Fundargerð stjórnar nr. 1 2017-2018

Mættir: Sigþór U. Hallfreðsson (SUH) formaður, Lilja Sveinsdóttir (LS), Hjalti Sigurðsson (HS), Sigríður Hlín Jónsdóttir (SH) (Skype), Rúna Ósk Garðarsdóttir (RÓG) Guðmundur Rafn Bjarnason (GRB) varamaður,  Rósa Ragnarsdóttir (RR) varamaður, og Kristinn Halldór Einarsson (KHE) framkvæmdastjóri.

Fjarverandi: Elínborg Lárusdóttir (EL) varamaður.

1.  Fundarsetning, dagskrá og lýst eftir öðrum málum.

Formaður setti fundinn kl. 16:00 og bauð fundarmenn velkomna. Sérstaklega voru fjórir nýir stjórnarmenn boðnir velkomnir til stjórnarstarfa.

SUH bar upp tillögu að dagskrá, sem send hafði verið út með fundarboðinu. Var tillagan samþykkt samhljóða.

Lýst eftir öðrum málum:

2.  Afgreiðsla fundargerðar.

Fundargerð 20. fundar verður send stjórnarmönnum til samþykktar þar sem 4 af þeim sem sátu í fyrri stjórn sitja ekki í þessari.

3. Skýrslur.

Í skýrslu formanns var fjallað um:

        Aðalfundur Blindrafélagsins 6 maí.

        Umsögn Blindrafélagsins um þingsályktunartillögu um stefnu og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks 2017 til 2021.

        Hádegisspjall 17  maí.

        Frumsýning myndbanda ÖBÍ.

        Biðskýli Strætó b.s. við Hamrahlíð 17.

        Af norrænu samstarfi.

        Af vettvangi EBU.

        Af vettvangi ÖBÍ.

Í skýrslu framkvæmdastjóra var fjallað um:

        Rekstraryfirlit samanborið við rekstraráætlun.

        Húsnæðismál.

        VISAL.

        Fjáraflanir.

        Ferðaþjónusta Blindrafélagsins.

4. Bréf og erindi.

Tilkynning um 6 nýja félaga, þar af ein skráning í foreldradeildina. Nöfn þeirra voru lesin upp og staðfesti stjórn félagsins félagsaðild þeirra.

5. Verkaskipting stjórnar.

Samkvæmt 10. grein laga Blindrafélagsins þá skal stjórn félagsins skipta með sér verkum. SUH gerði tillög um að Lilja Sveinsdóttir yrði varaformaður, Hjalti Sigurðsson ritari. Sigríður Hlín Jónsdóttir gjaldkeri og Rúna Garðarsdóttir meðstjórnandi. Var tillagan samþykkt samhljóða.

6. Umsagnir um þingmál.

SUH gerði grein fyrir tillögum að umsögn um Þingsályktunartillögu um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks 2017 – 2011 og tillögu að breytingu á lögum um Þjónustu og þekkingarmiðstöðinni fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga. Tillögurnar voru samþykktar samhljóða. En þær eru svohljóðandi:

Umsögn stjórnar Blindrafélagsins um tillögu til þingsályktunar um stefnu og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2017-2021, þskj. 567 - 434. mál.

Stjórn Blindrafélagsins hefur fjallað um tillögu til þingsályktunartillögu um stefnu og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2017 – 2021, þskj 567, 434 mál..

Þó  Blindrafélagið fagni tillögunni þá telur félagið mjög brýnt að bregðast við stórum  ágöllum á áætluninni svo ekki hljótist tjón af í þjónustu við blint og sjónskert fólk. Að því sögðu er margt gott við tillöguna og telja verður að verði hún samþykkt og nægjanlegt fjármagn tryggt svo hægt verði að framfylgja henni, að stjórnvöld stígi með því mikilvægt skref í átt að því að uppfylla þær skyldur sem ríkinu eru lagðar á herðar með samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem Ísland hefur fullgilt, þá sér félagið ástæðu til við að vara eindregið við nokkrum atriðum.  Samkvæmt samningnum er mismunun gagnvart fötluðu fólki bönnuð á öllum sviðum samfélagsins og í tillögunni kemur fram að leggja skuli áherslu á mannréttindi og bann við mismunun á grundvelli fötlunar. Að mati Blindrafélagsins ætti að lögfesta í stjórnarskrá bann við mismunun á grundvelli fötlunar á öllum sviðum samfélagsins.

