Veglegt framlag í sjóðinn Blind börn á Íslandi.

Á myndinni eru: Gunnar Jóhannesson, formaður Lionsklúbbs Reykjavíkur ásamt stjórn klúbbsins og Sigþór U. Hallfreðsson formaður Blindrafélagsins.

Á myndinni eru Gunnar Jóhannesson, formaður Lionsklúbbs Reykjavíkur ásamt stjórn klúbbsins og Sigþór U. Hallfreðsson formaður Blindrafélagsins.

Lions klúbbur Reykjavíkur hefur árum saman styrkt ýmis góð málefni í sínu nærsamfélagi. Í vor völdu klúbbsfélagarnir að beina athyglinni að blindum og sjónskertum börnum. Stjórn klúbbsins afhenti mánudaginn 27. maí sjóðnum Blind börn á Íslandi veglegan styrk að upphæð tvær miljónir króna. Af því tilefni var efnt til kaffisamsætis í sal Blindrafélagsins. Ávörp fluttu Marjakaisa Matthíasson sem sagði frá tilurð og starfsemi sjóðsins og helstu verkefnum sem hann hefur veitt styrki til, Gunnar Jóhannesson, formaður Lionsklúbbs Reykjavíkur sem afhenti styrkinn og Sigþór U. Hallfreðsson, formaður Blindrafélagsins, sem veitti styrknum viðtöku og þakkaði Lionsmönnum fyrir þetta veglega framlag í sjóðinn sem svo sannarlega munar mikið um. Gísli Helgason rifjaði upp að þetta er ekki í fyrsta skiptið sem Lionshreyfingin og Lionsklúbbur Reykjavíkur styður við blinda og sjónskerta. Að lokum spilaði ungur félagsmaður Theodór Kristinsson á píanó og heillaði alla viðstadda.

Sjóðurinn Blind börn á Íslandi veitir börnum allt að 18 ára aldri styrki til ýmissa málefna sem orðið getur þeim til aukins þroska og ánægju og opinberir aðilar styrkja foreldra ekki til að kaupa. Meðal annars hefur sjóðurinn styrkt kaup á sérsmíðuðum leiktækjum og leikföngum, hljóðfærum, tölvum og margskonar tómstundaiðkun sem hefur það að markmiði að efla færni og getu um leið og tækifæri gefst til að eiga góða stund með sínum jafningjum. Frekar upplýsingar um sjóðinn má finna á heima síðu Blindrafélagsins undir hlekknum Sjóðurinn Blind börn á Íslandi.