Samið um ferðaþjónustu fyrir lögblinda Hafnfirðinga

Hafnarfjarðarbær og Blindrafélagið hafa gert með sér þjónustusamning sem felur í sér að Blindrafélagið taki að sér að reka ferðaþjónustu fyrir íbúa Hafnarfjarðar sem eru greindir lögblindir af Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnaskerðingu og geta ekki nýtt sér almenningssamgöngur vegna fötlunar sinnar. Með þessum samningi stígur Hafnarfjarðarbær stórt skref í þjónustu við lögblinda íbúa bæjarins.

Umsóknir um ferðaþjónustu og skráning ferða.

Nýir umsækjendur sækja um aðgang að ferðaþjónustu Blindrafélagsins til fjölskyldu- og barnamálasviðs Hafnarfjarðar í gegnum Mínar síður á www.hafnarfjordur.is sem fjallar um umsóknina í samræmi við gildandi reglur um ferðaþjónustu fatlaðs fólks. Ferð er skilgreind í reglum þessum sem akstur frá A til B innan þjónustusvæðis. Blindrafélagið leggur til rafræn kort fyrir hvern notanda til notkunar í leigubifreiðunum sem bílstjóri notar til að skrá hverja ferð. Grunnkostnaðarhlutdeild notanda fylgir staðgreiðslufargjaldi hjá Strætó eins og það er hverju sinni.