir aðgengisráðstefnu um upplýsingaaðgengi, snjallsíma og spjaldtölvusamfélagið. Taldi það ótælt að heilu fyrirtækin væru að búa til heimasíður án aðgengis og minnti á að þegar heimasíður voru tilnefndar til verðlauna á vegum samtaka auglýsingastofa, fengu þær allar falleinkunn á heimasíðu Blindrafélagsins.

Steinar Björgvinsson sem vinnur að aðgengismálum fyrir félagið ásamt fleirum tók undir orð Arnþórs, kvað einar 50 vefsíður orðnar aðgengilegar nú í janúar. Fannst hörmulegt að stofnun eins og Hljóðbókasafnið skyldi fá fyrirtæki sem vissi ekkert um aðgengi til þess að hanna vefsíðu fyrir sig. Hann kvað þessa hluti vonandi fara batnandi.

Þá var gert hlé á öðrum málum og gerð grein fyrir úrslitum í kosningu til formanns, kl. 16:52 og las fundarstjóri niðurstöður kosningar. En alls voru greidd 197 atkvæði.

Bergvin Oddsson 50 atkvæði, Sigurður G. Tómasson 21 atkvæði, Sigþór U. Hallfreðsson 117 atkvæði og Svavar Guðmundsson 2 atkvæði.

Auðir seðlar 4, ógildir 3, Sigþór U. Hallfreðsson var því rétt kjörinn formaður Blindrafélagsins til næstu tveggja ára. Var því fagnað með miklu lófataki og fagnaðarlátum.

Ný kjörinn formaður tók til máls, þakkaði stuðninginn og varpaði fram eftirfarandi vísu:

„Unaðshrollur um mig fer

og andann reiðubúna.

En Sigþór Hallfreðs orðinn er

alveg kjaftstopp núna“.

Formaður þakkaði síðan með fleiri orðum og munstraði síðan félagsmenn um borð sem áhöfn í MB-Blindrafélagið til næstu tveggja ára.

Þá var gengið til kosningar tveggja aðalmanna og varamanna í stjórn til tveggja ára. Kosning hófst kl. 16:57.

Öðrum málum var svo fram haldið kl. 17:20.

Rósa María Hjörvar tók undir orð Arnþórs áðan. Sagði það stefnu stjórnar að félagsmenn stýrðu fundum en undantekningar hafi verið gerðar vegna þeirra aðstæðna sem hafa verið innan félagsins undanfarið. Það er mikilvægt að félagið standi fyrir menntun félagsmanna því að við viljum ekki bara vera sterk hér innan dyra heldur í samfélaginu og á erlendum vettvangi.

Þá vék hún að aðgengi og sagði það áskorun að vera fremst en ekki dragast aftur úr, segir svipuð vandamál víða erlendis en horfir til samstarfs við aðrar smáþjóðir t.d. um aðgengi að upplýsingum.

Bergvin Oddsson óskaði nýkjörnum formanni til hamingju, þakkaði stuðningsfólki og vonaði að fólk myndi grafa stríðsaxirnar og liti björtum augum til framtíðar.

Gísli Helgason óskaði nýkjörnum formanni til hamingju og vék síðan að málum Bergvins og rakti hvernig þau þróuðust. Kvað enga minnkun í því að sýna auðmýkt. Á meðan hann talaði upphófu nokkrir fundarmenn óhljóð svo að fundarstjóri varð að biðja um hljóð og biðja fundarmenn um að sýna háttvísi.

Ólafur Þór Jónsson óskaði nýkjörnum formanni til hamingju og kvað Gísla ætíð vera tilbúinn með pot og leiðindi, sjálfur væri hann stundum með slíkt. Vék síðan að aðgengismálum.

Sigríður Björnsdóttir fagnaði glæsilegu kjöri formanns og ræddi um ferðaþjónustu og samgöngur hér á landi. Taldi ferðaþjónustuna hér miklu betri en víða erlendis. Ræddi svo um misjafnt aðgengi að heimasíðum.

Bergvin Oddsson svaraði spurningum Gísla varðandi launahlunnindi og vitnaði í samning sem gerður var við hann sem formann. Vitnaði síðan í orð forseta Íslands sem hann viðhafði um einn stjórnmálamann fyrir tveimur áratugum og snéri þeim upp á Gísla.

Fundarstjóri ítrekaði að fundarmenn þyrftu ekki að vera sammála en bað um að þeir sýndu háttvísi.

Haukur Sigtryggsson bað alla um að starfa af heilindum fyrir félagið, sem væri því fyrir bestu.

Halldór Sævar sagði að eftir þennan fund myndu menn ganga út sem einn maður og nú hæfist starf uppbyggingar innan félagsins. Síðasti vetur hefði reynst mjög erfiður. Hann mælti fleiri hvatningarorð til félagsmanna.