Það sem  mun ráða úrslitum um hvort að markmið áætlunarinnar nái fram að ganga er hvort að nægt fjármagn fylgi þeim verkefnum sem í áætluninni eru.

Aðrar athugasemdir Blindrafélagsins felast í  ábendingum  sem snúa að þjónustu við blint og sjónskert fólk sem stjórnin telur mjög mikilvægt að tillit verði tekið til.

Þessi atriði snúa að:

1.   Hugmyndafræðinni að baki skipulags á mjög sérhæfðri þjónustu.

2.   Stafrænu aðgengi.

3.   Atvinnumál.

4.   Hjálpartæki.

5.   Aðgengi að menntun.

6.   Niðurlag.

Hugmyndafræðin að baki skipulags á mjög sérhæfðri þjónustu.

Við fyrstu sýn virðist sem að þörfin á að stytta biðlista um þjónustu Greiningastöðvar ríkisins séu grundvöllur þess hvernig þjónusta við aðra hópa, eins og til dæmis blinda og sjónskerta, skuli skipulögð. Í þessum efnum virðist byggt á þeirri hugmyndafræði að færa mjög sérhæfða þjónustu sem í dag er veitt miðlægt af sérhæfðum ríkisstofnunum yfir til sveitarfélaganna. Þetta hefur verið gert á norðurlöndum með þjónustu við blint og sjónskert fólk með þeim afleiðingum að þjónustan hefur versnað við þá sem ekki búa á þéttbýlustu stöðunum.

Í þessu samhengi vekur það athygli að engir fulltrúar Þjónustu og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga, Samskiptamiðstöðvar Íslands eða Heyrnar og talmeinastöðvar Íslands skuli hafa átt aðkomu að þessari vinnu. Allt eru þetta stofnanir sem að veita fólki með skynfatlanir mjög sérhæfða þjónustu sem ekki verður séð að hægt sé að færa yfir til sveitarfélaganna nema með þeim afleiðingum að þjónustan versni til mikilla muna.

Í upphafi árs 2009 varð bylting á Íslandi í þjónustu við blint og sjónskert fólk. Þá tók til starfa Þjónustu og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga (Miðstöðin). Allur undirbúningur að stofnun Miðstöðvarinnar var til mikillar fyrirmyndar og samráð við hagsmunaaðila var virkt og árangursríkt. Nú er svo komið að þegar að þjónustan við blint og sjónskert fólk á Íslandi er borin saman við þjónustuna á norðurlöndunum þá er þjónustan hér á landi þó nokkuð betri, að mati Blindrafélagsins. Þjónustunni hér á landi hefur farið mikið fram á meðan að þjónustunni hefur víða á norðurlöndum farið aftur. Þetta er hægt að mæla með tölum um atvinnuþátttöku og fjölda í framhalds- og háskólum. Að mati norrænu Blindrasamtakanna má rekja þessa þróun til þess að þjónustan við blinda og sjónskerta einstaklinga var færð frá því að vera miðlæg yfir í að vera á ábyrgð sveitarstjórna eða fylkja.

Stjórn Blindrafélagsins varar eindregið við því að sú miðlæga sérhæfða sérfræðiþjónusta sem Miðstöðin veitir blindu og sjónskertu fólki á öllum aldri, verði færð yfir til sveitarfélaga eða þjónustusvæða. Jafnframt er varað við því að fyrirkomulagi fjármögnunar þjónustunnar verði breytt. Það er að okkar mati alveg ljóst að verði slíkt gert mun það hafa í för með sér að þjónusta við blint og sjónskert fólk versnar til mikilla muna og farið yrði áratugi aftur í tímann. Afleiðingarnar myndu meðal annars verða minnkandi atvinnuþátttaka, minni möguleikar til mennta og almennt versnandi lífsgæði og töpuð sérfræðiþekking sem byggð hefur verið upp á undaförnum árum innan Miðstöðvarinnar. Það er mikilvægt að hafa í huga að fjöldi blindra og sjónskertra einstaklinga hér á landi er alls ekki nógu mikill til að einstök sveitarfélög eða þjónustusvæði geti byggt upp og viðhaldið nauðsynlegri sérfræðiþekkingu til að geta veitt viðunandi þjónustu á árangursríkan hátt fyrir blinda eða sjónskerta einstaklinga. Í þessu sambandi má benda á að í mörgum sveitarfélögum geta liðið mörg ár á milli þess sem þörf er á að þjónusta blindan eða sjónskertan einstakling.

