Tvær ályktanir frá aðalfundi

 Ályktanir sem aðalfundur samþykkti 13. maí 2023.  

1.   Ályktun – Máltækniáætlun –til framtíðar

Aðalfundur Blindrafélagsins haldinn 13. maí 2023.

Blindrafélagið fagnar mikilvægum áföngum innan Máltækniáætlunar 2018-2022 og skorar á stjórnvöld að halda vinnunni áfram og tryggja jafnt aðgengi að upplýsingatækni fyrir alla.

Frá árinu 2018 hefur staðið yfir máltækniáætlun með það að markmiði að tryggja stöðu íslenskunnar í hinu sístækkandi og síbreytilega tækniumhverfi. Sú vinna skiptir sköpum fyrir blinda og sjónskerta sem framar öðrum eru háðir aðgengi að stafrænum lausnum. Margt hefur áunnist og er aðgengi fatlaðs fólks að upplýsingum verulega bætt eftir þetta mikilvæga starf. En það er nauðsynlegt að halda þessari vinnu áfram, til þess að halda í við tækniþróunina og tryggja enn frekar aðgengi að nýrri tækni. Annars er hætt við að sú kunnátta og þekking sem orðið hefur til glatist og verði til þess að skerða tækifæri okkar til framtíðar.2. Ályktun – Hamrahlíð 17 – þjónustukjarni.

Aðalfundur Blindrafélagsins haldinn 13. maí 2023.

Aðalfundur Blindrafélagsins, haldinn 13. maí 2023, fagnar þeim auknu möguleikum sem yfirstandandi stækkun Hamrahlíðar 17 hefur í för með sér.

Fundurinn hvetur félags- og vinnumarkaðsráðherra til að tryggja Sjónstöðinni aðsetur á nýju hæðinni, þannig að starfsemin geti flutt sig um set í nýja og sérhannaða aðstöðu. Jafnframt hvetur fundurinn Menningar- og viðskiptaráðherra til að standa vörð um Hljóðbókasafn Íslands og tryggja safninu framtíðarhúsnæði í Hamrahlíð 17.

Aukið þjónusturými er til þess fallið að efla og styrkja bráðnauðsynlega þjónustu og endurhæfingu sem blint og sjónskert fólk sækir í húsið. Auk þess sem vinnuaðstaða starfsfólks mun batna til muna í sérinnréttuðu húsnæði.

Hamrahlíð 17 hefur um áratugaskeið verið miðstöð þjónustu við blint- og sjónskert fólk á Íslandi sem þangað hefur sótt endurhæfingu, ráðleggingar, tækniráðgjöf og jafningjastuðning svo eitthvað sé nefnt.

Hamrahlíð 17 er einstakur þjónustukjarni í sinni röð þar sem mismunandi aðilar, hver á sínu sviði, mynda verðmætt samfélag grósku og samvinnu til heilla notendum þjónustunnar. Félagsmenn Blindrafélagsins leggja mikla áherslu á að svo verði áfram um ókomna tíð.