Fundargerð stjórnar nr. 18 2018-2019

Fundargerð 18. stjórnarfundar Blindrafélagsins, starfsárið 2018 – 2019, haldinn miðvikudaginn 24. apríl kl. 16:00 að Hamrahlíð 17.

Mættir: Sigþór U. Hallfreðsson (SUH) formaður, Lilja Sveinsdóttir (LS) varaformaður, Hjalti Sigurðsson (HS) ritari, Eyþór Kamban Þrastarson (EKÞ) gjaldkeri, Rúna Ósk Garðarsdóttir (RÓG) meðstjórnandi, Dagný Kristmannsdóttir (DK) varamaður, Guðmundur Rafn Bjarnason (GRB) varamaður, Rósa Ragnarsdóttir (RR) varamaður, Þórarinn Þórhallsson (ÞÞ) og Kristinn Halldór Einarsson (KHE) framkvæmdastjóri.

1. Fundarsetning og lýst eftir öðrum málum.

SUH bar upp tillögu að dagskrá, sem send hafði verið út með fundarboðinu. Var tillagan samþykkt samhljóða.

Lýst eftir öðrum málum: Engin önnur mál boðuð.

2. Afgreiðsla fundargerðar.

Fundargerðir 16 og 17 funda, sem sendar voru stjórnarmönnum fyrir fundinn, voru samþykktar samhljóða.

3. Skýrslur bréf og erindi.

Í skýrslu formanns var fjallað um:

 • Leiðsöguhundaverkefni - fundur með félagsmálaráðherra.
 • Úthlutun úr styrktarsjóði Blindravinafélags Íslands og Blindrafélagsins - Stuðningur til sjálfstæðis.
 • Námskeið með Daníel Kish 2021.
 • Fræðsluerindaröðin.
 • Ráðstefna um heilatengda sjónskerðingu CVI.
 • Undirbúningur RIWC, fundur með NOK nefndinni.
 • Varðveisla menningararfsins og fundur með Ljósmyndasafni RVK.
 • Landssöfnun Lions „Rauða fjöðrin“ 5. til 7. apríl.
 • Hádegisspjall 3. apríl.
 • Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og Blindrafélagið.
 • Mikilvægar dagsetningar.

Stjórn staðfesti úthlutun sjóðsstjórnar STS.

Stjórnin var jákvæð gagnvart því að taka þátt í heimsókn Daniel Kish til landsins þegar að því kemur.

Í skýrslu framkvæmdastjóra var fjallað um:

 • Aðalfundur Blindrafélagsins.
 • Starfsmannamál.
 • Framkvæmdir og húsnæðismál.
 • Áhættumatsskýrsla um innflutning á hundum.
 • Fjáraflanir.
 • Ferðaþjónusta.
 • Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) – Samantekt frá EBU með áherslu á málefni blindra og sjónskertra.

Stjórn samþykkti að Verkefnasjóður kæmi að EBU verkefninu um Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF). En verkefnið felst í að þýða samantekt frá EBU með áherslu á málefni blindra og sjónskertra og efna síðan til málstofu. Kostnaður er áætlaður um 150.000 krónur.

Engin innsend erindi lágu fyrir.

4. Inntaka nýrra félaga.

Í mars mánuði komu 4 umsóknir um félagsaðild. Voru þær allar samþykktar með fyrirvara um samþykki aðalfundar.

5. Starf aðgengisfulltrúa.

Frá áramótum hefur verið í gangi tilraun með að hafa aðgengisfulltrúa í starfi hjá félaginu. Aðgengisfulltrúi Blindrafélagsins hefur meðal annars unnið að eftirfarandi verkefnum frá því að hann tók til starfa í janúar.