Verði hætt að veita þessa þjónustu miðlægt, eins og nú er gert, þá mun slík breyting ganga gegn meginmarkmiðum þeirrar stefnu og framkvæmdaáætlunar sem hér er til umfjöllunar.   

Það er ekki þörf á að breyta eða laga það sem virkar mjög vel.

Sem dæmi má nefna: E.1. Aukin samþætting og betri undirbúningur við flutning á milli skólastiga. Þetta er verkefni sem að Þjónustu og þekkingarmiðstöðin fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga hefur sinnt með miklum ágætum og byggt upp verðmæta sérfræðikunnáttu. Ekki er minnst á Miðstöðina sem aðila sem komi að þessu verkefni.

Stafrænt aðgengi.

Stafrænt aðgengi er hvergi nefnt á nafn í aðgengiskafla þessarar tillögu. Stafrænt aðgengi er hinsvegar mjög mikilvægt blindu og sjónskertu fólki. Án þess á það litla möguleika á að vera virkir samfélagsþegnar. Ef stafrænt aðgengi að upplýsingum er hins vegar í lagi þá eru því flestir vegir færir. Blindrafélagið telur mikilvægt að inn í aðgengishlutann verði bætt sérstökum kafla um stafrænt aðgengi. Nægur efniviður er til staðar til að vinna úr m.a:

        Aðgengisstefna Ríkisstjórnar Íslands fyrir opinbera vefi til að tryggja aðgengi m.a. fyrir blinda sjónskerta og aðra sem þurfa að nota hjálpartæki við lestur efnis og notkun vefja almennt frá því í maí 2012. . (Opnast í nýjum vafraglugga)

        Tilskipun Evrópusambandsins frá 26.10.2016 um aðgengi að vefsvæðum og smáforritum fyrir snjallsíma og spjaldtölvur. Sjá hér. (Opnast í nýjum vafraglugga)

Atvinnumál.

Í kafla B1 er talað um ráðgjöf vegna starfsfólks með fötlun og ábyrgð Vinnumálastofnunar. Þarna vanta samráð við sérhæfðar stofnanir eins og Þjónustu og þekkingarmiðstöðina fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga.

Í kafla B4 er talað um aðgang að hjálpartækjum vegna atvinnu. Við fögnum þessari tillögu en sjáum ekki fyrir okkur hvernig Sjúkratryggingar Íslands eiga að gefa ráðgjöf um tækni og tæki fyrir blinda. Sérhæfingin er einfaldlega of mikil og verkefnið er á góðum stað hjá Þjónustu og þekkingarmiðstöðinni fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga.

Þróun þjónustu.

Kafli G7 um hjálpartæki vekur sérstaka athygli þar sem það er okkar skilningur að þessi tillaga feli í sér að það eigi að úthýsa hjálpartækjaumsóknum og afgreiðslum til Sjúkratrygginga, sveitarfélaga og heilsugæslustöðva. Þetta er þróun sem við teljum afar óheppilega og útvatna þekkingu og þjónustu á mjög sérhæfðri tækni og tækjum.

Aðgengi að menntun.

Blindrafélagið vekur athygli á að um leið og það er mjög mikilvægt  að huga að uppbyggingu fjölbreyttara náms, á bæði framhalds og háskólastigi, sem hentar fötluðu fólki, þá má ekki missa sjónar á mikilvægi þess að það nám sem nú þegar er til staðar sé aðgengilegt fötluðu fólki. Margir fatlaðir einstaklingar er þess fullfærir að klára flest af því námi sem í dag er boðið uppá í íslensku menntakerfi ef viðvarandi aðgengishindrunum er rutt úr vegi.

