Fundargerð félagsfundar 10. Nóvember 2016.

Fundargerð

Formaður setti fundinn kl. 17:00 og bauð fundarmenn velkomna með nokkrum hugleiðingum. Hann fór yfir efni fundarins sem var umfjöllun og kynning á skýrslu Sigurborgar Kr. Hannesdóttur frá stefnumóti í maí sl. Jafnframt verður stefnumótunarskýrsla stjórnar og sóknaráætlun kynnt.

Eftir að fundarmenn höfðu kynnt sig en 38 manns voru á fundinum að meðtöldu starfsfólki, var borin upp tillaga um fundarstjóra og ritara.

Hlynur Þór Agnarsson var kjörinn fundarstjóri og Gísli Helgason fundarritari.

Þá voru fundargerðir Félagsfundar 9. og 10. febrúar ásamt fundargerð félagsfundar frá 2. mars lagðar fram og voru þær samþykktar með öllum greiddum atkvæðum.

Þá gaf fundarstjóri formanni orðið. Í upphafi gerði hann grein fyrir samantekt Sigurborgar K. Hannesdóttur hjá Ildi ehf frá stefnumóti félagsins í maí sl. og fjallaði um hvernig sú skýrsla rýmar saman við stefnumótun félagsins.

Síðan fór formaður yfir stefnumótun stjórnar sem hefur verið uppfærð frá árinu 2009 nema árið 2015 og gerði ýtarlega grein fyrir henni.

Stefnumótun stjórnar ásamt skýrslu frá stefnumóti félagsins er nú aðgengileg á heimasíðu Blindrafélagsins.

Að loknum orðum formanns var gert stutt fundarhlé og fólk ræddi saman á borðum um skýrslu formanns.

Þá hófust umræður.

Arnþór Helgason hefði viljað fá skýrsluna fyrir fund svo að hægt væri að kynna sér hana. Hann fagnaði skýrslu Sigurborgar Hannesdóttur en kvað útsendingu hennar hafa verið ábótavant. Taldi að hún hefði átt að fylgja síðasta fréttabréfi Blindrafélagsins sem þyrfti að nýta til fleiri hluta en að tilkynna um atburði.

Hann sagði engar myndlýsingar hafa verið í skýrslunni en fróðlegt hefði verið að vita hvað þær sýndu. Hann sagði þetta dæmi um að blint fólk væri að verða undir í félaginu.

Þá spurði Arnþór hvernig staðið yrði að gerð siðareglna og lýsti efasemdum um að stjórn væri fær ein og sér um að leggja fram frumvarp að endanlegum siðareglum. Sumir stjórnarmenn voru margir viðriðnir þau leiðindi sem urðu á síðasta ári og fram á þetta ár og eru þess vegna að hluta til í þeirri stöðu að þurfa að fá utanað komandi aðstoð til þess að vinna þetta.

Arnþór fjallaði um gagnsæi í rekstri félagsins og spurði af hverju t.d. laun formanns, framkvæmdastjóra og annarra væru ekki gerð opinber. Spurði hvaða tilgangi launaleynd þjónaði þegar stofnanir eins og Öryrkjabandalagið og ASÍ hefðu ævinlega gefið upp laun framkvæmdastjóra.

Þá taldi hann vafasamt að fólk sem væri nærri stjórn félagsins sæti í stjórn einsog t.d. starfsfólk félagsins og Blindravinnustofunnar og kom með dæmi máli sínu til stuðnings. Hann kvaðst ánægður með skýrslu formanns og lagði áherslu á að menn yrðu að vera stoltir af sjálfum sér.

María Hauksdóttir sagði frá umræðum við sitt borð um að koma þyrfti þjónustu við blinda í betra form og keyptar yrðu innkaupakerrur í hús félagsins þannig að íbúar gætu farið með þær í verslanir.

Ólafur Þór Jónsson tók undir orð Arnþórs og var ánægður með góða þjónustu við blint fólk á fundinum, fagnaði skýrslu formanns sem hann hefði viljað kynna sér fyrir fundinn og sagði Blindrafélagið mega standa sig betur í þjónustu við blint fólk.

Rósa Ragnarsdóttir spurði um hvort verið væri að gera nýja heimasíðu fyrir félagið.

Vilhjálmur Gíslason var ánægður með orð Arnþórs og tók undir að stjórn þyrfti utanaðkomandi aðila vegna siðareglna. Taldi þennan fund góðan og jákvæðan á allan hátt.

Gísli Helgason vakti athygli á mismunum. Nefndi t.d. fundargerðir og fleira efni sem eingöngu er aðgengilegt á heimasíðu félagsins sem ekki allir hafa aðgang að. Kvað Blindrafélagið besta félag í heimi ætti að stuðla að aðgengi efnis fyrir allt fólk innan félagsins, jafnvel þótt fáir læsu ákveðið efni eins og fundargerðir ættu þeir rétt á að eiga aðgang að því. Þakkaði fyrir góðan fund.

María Hauksdóttir ræddi um Valdar greinar og sæti í strætóskýlum.

Þá svaraði Sigþór Hallfreðsson formaður nokkrum spurningum frá fundarmönnum. Sagðist vinda sér í að setja myndlýsingar í skýrslurnar. Ekki reyndist unnt að setja stefnumótunarskýrslu á netið. Fjallaði um efni á Völdum greinum og sagði félagið myndi leita utanaðkomandi leiðbeininga vegna gerðar siðareglna.

Rósa María Hjörvar varaformaður félagsins fjallaði um góðan fund og ræddi um blindraletrið. Sagði stjórn ekki hafa neina sérstaka stefnu en minnti á að letrið væri á undanhaldi víða, sagði yngra fólk læra það en eldra fólk tæki það ekki til sín. Kvað mjög mikilvægt að rækta blindraletrið og sagði frá rannsóknum á vegum dönsku blindrasamtakanna þar að lútandi. Svaraði nöfnu sinni Ragnarsdóttur varðandi heimasíðu félagsins sem ætlunin er að endurnýja.

Arnþór Helgason brást við orðum Rósu og sagði að blindraletur ætti að vera undirstaða allrar endurhæfingar hér á landi.

 

Þá voru tekin fyrir önnur mál.

Til máls tóku Ólafur Þór Jónsson, Vilhjálmur H. Gíslason og Rósa María Hjörvar.

Formaður sleit síðan fundi um kl. 18:45 og þakkaði góðan fund.

Reykjavík 18. Febrúar 2017