Þrjár ályktanir frá aðalfundi

Ályktanir sem aðalfundur samþykkti 26. maí 2022.  

 1. Ályktun - Frumvarp til laga um leigubifreiðar. 

Aðalfundur Blindrafélagsins haldinn 26. maí 2022 skorar á Alþingi að tryggja að fyrirhuguð ný lög um leigubifreiðar leiði ekki til lakara þjónustustigs en nú er fyrir daglega reglubundna notendur þjónustunnar. Blindrafélagið leggur jafnframt áherslu á að allir rekstrarleyfishafar séu skráðir á leigubifreiðastöð sem hefur starfsleyfi gefið út af Samgöngustofu. Enda segir í 1. grein frumvarpsins að markmið þessara nýju laga sé að tryggja gott aðgengi að hagkvæmri, skilvirkri og öruggri leigubifreiðaþjónustu fyrir neytendur á Íslandi. 

 

Blindrafélagið óttast að ofuráhersla verði á aukið framboð leigubifreiða á háannatímum um helgar.  Það muni leiða til lakari rekstargrundvallar og þar með fækkun þeirra sem hafa leigubifreiðaakstur að aðalstarfi, með tilheyrandi alvarlegum afleiðingum á framboð leigubifreiða á virkum dögum. Þó það sé vissulega neytendum í hag að nægt framboð sé á leigubifreiðum á hagstæðum kjörum þá eru það ekki síður mikilvægir hagsmunir neytenda að nægt framboð sé á leigubílaþjónusta alla daga ársins allan sólahringinn. Að láta þessa mikilvægu almanna þjónustu á óheft markaðstorg mun hafa þau áhrif að framboð mun minnka, þjónustustigið lækka og verð munu hækka. 

Notendur ferðaþjónustu Blindrafélagsins, sem reiða sig á leigubílaþjónustu hafa mjög ólíkar þarfir og eru mismikið fatlaðir. Alþjóðlegar rannsóknir sýna að fatlað fólk almennt er útsettara fyrir hverskonar ofbeldi og misnotkun og þá sérstaklega í þjónustusamböndum. Því er það sérstaklega mikilvægt að allur lagarammi varðandi þjónustu og starfsmannahald sem snýr að fötluðu fólki sé skýr og gætt sé að fyllasta öruggi. Þar er ekki eingöngu um að ræða fötlun vegna sjónmissis heldur er einnig um að ræða einstaklinga með samþætta sjón og heyrnarskerðingu og einstaklinga, með geðrænar fatlanir og þroskaskerðingar til viðbótar við sjónmissinn.  

Það að afnema stöðvarskyldu og draga úr kröfum til bílstjóranna mun að mati Blindrafélagsins skerða þjónustuna og öryggi farþeganna, sérílagi farþega sem tilheyra viðkvæmum hópum.   

 2. Ályktun - Evrópska vefaðgengistilskipunin innleidd á Íslandi. 

Aðalfundur Blindrafélagsins, haldinn 26. maí 2022, ítrekar ályktun frá aðalfundi 11. maí 2019, og skorar á íslensk stjórnvöld að innleiða án tafar vefaðgengistilskipun Evrópusambandsins (Web Accessability directive).  Jafnframt lýsir fundurinn yfir miklum vonbrigðum með að staða þessa máls skuli enn vera óbreytt þremur árum síðar, þrátt fyrir fyrirheit um annað. 

Einnig hvetur fundurinn  allar þær menntastofnanir sem að kenna tölvunarfræði og/eða forritun að taka efni aðgengistilskipunarinnar inn í kennsluefni sitt. Enn fremur skorar félagið á vefhönnuði, forritara og forráðamenn fyrirtækja í stafrænni þjónustu að taka frumkvæðið í sínar hendur og innleiða markviss vinnubrögð til að tryggja gott aðgengi. Meðal annars að kynna sér og nota WCAG staðalinn í allri stafrænni hönnun og stuðla þannig að bættu aðgengi blindra og sjónskertra einstaklinga að upplýsingum og þjónustu á vefnum og um leið að auknum lífsgæðum þeirra. 

 

Greinargerð. 