Niðurlag

Stjórn Blindrafélagsins er þeirrar skoðunar að verði þessum tillögum hrint í framkvæmd óbreyttum og hin sérhæfða þjónusta sem veitt er af Þjónustu og þekkingarmiðstöðinni, fyrir blinda sjónskerta og daufblinda einstaklinga, verði færð frá ríki til sveitarfélaga, þá muni þessar tillögur valda miklum skaða og skerða til mikilla muna lífsgæði blinds og sjónskerts fólks auk þess sem að dýrmæt fagþekking mun tapast.

Blindrafélagið lýsir sig reiðubúið til samtals um þessar athugasemdir.

Umsögn Blindrafélagsins  um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 160/2008, um Þjónustu og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga (endurgreiðsla vegna gleraugnakaupa barna). Þingskjal nr. 483, þingmál nr. 361.

Stjórn Blindrafélagsins tekur heilshugar undir umsögn Þjónustu og þekkingarmiðstöðvarinnar fyrir binda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga og gerir þá umsögn að sinni.

Umsögn Þjónustu og þekkingarmiðstöðvarinnar fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga:

„Ofangreint frumvarp tekur til breytinga á 4. gr. laga nr. 160/2008 sem fjallar um verkefni og starfssvið Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga, en samkvæmt lögunum eru endurgreiðslur vegna gleraugnakaupa ekki skilgreindar sem verkefni stofnunarinnar. Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga hefur aftur á móti frá því stofnunin hóf störf, 1. janúar 2009, séð um framkvæmd á endurgreiðslum vegna gleraugnakaupa í samræmi við reglugerð nr. 1155 frá 2005. Samkvæmt reglugerðinni eiga öll börn á aldrinum 0-18 ára rétt á endurgreiðslu vegna gleraugnakaupa og einnig eru undantekningarákvæði sem heimila endurgreiðslur til einstaklinga 18 ára og eldri.

Samkvæmt frumvarpinu yrðu reglur um greiðsluþátttöku ríkisins rýmkaðar töluvert, sem felur bæði í sér að börn frá 4 ára til 18 ára geta sótt oftar um styrk, samanborið við ofangreinda reglugerð, og einnig að styrkupphæð fyrir öll börn 0-18 ára hækki. Miðað við fjölda umsókna 2014 og 2015 hefðu 3600 börn á aldrinum 4-18 átt rétt á því að sækja aftur um endurgreiðslu samkvæmt frumvarpinu, umfram þann fjölda sem sótti um styrk 2015.

Hvað varðar útreikning á styrkupphæðum samkvæmt frumvarpinu, þá er lagt til að greiðsluþátttaka ríkisins verði 75% af tilboðsverði á sjónglerjum og gleraugnaumgjörðum. Tilboðsverð skal fengið með því að fá tilboð hjá gleraugnasölum og skal miðast við lægsta tilboðsverð. Ef þessi leið yrði farin myndi styrkupphæð fyrir sjónglerin mjög líklega hækka og þar sem greiddur yrði einnig 75% styrkur fyrir kaupum á gleraugnaumgjörðum, sem ekki hefur verið gert áður, myndi sú upphæð alltaf vera til hækkunar á heildarstyrk. Einnig skal bent á að ef sú leið yrði farin sem frumvarpið leggur til yrði að bæta við stöðugildi til að afgreiða umsóknir og fá tilboð árlega frá gleraugnasölum.

Meðalfjöldi endurgreiðslna frá 2005-2015 er um 4000 á ári. Miðað við tillögur sem fram koma í frumvarpinu, og áætlað er hér að ofan, er hægt að áætla að við bætist 3600 umsóknir um endurgreiðslur á ári, eða samtals áætlað 7600 umsóknir á ári. Samkvæmt frumvarpinu á upphæð á styrk að miðast við tilboðsverð sem liggur ekki fyrir á þessum tímapunkti. Í þeirri viðleitni að reyna að áætla árlegan kostnað við endurgreiðslur vegna gleraugnakaupa samkvæmt tillögum frumvarpsins, og þeim gögnum sem liggja fyrir í dag um meðalverð á glerjum og umgjörðum sem berast með umsóknum, væri hægt að áætla að gler og umgjarðir kosti kr. 35.000. Við bendum á að val á umgjörðum er alltaf persónulegt og ákvörðun einstaklings um hversu mikið viðkomandi er tilbúin að greiða fyrir slík kaup.