 • Kynningu á aðgengislausnum Blindrafélagsins fyrir arkitekta og innanhúshönnuði.
 • Úttektir og leiðbeiningar fyrir uppsetningu á leiðarlínum.
 • Samstarf við Málefnahóp ÖBÍ um aðgengismál.
 • Kynning fyrir nýja aðgengisfulltrúa ÖBÍ á þörfum blindra og sjónskertra.
 • Úttekt á hljóðmerkjum í götuvitum og kynning á aðgengislausnum.
 • Kynning á stafrænu aðgengi fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu.
 • Kynning á stafrænu aðgengi fyrir RÚV og samstarf við forritara um endurbætur á RÚV appi.
 • Kynning á stafrænu aðgengi og endurbótum á heimasíðu Heilsugæslu, Heilsuveru og TR.
 • Samstarf um endurbætur á appi hjá Arion og Íslenskri Getspá.
 • Samstarf við Envision AI um endurbætur á appi.
 • Kynning fyrir Siteimprove á áherslum Blindrafélagsins.
 • Úttekt og samstarf við Siteimprove varðandi vefverðlaun 2019.
 • Könnun á möguleikum á tölvukennslu.
 • Könnun á aðgengi að nýrri tækni á íslensku með talgervli t.d. Chrome book og Braille Note Touch frá Humanware.
 • Seta í samstarfnefnd með meðal annars Þroskahjálp um starfrænt aðgengi.
 • Fyrirlestrar og kynningar fyrir hönnuði og forritara.

SUH gerði að tillögu sinni að starf aðgengisfulltrúa félagsins yrði gert að varanlegu starfi með 50% starfshlutfall. Var tillagan samþykkt samhljóða.

6. Áhættumat vegna ferða leiðsöguhunda.

„Risk Assessment of Import of dogs and cats to Iceland - with special attention to Guide-dogs“ er skýrsla sem að íslensk stjórnvöld fengu erlendan sérfræðing til að gera. Skýrslan kom út um miðjan apríl.

Ef horft er til niðurstöðu skýrslunnar varðandi leiðsöguhunda fyrir blinda þá má segja að megin niðurstaðan sé sú að áhættan af innflutningi á hundum til Íslands sé lítil og áhættan af innflutningi leiðsöguhunda sé enn minni.

Skýrsluna má nálgast í gegnum tengilinn hér fyrir neðan og á síðu 135 er samandregin tafla sem gerir grein fyrir niðurstöðu áhættumatsins: https://www.stjornarradid.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=1b90139e-5f86-11e9-943c-005056bc530c

Samþykkt var að fela framkvæmdastjóra að leita ráðgjafar fagfólks varðandi niðurstöður matsins og túlkun þeirra.

7. Aðalfundur Blindrafélagsins.

Þann 12 apríl var boðað til aðalfundar félagsins og lýst eftir framboðum til stjórnar. Kjörnefnd félagsins kom saman 20 apríl og úrskurðaði þau sex framboð sem að bárust lögleg. Þeir sem gáfu kost á sér sem aðal- eða varamenn í stjórn eru: Arnþór Helgason, Guðmundur Rafn Bjarnason, Hlynur Þór Agnarsson, Kaisu Hynninen, Rósa Ragnarsdóttir og Rúna Ósk Garðarsdóttir.

Engar lagabreytingar liggja fyrir aðalfundinum.

Utankjörfundaratkvæðagreiðsla hefst á skrifstofu félagsins mánudaginn 29. apríl. Reglur um kosningu til stjórnar hafa verið settar á vefsíðu félagsins og kynntar í sérstöku aukafréttabréfi sem sent var út 31.04.2019.

SUH gerði tillögu um að stjórn myndi leggja til að Hjörtur Heiðar Jónsson yrði fundarstjóri og Marjakaisa Matthíasson fundarritari. Var tillagan samþykkt samhljóða.

SUH opnaði umræðu um greiðslu launa fyrir stjórnarsetu. Stjórnin samþykkti að leggja til við aðalfund að laun fyrir stjórnarsetu yrðu hækkuð um 5,5%, sem er sama hækkun og hefur verið á launavísitölu seinustu 12 mánuði. Samþykkt var að leggja til að þóknun fyrir stjórnarsetu hækki um 5,5%.

SUH var falið að tala við þá sem eru í kjörnefnd um áframhaldandi setu.

