Blindrafélagið og Be My Eyes hefja samstarf á Degi Hvíta Stafsins

Merki Blindrafélagsins og Be My Eyes
Merki Blindrafélagsins og Be My Eyes

Frá og með deginum í dag, 15. október 2020, býður Blindrafélagið upp á nýja tegund þjónustu við blinda og sjónskerta með notkun smáforritsins Be My Eyes. Um spennandi lausn er að ræða og vonast Blindrafélagið til að hún muni koma að góðum notum.

Be My Eyes hefur frá árinu 2015 stækkað ört og eru nú með yfir 100.000 blinda og sjónskerta notendur skráða auk yfir 4.000.000 sjálfboðaliða. Í grunninn virkar kerfið þannig að blindur eða sjónskertur notandi sem þarf sjónræna aðstoð, hringir í sjálfboðaliða með Be My Eyes appinu. Sjálfboðaliði sem svarar fær aðgang að myndavélinni í síma notandans og getur þannig veitt sjónræna aðstoð. Báðir heyra í hvor öðrum en aðeins sjálfboðaliðinn sér það sem myndavél notandans sér.

Þau verkefni sem Be My Eyes var í upphafi ætlað að leysa eru hversdagsleg og í raun erfitt fyrir flesta að sjá þau sem möguleg vandamál, enda mjög sjálfsögð í þeirra huga. Þetta geta verið hlutir á borð við að lesa dagsetningu á mjólkurfernu, greina lit á fatnaði, finna hluti sem detta á gólfið, lesa á pakkningar, para saman föt, lesa póst og margt fleira.

Árið 2018 kom Be My Eyes fram með Sérsniðna aðstoð (Specialized Help) og gerðu þannig fyrirtækjum kleift að bjóða aðstoð með appinu á sama hátt og sjálfboðaliðakerfið virkar. Fyrirtæki á borð við Microsoft og Google nýta þessa lausn í dag og opnar það nýjar dyr fyrir blinda og sjónskerta að sækja sér tæknilega ráðgjöf og aðstoð.

Nú geta blindir og sjónskertir hringt á skrifstofu Blindrafélagsins í gegnum Be My Eyes og er þjónustutíminn sá sami og á skrifstofu félagsins. Við vonum að þessi nýja lausn komi að góðum notum, enda um vannýtta auðlind að ræða að mati undirritaðs. Við vinnum nú hörðum höndum að því að þýða appið og ýmislegt efni yfir á íslensku og er það væntanlegt í náinni framtíð.

Á sama tíma og við viljum hvetja félagsmenn okkar að sækja Be My Eyes appið og nýta sér þessa lausn viljum við einnig hvetja almenning til að gera slíkt hið sama og skrá sig sem sjálfboðaliðar. Rétt er að taka fram að nöfn sjálfboðaliða og notenda koma hvergi fram í símtölum og kerfið sér til þess að sjálfboðaliðar fá ekki símtöl seint á kvöldin, á nóttunni eða eldsnemma morguns.

Frekari upplýsingar um Be My Eyes má nálgast á heimasíðu þeirra www.bemyeyes.com. Einnig er hægt að hafa samband við skrifstofu Blindrafélagsins í síma 525 0000 eða á netfangið adgengi@blind.is.