Að framansögðu, og miðað við að meðalverð gleraugna sé kr. 35.000, þá væri hver styrkur um kr. 26.000 (75% af heildarupphæð) og ef miðað er við að fjöldi umsókna væri 7600 á ári, færu útgjöld ríkisins vegna endurgreiðslna úr u.þ.b. 30 milljónum á ári í u.þ.b. 197 milljónir á ári. Einnig skal tekið fram að ofan á þann kostnað myndi einnig leggjast kostnaður við auka stöðugildi til að afgreiða umsóknir og fá tilboð árlega frá gleraugnasölum. Að auki er ofangreind áætlun miðuð við fjölda umsókna sl. ára og það mætti jafnvel gera ráð fyrir því að fleiri myndu sækja um ef að greiðsluþátttaka ríkisins myndi aukast þetta mikið.

Þegar horft er til hvert hlutverk stofnunarinnar og markmið hennar eru þá er það vel skilgreint í lögunum sem þjónusta við blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu á sviði ráðgjafar, hæfingar og endurhæfingar. Að gera þá breytingu sem lagt er til að gert sé með þessu frumvarpi er ekki í samræmi við það hlutverk og þau markmið.

Einnig mætti velta því upp að ef að það yrði gerð breyting á núverandi reglugerð eða endurgreiðslur vegna gleraugnakaupa yrðu settar í lög með þessum hætti, þá ætti frekar að líta til hlutverks Sjúkratrygginga Íslands, en samkvæmt lögum nr. 112/2008 um stofnunina, þá er það m.a. hlutverk hennar að endurgreiða börnum vegna tannlæknakostnaðar og líta mætti á að greiðslur vegna gleraugnakaupa séu sambærilegar.“

Niðurstaða
Blindrafélagið leggst  gegn þessari lagabreytingatillögu á 4 gr. laga nr. 160/2008 sem fjallar um verkefni og starfssvið Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga. 
6. Starfsáætlun stjórnar.

SUH lagði fram eftirfarandi tillögu að starfsáætlun fram að hausti

11. maí (fimmtudagur).   Stjórnarfundur nr. 1.
17. maí (miðvikudagur)   Hádegisspjall (Punktaletur).
31. maí (miðvikudagur).  Stjórnarfundur nr. 2.
21. júní (miðvikudagur).  Stjórnarfundur nr. 3.

7. Rekstraryfirlit fyrir fyrsta ársfjórðung 2017.

KHE kynnti rekstrarafkomu fyrstu 3 mánuði ársins. Tekjur af starfsemi félagsins eru 59,4 milljónir króna sem er 8,3% yfir áætlun. Fyrir sama tímabil 2016 voru heildartekjur 57,3 milljónir króna. Heildarrekstrargjöld eru uppá 51,4 milljónir króna sem er 5,5% undir áætlun. Fyrir sama tímabil 2016 voru heildarrekstrargjöld 63,2 milljónir króna. Rekstrarhagnaður tímabilsins er að fjármagnsliðum meðtöldum 7,4 milljónir króna.

Frekari sundurliðun er í sérstöku yfirliti sem sent er út með fundargögnum.

Stjórnarmenn lýstu ánægju með rekstrarafkomuna.

8. Viðhaldsframkvæmdir -  - Ástandsmat Hamrahlíð 17.

SUH gerði grein fyrir tilurð ástandsskýrslu og frumkostnaðaráætlun á viðhaldi á Hamrahlíð 17 sem VSB verkfræðistofa gerði fyrir félagið. Kostnaðaráætlunin hljóðar upp á 140 m.kr. Málið mun verða tekið fyrir aftur á stjórnarfundi og þá jafnvel með verkfræðingnum og Kristmundi húsasmíðameistara.

9.  Aðalfundur TMF – Tölvumiðstöðvar fatlaðra.

SUH lagði til að Baldur Snær Sigurðsson, sem aðalmaður og Rósa María Hjörvar, sem varamaður, yrðu skipuð áfram sem fulltrúar Blindrafélagsins í stjórn TMF og myndu mæta á aðalfundi TMF. Var tillagan samþykkt samhljóða.

