Retina Ísland (RP deild)

RP-deildin er sameiginlegur vettvangur þeirra sem hafa greinst með arfgenga hrörnunarsjúkdóma í sjónhimnu, svo sem eins og AMD, Retinitis Pigmentosa (RP), LCA, Stardardt, Usher o.fl. Megintilgangurinn með starfsemi deildarinnar er að fylgjast með og fræða félagsmenn og aðstandendur þeirra um það sem er nýjast að gerast í vísindarannsóknum og tilraunum í því skyni að finna lækningar og/eða meðferðir við þessum sjúkdómum. Deildin er því nokkurskonar vísindavettvangur Blindrafélagsins.

Aðild að deildinni er opin öllum sem vilja leggja sitt af mörkum í stuðningi við einstaklinga með arfgenga hrörnunarsjúkdóma í sjónhimnu eða styðja rannsóknir sem miða að því að finna meðferðir við þessum sjúkdómum. Aðild að Blindrafélaginu er þannig ekki forsenda þess að eiga aðild að RP-deildinni. Þeir sem vilja sækja fræðslufundi og annað sem RP-deildin stendur fyrir þurfa því ekki að vera félagsmenn í Blindrafélaginu, allir velkomnir, t.a.m. aðstandendur og vinir þeirra sem búa við þennan augnsjúkdóm.

Áhersla er lögð á að koma upplýsingum á framfæri við félagsmenn um það sem er nýjast að gerast í rannsóknum og meðferðartilraunum sem í gangi eru á hverjum tíma. Reglulega eru haldnir fundir þar sem einstaklingum gefst kostur á að bera saman bækur sínar og sækja stuðning og félagsskap. 

Deildin tekur þátt í alþjóðlegu samstarfi á vettvangi Retina International og sóttar eru ráðstefnur sem fjalla um arfgenga hrörnunarsjúkdóma í sjónhimnu.

Þeir sem vilja gerast félagar í RP-deildinni sendi póst á khe@blind.is.

Retina Ísland á Facebook:

Fréttir af  rannsóknum og tilraunum  Facebooksíða Retina Íslands 

 Retina International