Fundargerð stjórnar nr. 7 2020-2021

Fundargerð 7.  stjórnarfundar Blindrafélagsins, starfsárið 2020 – 2021, haldinn miðvikudaginn 24. 3.2021 kl. 16:00.

Mættir: Sigþór U. Hallfreðsson (SUH) formaður, Eyþór Kamban Þrastarson (EKÞ), ritari, Ásdís Evlalía Guðmundsdóttir (ÁEG) gjaldkeri, Guðmundur Rafn Bjarnason (GRB) varamaður, (tekur sæti HÞA sem aðalmaður), Dagný Kristmannsdóttir (DK) varamaður, Rósa Ragnarsdóttir (RR) varamaður, Þórarinn Þórhallsson (ÞÞ) varamaður, Kristinn Halldór Einarsson (KHE) framkvæmdastjóri.

Forföll: Kaisu Hynninen (KH) varaformaður, Hlynur Þór Agnarsson (HÞA)

Fundurinn var haldinn í gegnum Teams fjarfundarbúnaðinn.

1.     Fundarsetning.

SUH setti fundinn og bar upp tillögu að dagskrá, sem send hafði verið út með fundarboðinu. Var tillagan samþykkt.

2.     Afgreiðsla fundargerðar.

Fundargerð 6. fundar, sem send hafði verið stjórnarmönnum, var samþykkt samhljóða.

Önnur mál: Engin boðuð.

3.     Inntaka nýrra félaga.

Fyrir lágu 4 umsóknir um félagsaðild. Voru umsóknirnar samþykktar með fyrirvara um staðfestingu aðalfundar.

4.     Skýrslur, bréf og erindi.

Í skýrslu formanns var fjallað um:

 • Mat á stöðu þjónustunnar við blint og sjónskert fólk.
 • Aðalfundur World Blind Union.
 • NSK fundur 16 mars.
 • Formannafundur ÖBÍ 17 mars.
 • Félagsfundur fimmtudaginn 25 febrúar.
 • Stefnuþing ÖBÍ næstu skref.
 • Störf fyrir fatlaða fólk á vinnumarkaði.
 • Viðburðir framundan og mikilvægar dagsetningar.       

Í skýrslu framkvæmdastjóra var fjallað um:

 • Framkvæmdir við Hamrahlíð 17 – 5. og 6. hæð.         
 • Vefvarpshlustun.
 • Ferðaþjónusta Blindrafélagsins.
 • Íslensku Android raddirnar.
 • Máltækniráðstefna Almannaróms.
 • Viðbrögð Blindrafélagsins við hertum sóttvarnaraðgerðum.

5.     Úttekt á þjónustu við blint og sjónskert fólk.

Í skýrslu SUH segir:
¨Það þarf ekki að fjölyrða um hversu mikilvægan þátt Þjónustu og þekkingarmiðstöðin fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón og heyrnarskerðingu hefur fyrir okkar hóp.  Nú í ár eru liðin 12 ár frá því að Miðstöðin hóf starfsemi sína en hún starfar skv. lögum nr. 160 frá 2008 og heyrir undir Félagsmálaráðuneytið.  Markmið miðstöðvarinnar er m.a. að auka möguleika blindra, sjónskertra og daufblindra til virkni og þátttöku í samfélaginu og hafa yfirsýn yfir aðstæður þeirra og samhæfa aðra þjónustu við þennan hóp.  Sjá nánar á heimasíðu Miðstöðvarinnar undir þessum hlekk „Um Miðstöðina | Þjónustu og þekkingarmiðstöðin (midstod.is)“

Um það leiti sem Miðstöðin var sett á laggirnar var gerð víðtæk úttekt á þjónustu við blinda og sjónskerta sem varð grundvöllur við mótun starfsemi hennar.  Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan og ýmislegt breyst sem hefur haft áhrif á starfsemi Miðstöðvarinnar og þar með talið þjónustuna við okkar hóp.  Varðar það m.a. viðhorf og þekkingu, starfsmannabreytingar og ekki síður tækni t.d. má geta þess að þegar Miðstöðin var sett á stofn var snjalltækjavæðingin með öllum sínum möguleikum nánast óskrifað blað og við vorum að fá fyrstu leiðsöguhundana til starfa,  Margt annað spilar inni í eins og fjárveitingar, breytingar í yfirstjórn og ekki síður biðstaðan í kringum ráðningar á forstjórum.  Nú hefur tekið til starfa nýr og áhugasamur forstjóri Elfa S. Hermannsdóttir sem þekkir vel til á Miðstöðinni frá fyrri tíð. Hún hefur mikinn hug á að efla starfið og skerpa línurnar og þróun Miðstöðina fram á veginn.