10. Siðareglur stjórnar.

SUH las upp eftirfarandi siðareglur kjörinna fulltrúa Blindrafélagsins, sem voru svo staðfestar samhljóða og athugasemdalaust  af stjórninni. Siðareglurnar eru svohljóðandi:

Siðareglur kjörinna fulltrúa Blindrafélagsins.

Blindrafélagið, samtök blindra og sjónskertra á Íslandi.

Gildi Blindrafélagsins.

Jafnrétti.

Eykur þátttöku og færir með sér gæfu.

Sjálfstæði.

Stuðlar að virkni og ábyrgð.

Virðing.

Elur af sér viðurkenningu og réttsýni.

Umburðalyndi.

Stuðlar að fjölbreytileika og víðsýni.

Siðareglur kjörinna fulltrúa.

1. gr.

Markmið siðareglna.

Markmið þessara siðareglna er að skilgreina það hátterni og viðmót sem stjórn Blindrafélagsins ber að sýna af sér við störf sín fyrir hönd félagsins og upplýsa félagsmenn og aðra um kröfurnar sem gerðar eru til þeirra. Siðareglurnar gilda einnig um þá sem kjörnir eru til setu í nefndum eða til annarra ábyrgðarstarfa hjá Blindrafélaginu.

2. gr.

Lög og reglur.

Stjórnarmenn skulu í störfum sínum fylgja lögum, reglugerðum og samþykktum Blindrafélagsins, sem og sannfæringu sinni. Þeim ber að gæta hagsmuna Blindrafélagsins og að setja almenna hagsmuni ofar sérhagsmunum, hvort heldur er sínum eigin, annarra einstaklinga eða einstakra hópa.

3. gr.

Góðir stjórnhættir.

Stjórnarmenn skulu ávallt hafa í heiðri grundvallaratriði góðrar stjórnunarhátta í störfum sínum, þ.m.t. gagnsæja, upplýsta og málefnalega ákvarðanatöku og framkvæma ekkert það sem er til þess fallið að vekja grunsemdir um að annað en lögmæt og málefnaleg sjónarmið ráði för við stjórn félagsins.

Stjórnarmönnum ber að sinna verkefnum sínum af trúmennsku og haga störfum sínum og málflutningi á þann veg að verkefni sem eru til úrlausnar innan stjórnar nái framgangi án óþarfa tafa.

Stjórnarmenn upplýsa eins og kostur er félagsmenn um störf sín og annað sem skiptir máli í rekstri Blindrafélagsins.

4. gr.

Umboð og háttvísi.

Stjórnarmenn skulu koma fram af háttvísi og gæta þess að fara ekki út fyrir umboð sitt í störfum sínum og virða verkaskiptingu í stjórnkerfi Blindrafélagsins og hlutverk starfsmanna félagsins. Þeir mega ekki hlutast til um að starfsmenn aðhafist nokkuð sem hefur þann tilgang að verða stjórnarmanni til hagsmunalegs ávinnings, né heldur aðila nátengdum honum eða ákveðnum hópum eða fyrirtækjum.

Stjórnarmenn sýna hver öðrum, félagsmönnum, viðskiptavinum og starfsmönnum félagsins fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu.

5. gr.

Misbeiting valds.

Stjórnarmenn mega ekki beita réttindum eða aðstöðu sem fylgir stjórnarsetunni í þágu einkahagsmuna sinna eða annarra í því skyni að geta notið beinna eða óbeinna persónulegra hagsbóta. Einnig skulu þeir gæta þess að nýta sér ekki óopinberar upplýsingar til að hagnast á þeim persónulega eða hjálpa öðrum að gera það.

6. gr.

Trúnaður og virðing.

Stjórnarmenn gæta þagmælsku um málefni sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og gæta ber trúnaðar um, vegna einkahagsmuna eða almannahagsmuna samkvæmt lögum og eðli máls. Trúnaðarskylda helst eftir að kjörtíma lýkur.

Stjórnarmönnum ber jafnframt að virða trúnað um ummæli einstakra fundarmanna á lokuðum fundum stjórnar Blindrafélagsins sem og um innihald skjala eða annarra gagna, sem þeir fá aðgang að og trúnaður skal vera um.