Ákveðið var að leggja til að félagsgjöld yrðu óbreytt, 4000 krónur á ári.

SUH lagði fram tillög að eftirfarandi ályktunum:

Ályktun – rafrænt aðgengi.

Aðalfundur Blindrafélagsins skorar á stjórnvöld að beita sér fyrir innleiðingu á vefaðgengistilskipun Evrópusambandsins (Web Accessability directive). Enn fremur skorar félagið á vefhönnuði, forritara og forráðamenn fyrirtækja í stafrænni þjónustu að kynna sér og nota WCAG staðal í allri stafrænni hönnun til þess að tryggja aðgengi blindra og sjónskertra að upplýsingum og þjónustu á vefnum.

Greinargerð:

Stafræna byltingin gaf blindum og sjónskertum mikla von um að geta tekið þátt í samfélaginu til jafns við aðra. Tölvutækni hefur frá upphafi verið blindum og sjónskertum vel aðgengileg með aðstoð hjálparbúnaðar og þar með boðið upp á tækifæri sem geta reynst torsótt í raunheimum. Þannig er hægt að sinna störfum, sækja sér þjónustu og leita upplýsinga án þess að þurfa að beita sjóninni. Þróun undanfarinna áratuga hefur hins vegar verið sú að hönnun og uppsetning vefsvæða er blindum og sjónskertum oft óaðgengileg. Þannig hefur heimsbyggðin farið á mis við þetta tækifæri til þess að auka sjálfstæði blindra og sjónskertra með því að sinna ekki þeim einföldu kröfum sem gerðar eru til þess að stoðbúnaður okkar geti virkað. Þar með hafa blindir og sjónskertir verið skildir eftir í þeirri stafrænu byltingu sem átti að tryggja þeim betri tækifæri og aukið sjálfstæði. Stofnanir Evrópusambandsins hafa gert sér grein fyrir þessum vanda og metið að nauðsynlegt sé að setja löggjöf sem tryggir rétt blindra og sjónskertra að aðgengi af vefnum þar sem markaðurinn virðist ekki ráða við að gera það upp á eigin frumkvæði. Þess vegna hafa nú verið sett lög um aðgengi að opinberri stafrænni þjónustu innan ESB og á leiðinni eru lög um aðgengi að þjónustu á almennum markaði. Þessi löggjöf á líka erindi til Íslands og við hvetjum Alþingi Íslendinga til þess að gera þetta að forgangsmáli í störfum sínum. Þetta er grundvöllur þess að blindir geti unnið á almennum vinnumarkaði, fyrir sjálfstæðri búsetu og lífsgæðum. Einnig viljum við hvetja vefhönnuði, forritara og forráðamenn fyrirtækja í stafrænni þjónustu til þess að kynna sér þá staðla sem miðað er við í nýrri löggjöf. Reynslan er sú að við það að beita WCAG staðli bætir hönnuðinn ekki aðeins aðgengi fyrir fatlaða heldur tryggir það aðgengilega og góða hönnun sem er öllum fyrir bestu. Þannig geta algild hönnunar viðmið í stafrænni þjónustu leitt af sér aukin þægindi og betri upplifun fyrir alla notendahópa.

Ályktun – ferðafrelsi leiðsöguhunda.

Aðalfundur Blindrafélagsins skorar á stjórnvöld að afnema takmarkanir og hindranir á ferðum leiðsöguhunda til landsins. Fyrirliggjandi nýtt áhættumat á ferðum leiðsöguhunda sýnir fram á að ekki er tilefni til að hefta ferðafrelsi leiðsöguhunda til landsins með tilheyrandi óþægindum fyrir notendur þeirra.

Stjórnin samþykkti að vinna með þennan texta með það í huga að leggja fyrir aðalfund. Stefnt er að því að textinn verði tilbúinn á næsta stjórnarfundi þann 9. maí.

8. Önnur mál. Engin önnur mál.

Fundi slitið kl. 18:35.
Fundargerð ritaði Kristinn Halldór Einarsson.