Stafræna byltingin hefur aukið til muna möguleika blindra og sjónskertra einstaklinga á samfélagslegri virkni langt umfram það sem áður hefur verið möguleiki á. Tölvutækni hefur frá upphafi verið blindum og sjónskertum aðgengileg með aðstoð hjálparbúnaðar. Það hefur leitt af sér tækifæri sem hefði reynst torsótt að nýta án tölvutækninnar. Þannig er hægt að sinna störfum, sækja sér þjónustu og leita upplýsinga án þess að þurfa að beita sjóninni. Þróun undanfarinna áratuga hefur hins vegar verið sú að hönnun og uppsetning vefsvæða er blindum og sjónskertum oft óaðgengileg. Þannig hafa tækifæri sem felast í aukinni atvinnuþátttöku og almennri virkni blindra og sjónskertra einstaklinga farið forgörðum með tilheyrandi verðmætasóun. Eingöngu vegna þess að almennum og einföldum aðgengiskröfum um virkni staðlaðs stoðbúnaðar er ekki mætt. Þar með eru blindir og sjónskertir einstaklingar settir til hliðar í þeirri stafrænu byltingu sem á að tryggja þeim betri tækifæri og aukið sjálfstæði. Stofnanir Evrópusambandsins hafa gert sér grein fyrir þessum vanda og hafa sett löggjöf sem tryggir rétt blindra og sjónskertra að aðgengilegum veflausnum. ESB hefur þegar sett lög um aðgengi að opinberri stafrænni þjónustu innan ESB og á leiðinni eru lög um aðgengi að þjónustu á almennum markaði. Þessi löggjöf er hluti af EES samningnum og ber því að innleiða hana hér á landi. Innleiðing þessara aðgengislöggjafa er grundvöllur þess að blindir og sjónskertir einstaklingar geti unnið á almennum vinnumarkaði, fyrir sjálfstæðri búsetu og almennum lífsgæðum. Einnig er mikilvægt að vefhönnuðir, forritarar og forráðamenn fyrirtækja í stafrænni þjónustu séu vel kunnugir þeim stöðlum sem aðgengislöggjöfin byggir á. Reynslan af að beita WCAG staðlinum í rafrænni hönnun sýnir að það bætir ekki aðeins aðgengi fyrir fatlaða einstaklinga heldur tryggir það einnig aðgengilega og góða hönnun sem er öllum til hagsbóta. Þannig geta algild hönnunarviðmið í stafrænni þjónustu leitt af sér aukin þægindi og betri upplifun fyrir alla notendahópa. 

 

3. Ályktun - Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. 

Aðalfundur Blindrafélagsins, haldinn 26. maí 2022, ítrekar ályktun frá aðalfundi 12. maí 2018, og skorar á íslensk stjórnvöld að lögfesta Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks hið fyrsta.  Jafnframt lýsir fundurinn yfir miklum vonbrigðum með að staða þessa máls skuli enn vera óbreytt fjórum árum síðar, þrátt fyrir fyrirheit um annað. 

Þó að undirskrift og fullgilding samningsins hafi vissulega verið nauðsynleg og mikilvæg skref í þá átt að stuðla að fullum mannréttindum fatlaðs fólks, þá er mikilvægt að lögfesta samninginn og valfrjálsu bókunina við hann. 

Lögfestingin tryggir best réttarstöðu fatlaðs fólks, þar sem sami túlkunarvandi verður ekki fyrir hendi og nú er uppi þegar einungis er búið að fullgilda samninginn.  Lögfestingin tryggir að hægt verði að byggja rétt fólks á samningnum fyrir dómstólum með beinum hætti. 

Í samningnum felst að „Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að tryggja og stuðla að því að öll mannréttindi og grundvallarfrelsi verði í einu og öllu að veruleika fyrir allt fatlað fólk án mismununar af nokkru tagi vegna fötlunar.“ 

Grundvallaratriði og meginreglur samningsins kveða á um: 

  • virðingu fyrir mannlegri reisn, sjálfræði og sjálfstæði allra einstaklinga. 

  • bann við mismunun. 

  • fulla samfélagsþátttöku allra í einu samfélagi fyrir alla. 

  • virðingu fyrir fjölbreytileika fólks og mannlegum margbreytileika. 

  • jöfn tækifæri. 

  • aðgengi. 

  • jafnrétti á milli karla og kvenna. 

  • virðingu fyrir getu fatlaðra barna og virðingu fyrir rétti þeirra til að varðveita sjálfsmynd sína.