Á þessum tímamótum felst verðmætt tækifæri fyrir Blindrafélagið til að hafa áhrif á þróun Miðstöðvarinnar og stefnu stjórnvalda á kosningaári með því að endurmeta stöðuna.

Hér er því lögð fram tillaga um að Blindrafélagið ráðist í það verkefni leggja mat á framboð og framkvæmd þjónustunnar við okkar hóp.  Verkefnið gæti falið í sér eftirfarandi samþætta áfanga:

A)             Úttekt á þjónustunni við blinda og  sjónskerta, Miðstöðin / Blindrafélagið / Hljóðbókasafn.

B)             Viðhorfsmælingu á meðal þeirra sem njóta þjónustunnar.

Áfangi A: Markmiðið er að draga fram hvernig þróunin hefur verið á þjónustunni og hver staðan er í dag,  Til dæmis má nefna atriði eins og hvernig fjárveitingar til Miðstöðvarinnar hafa þróast, þróun starfsgilda og verkefni.  Hvernig er þjónustan við eldri félagsmann, nemendur, fólk á vinnualdir, sálfræði- og félagsþjónusta. tækniráðgjöf, umferli, ADL  o.s.frv.

Áfangi B:  Undanfarin ár höfum við reglulega gert þrennskonar skoðanakannanir sem beint hefur verið að. a) almenningi, b) stuðningsaðilum Blindrafélagsins og c) félagsmönnum.  Í samhengi við þetta stöðumat mætti núna sleppa skoðanakönnunum á meðal almennings og stuðningsmanna en setja meira vigt í könnun á meðal félagsmanna/notenda miðstöðvarinnar og beina þá athyglinni að atriðum sem varða þjónustuna og framboð á henni.

Í hnotskurn.

Markmið: Raunsönn mynd af stöðunni á þjónustu við blinda og sjónskerta í dag.
Áætlaður kostnaður: Gróft áætlað 3 - 4 milljónir.
Verktími:  Hæfist nú þegar og áætluð skil á niðurstöðum í lok ágúst.
Fjármögnun:  Greitt úr verkefnissjóði.
Unnið af:  Utanaðkomandi sérfræðingum.
Tengiliðir Blindrafélagsins:  Formaður og framkvæmdastjóri.
Ráðgefandi hópur: Stjórn félagsins.
Ef af verður mynd næstu skref felast í að formaður og framkvæmdastjóra yrði falið að manna verkefnið og skilgreina það nánar ásamt þeim sérfræðingum sem fengnir yrðu til verksins.“

Tillagan var samþykkt samhljóða.

6.     Aðalfundur WBU.

SUH kynnti fyrirkomulag aðalfundar WBU og ICEVI sem verða í júní og verða þeir í fjarfundarbúnaði. Blindrafélagið á rétt á að skipa tvo fulltrúa með atkvæðisrétt og 6 áheyrnarfulltrúa.

 SUH var falið að skipa fulltrúa Blindrafélagsins  á þessum fundum.

7.     Ráðstefna Almannaróms 27. apríl.

KHE gerði grein fyrir fyrirhugaðri ráðstefnu Almannaróms 27 apríl. Ráðstefnan mun fjalla um íslenska máltækni með sérstakri áherslu á aðgengi og máltækni og máltækni í atvinnulífinu. Ráðstefnunni mun verða streymt auk þess sem stefnt er að því að einnig verði hægt verði að mæta á staðinn. Töluvert af efni ráðstefnunnar mun verða í formi stuttra kynningamyndbanda en einnig verða fluttir fyrirlestrar. Blindrafélagið hefur verið mjög virkt í undirbúningi ráðstefnunnar. Þannig eru fjögur atriði sem að koma í gegnum Blindrafélagið, þau eru:

 • Erindi um aðgengistilskipun EES.
 • Myndband þar sem fylgst er með því hvernig Rósa María Hjörvar notar máltækni í sínu doktorsnámi og kennslu.
 • Myndband sem sýnir veflesara lausnir frá Read Speaker í skólaumhverfi og hvernig það getur nýst öllum nemendum.
 • Kynning á talandi verðskanna í versluninni Rangá sem notast við íslenska Polly Amason rödd, sem á uppruna sinn í íslensku Ivona röddunum .

8.     Aðalfundur Blindrafélagsins.

SUH gerði það að tillögu sinni að aðalfundur Blindrafélagsins yrði haldinn laugardaginn 15. maí. Var tillagan samþykkt samhljóðandi. Í ljósi aðstæðna verði gert ráð fyrir að fundurinn verði rafrænn.

9.     Önnur mál.

EKÞ vakti máls á reglum um styrkveitingar STS. Umræður urðu um málið.

Fundi slitið kl 17:45.

Fundargerð ritaði Kristinn Halldór Einarsson.