Stjórnarmenn virða einkalíf og sjálfsákvörðunarrétt þeirra sem til stjórnar leita með sín málefni með þagmælsku um persónulega hagi þeirra og með því að upplýsa þá eftir bestu getu um möguleg úrræði.

7. gr.

Ábyrg meðferð fjármuna og ráðsmennska.

Stjórnarmönnum ber að gera og virða fjárhagsáætlun Blindrafélagsins og sýna ráðdeild við meðferð fjármuna og eigna félagsins.

8. gr.

Stöðuveitingar.

Stjórnarmenn gæta þess þegar þeir koma sjálfir að ákvörðun um val á starfsmönnum, að leggja til grundvalla faglegar forsendur og hæfni til að rækja starfið og að hæfasti umsækjandinn hljóti starfið.

9. gr.

Hagsmunaárekstrar/hæfi.

Stjórnarmenn nýta sér ekki stöðu sína í þágu einkahagsmuna sinna, eða annarra sem þeim eru tengdir, hvort sem ávinningur af slíku kemur fram strax eða síðar, þ.m.t. eftir að störfum fyrir Blindrafélagið lýkur. Stjórnarmenn skulu forðast hagsmunaárekstra í störfum sínum. Ef stjórnarmaður á beinna eða óbeinna persónulegra hagsmuna að gæta í máli sem kemur til umfjöllunar skal hann gera grein fyrir þeim og ef vafi leikur á hæfi hans eru greidd atkvæði um það. Um hæfi stjórnarmanna við meðferð einstakra mála er farið eftir 15. gr.laga Blindrafélagsins.

10. gr.

Gjafir og fríðindi.

Stjórnarmenn þiggja ekki gjafir eða önnur fríðindi frá félagsmönnum og viðskiptavinum Blindrafélagsins, eða þeim sem leita eftir verkefnum eða þjónustu félagsins, þannig að túlka megi þær sem persónulega þóknun eða greiða fyrir ákvarðanir á vegum stjórnar eða nefnda/ráða.

11. gr.

Málsmeðferð vegna ætlaðs brots.

Komi fram ábending eða grunur um að kjörinn fulltrúi hafi brotið siðareglurnar tekur stjórn málið til umfjöllunar. Telji stjórn að um brot sé að ræða getur hún samþykkt að ávíta viðkomandi fyrir brotið.

Við málsmeðferð skal þess gætt að virða andmælarétt og leita sátta. Telji stjórn sér ekki fært að skera úr um málið getur hún leitað utanaðkomandi sérfræðiaðstoðar.

Stjórnarmanni ber að taka hagsmuni og orðstír Blindrafélagsins fram fyrir sína eigin og draga sig í hlé frá stjórnarstörfum á meðan mál er til rannsóknar ef um alvarleg brot á siðareglum er að ræða og eins ef hann sæti opinberri rannsókn vegna alvarlegs lögbrots.

12. gr.

Endurskoðun og miðlun siðareglna.

Siðareglur þessar skulu teknar til umræðu í stjórn Blindrafélagsins við upphaf kjörtímabils hverra stjórnar og endurskoðaðar ef þörf þykir á.

Stjórnarmönnum ber að undirgangast og tileinka sér siðareglurnar og staðfesta með samþykki sínu að þeir ætli að hafa þær að leiðarljósi.

Siðareglunar eru birtar á heimasíðu félagsins www.blind.is og í vefvarpi Blindrafélagsins.

11.  Önnur mál.

SUH sagði frá því að Huld Magnúsdóttir væri að láta af störfum sem forstjóri Þjónustu og þekkingarmiðstöðvarinnar fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga. Lagði SUH til að Blindrafélagið héldi Huld kveðjuhóf og veitti henni Gulllampa Blindrafélagsins. Var tillagan samþykkt samhljóða og einnig af EL, sem var fjarverandi en formaður hringdi í hana. Var SUH og KHE falið að skrifa rökstuðning fyrir Gulllampaveitingunni.

Fundi slitið kl 17:50.

Fundargerð ritaði Kristinn Halldór Einarsson.