Arnþór Helgason gerði að umtali orð Bergvins og Gísla og minnti á að tala væri silfur, en þegja gull.

Þórarinn Þórhallsson óskaði nýkjörnum formanni velfarnaðar og auglýsti skemmtikvöld  á vegum skemmtinefndar síðasta vetrardag.

Ólafur Þór Jónsson kvað nauðsynlegt að sinna málefnum 67 ára og eldri betur.

Gísli Helgason sagðist hafa misst sig í ræðustól áðan. Innibyrgð reiði, gremja og sárindi brutust út vegna liðinna atburða sem höfðu hvílt þungt á honum. Orð sem hann lét falla hefðu kannski verið betur ósögð og baðst fyrirgefningar.

Ólafur Hafsteinn Einarsson ræddi um fargjöld í strætisvögnum.

Sigtryggur R. Eyþórsson kvaðst mótfallinn því að greiða stjórnarmönnum í Blindrafélaginu laun og vitnaði til hliðstæðra félaga sem hann sagðist þekkja til.

Þá beindi hann því til stjórnar að þegar birtar væru atkvæðatölur yrði fjölda utankjörfundaratkvæða getið.

Friðgeir Jóhannesson óskaði formanni til hamingju með kjörið og ræddi frekar um utankjörfundaratkvæði.

Sigþór U. Hallfreðsson sagði skemmtisögu og fór með vísu. Halla Dís Hallfreðsdóttir söng lag eftir Tómas R. Einarsson. Fundarstjóri og Þórarinn Þórhallsson sögðu skemmtisögur, Arnþór og Gísli Helgasynir ásamt Herdísi Hallvarðsdóttur léku lag eftir Arnþór sem heitir Vinátta. Voru að æfa fyrir útför vinar síns. Arnþór lék á píanó, Gísli blokkflautu og Herdís lék á gítar.

Gert var fundarhlé kl. 18:20 og þá kom Ari Eldjárn og skemmti fólki mjög vel með uppistandi.

Að loknu uppistandi Ara var fundi fram haldið kl. 18:52.

Kynnt voru úrslit kosningar til stjórnar. Fundarstjóri las upp nöfn í stafrófsröð ásamt utankjörfundaatkvæðum og atkvæðum greiddum á fundarstað.

Bergvin Oddson: 29 atkvæði utan kjörfundar, 9 á kjörstað, alls 38 atkvæði.

Elínborg Lárusdóttir: 47 utan kjörfundar, 15 á kjörstað, alls 62 atkvæði.

Friðgeir Jóhannesson: 19 utan kjörfundar, 7 á kjörstað, alls 26 atkvæði.

Guðmundur Rafn Bjarnason: 26 utan kjörfundar, 14 á kjörstað, alls 40 atkvæði.

Halldór Sævar Guðbergsson: 103 utan kjörfundar, 35 á kjörstað, alls 138 atkvæði.

Haraldur Matthíasson: 20 utan kjörfundar, 11 á kjörstað, alls 31 atkvæði.

Lilja Sveinsdóttir: 63 utan kjörfundar, 15 á kjörstað, alls 78 atkvæði.

Ólafur Haraldsson: 39 utan kjörfundar, 13 á kjörstað alls 52 atkvæði.

Rósa Ragnarsdóttir: 45 utan kjörfundar, 12 á kjörstað alls 57 atkvæði.

Sigríður Hlín Jónsdóttir: 82 utan kjörfundar, 25 á kjörstað, alls 107 atkvæði.

Svavar Guðmundsson: 8 utan kjörfundar, 2 á kjörstað, alls 10 atkvæði.

Þórarinn Þórhallsson: 22 utan kjörfundar, 9 á kjörstað, alls  31 atkvæði.

Auðir seðlar og ógildir voru 8.

Niðurstaða stjórnarkjörs:

1. Sæti Halldór Sævar 138 atkvæði, 2. sæti Sigríður Hlín Jónsdóttir 107 atkvæði og teljast þau rétt kjörin sem aðalmenn í stjórn Blindrafélagsins til næstu tveggja ára.

3. Sæti Lilja Sveinsdóttir með 78 atkvæði og í 4. sæti Elínborg Lárusdóttir með 62 atkvæði. Þær eru því rétt kjörnar sem varamenn í stjórn til næstu tveggja ára.

15.  Fundarslit.

Fundarstjóri þakkaði fyrir góðan og viðburðaríkan fund fyrir sína hönd og fundarritara og gaf nýkjörnum formanni orðið. Formaður sagði markmiðið að gera gott félag enn betra og sleit aðalfundi Blindrafélagsins kl. 18:56.

Hljóðritun af aðalfundinum í heild má heyra á heimasíðu Blindrafélagsins www.blind.is.

Reykjavík 7. Febrúar 2016

Gísli Helgason aðalfundarritari.