Alþjóðlegi leiðsöguhundadagurinn 24. apríl.

Þann 24. apríl er Alþjóðlegi leiðsöguhundadagurinn haldin víða um veröld. Saga leiðsöguhunda má rekja allt til 16 aldar en á tímum fyrri heimstyrjaldarinnar var fyrst farið að þjálfa leiðsöguhunda markvisst til að aðstoða hermenn sem höfðu tapað sjón. Saga leiðsöguhunda á Íslandi nær allt aftur til 1957 en á þeim tíma hefur mikið vatn runnið til sjávar og í dag eru átta leiðsöguhundar við störf á Íslandi en alls hafa 14 hundar sinnt þessu mikilvæga hlutverki á þessum tíma hér heima.

Leiðsöguhundar eru skilgreindir sem hjálpartæki og eru notendum sínum mikilvægir og til ýmissa hluta nytsamlegir. Þeir aðstoða blinda og sjónskerta einstaklinga við að komast leiðar sinnar á öruggan og sjálfstæðan hátt. Leiðsöguhundurinn er sérþjálfaður í því að:

  • forðast hindranir á gönguleið, bæði á jörðu og í höfuðhæð (t.d. trjágreinar og skilti).
  • hindra að notandinn hrasi um vegkanta eða tröppur.
  • stöðva við öll gatnamót.
  • fara yfir umferðargötur á öruggan hátt með því að forðast að ganga í veg fyrir bíla og önnur farartæki.
  • fylgja fjölda fyrirmæla sem notandinn gefur.
  • finna staura við gangbrautir, bekki og laus sæti í biðstofum.
  • sækja hluti sem notandi missir.

Að auki hafa rannsóknir leitt í ljós að leiðsöguhundar hafa jákvæð áhrif á notendur sínar andlega, félagslega og líkamlega og gefa þeim aukið sjálfstraust í daglegu lífi. Einnig hefur verið sínt fram á að þessi nána samvera með hundunum dregur úr kvíða og þunglyndi auk þess sem þeir eru frábær félagsskapur og góðir vinir. Samband notenda og leiðsöguhunda verður oft mjög náið og slípast með tíð og tíma í að vera fallegt samband milli manns og hunds.

Þekking almennings á hlutverki og umgengi leiðsöguhunda er alltaf að verða betra eftir því sem þeir verða meira áberandi í samfélaginu. Flestir vita að gefa þarf hundunum og notendum þeirra rými til að vinna sína vinnu og virða það samband sem þeir eiga saman. Það má ekki klappa eða gefa sig að leiðsöguhundi sem er í beisli þar sem hann er að vinna undir þeim kringumstæðum. Almennt er góð regla að virða leiðsöguhundinn þegar hann er með notenda sínum og gott að venja sig á að biðja notenda um leyfi áður en hundinum er sýnd athygli.

Leiðsöguhundar eru þjálfaðir til að hunsa aðra hunda þegar þeir eru í vinnu en þeir eru eðlilega forvitnir um aðra hunda samt sem áður. Hundaeigendum er bent á að halda hundum sínum hjá sér þegar þeir mæta leiðsöguhundum og gefa þannig leiðsöguhundunum og notendum þeirra rými til að fara fram hjá með góðu móti.

Það er ástæða til að fagna því að leiðsöguhundum er að fjölga á Íslandi og bera að fagna því mikla og góða starfi sem hefur verið unnið í þessum málum fram að þessu. Með aukinni þekkingu og jákvæðri upplifun notenda og samfélagsins á hlutverki og notkun leiðsöguhunda er von til þess að við sjáum þá í auknu mæli við hlið notenda sinna í leik og starfi um allt land.

Björk Arnardóttir hundaþjálfari/ráðgjafi.
Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu.

Leiðsöguhundadagatal 2019