Fundargerð stjórnar nr. 19 2019-2020

Fundargerð 19. stjórnarfundar Blindrafélagsins, starfsárið 2019 – 2020, haldinn þriðjudaginn 16. Júní 2020 kl. 16:00.

Mættir: Sigþór U. Hallfreðsson (SUH) formaður, Lilja Sveinsdóttir (LS) varaformaður, Kaisu Hynninen (KH) ritari, , Eyþór Kamban Þrastarson (EKÞ) gjaldkeri, Guðmundur Rafn Bjarnason (GRB) varamaður, tekur sæti HÞA sem aðalmaður, Dagný Kristmannsdóttir (DK) varamaður, Rósa Ragnarsdóttir (RR) varamaður, Þórarinn Þórhallsson (ÞÞ) varamaður, Kristinn Halldór Einarsson (KHE) framkvæmdastjóri.

Forföll: Hlynur Þór Agnarsson (HÞA)

Gestur fundarins var Björg Anna Kristinsdóttir lögfræðingur hjá KPMG og sérfræðingur í aðgerðum gegn peningaþvætti.

1. Fundarsetning.

SUH setti fundinn og bar upp tillögu að dagskrá, sem send hafði verið út með fundarboðinu. Var tillagan samþykkt.

2. Afgreiðsla fundargerðar.

Fundargerð  18. fundar, sem send var stjórnarmönnum strax eftir fundinn og einnig  fyrir þennan fund, var samþykkt samhljóða.

3. Lýst eftir öðrum málum.

Engin önnur mál boðuð.

4. Skýrslur, bréf og erindi.

Í skýrslu formanns var fjallað um:

  • Aðalfundur TMF.
  • Málefni Þjónustu og Þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón og heyrnarskerðingu.         
  • Rafskútuleigur (rafhlaupahjól).
  • Aðalfundur ÖBÍ .
  • Mikilvægar dagsetningar.  

 Í skýrslu framkvæmdastjóra var fjallað um:

  • Endurfjármögnun lána.
  • Ferðaþjónusta.
  • Áhættumat vegna aðgerða gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
  • Laugavegsganga Heljarmennafélagsins.
  • RIWC 2020.
  • Ritgerð um arfgerð Íslendinga með arfgenga hrörnunarsjúkdóma í sjónhimnu.
  • Styrkur frá Novartis.

Laugavegsganga Ferðanefndar/Heljarmennafélagsins

KHE gerði grein fyrir að vegna þess hversu brátt þessa ferð bar að þá hefði hann talið rétt að leggja málið fyrir stjórn. Það væri ekki venjan að fara með þesskonar mál inn á stjórnarfund þar sem að öllu jöfnu væri gert ráð fyrir að viðburðir sem þessir rúmuðust innan fjárhagsáætlunar.

Fjárhagsáætlun og lýsing á fyrirkomulagi ferðarinnar hafði verið send stjórnarmönnum fyrir fundinn. Varðandi frekari upplýsingar vísast í skýrslu framkvæmdastjóra.

LS óskaði eftir því að forsvarsmenn ferðanefndar félagsins og skipuleggjendur ferðarinnar, KHE og RR, vikju af fundi á meðan fjallað væri um málið. Var orðið við því 

Stjórn samþykkti samhljóða að styrkja Laugavegsgönguna um allt að 600 þúsund krónur. Styrkurinn, sem nemur um helming af kostnaði, á að dekka kostnað vegna rútu, leiðsagnar og aðstoðarmanna.

SUH lýsi sérstakri ánægju sinni með verkefnið og hvatti til þess að rými til að skipuleggja viðburði með skömmum fyrirvara yrði ekki þrengt að ósekju.   

 

5. Áhættumat vegna aðgerða gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Samkvæmt lögum nr. 140/2018, um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka („lögin“), er áhættumat grundvöllur að aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Blindrafélagið, samtök blindra og sjónskertra, er tilkynningaskyldur aðili skv. s-lið 2. gr. laganna. Því þarf að meta áhættu félagsins með hliðsjón af stærð, eðli og umfangi rekstursins en skv. lögunum ber þeim sem hlotið hafa starfsleyfi á grundvelli laga nr. 38/2005 um happdrætti eða leyfi til fjársafnana samkvæmt lögum nr. 5/1977 um opinberar fjársafnanir að ljúka við slíka skjölun og skráningu.

Stjórn Blindrafélagsins samþykkti á fundi sínum þann 27 nóvember að fá Björg Önnu  Kristinsdóttir hjá KPMG til að taka saman áhættumat vegna aðgerða gegn  peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka fyrir Blindrafélagið.

Björg Anna var mætt á fundinn með matið sem að stjórnarmeðlimir höfðu fengið send drög að.    

Í megin niðurstöðum áhættumatsins segir:
Blindrafélagið hefur með gerð þessa áhættumats lagt mat á áhættu í rekstri sínum og viðskiptum í tengslum við peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Áhættumatið tekur til vöru, þjónustu, viðskiptavina, dreifileiða og tækni og landfræðilegs markaðar.

Áhættumatið er byggt á þekkingu og reynslu lykilstarfsmanna og stjórnenda félagsins, gögnum og upplýsingum frá félaginu um starfsemi þess og ýmsum ytri gögnum og upplýsingum um peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Einnig liggja til grundvallar verklagsreglur og annað efni í tengslum við miklar kröfur um gagnsæi og óhæði.

Blindrafélagið er meðvitað um kröfur sem gerðar eru til félagsins í tengslum við aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, en þær hafa aukist töluvert, meðal annars með tilkomu 4. og 5. Evróputilskipananna og nýrrar íslenskrar löggjafar. Einnig er í áhættumati þessu litið til athugasemda framkvæmdahóps um aðgerðir, s.n. FATF hóps, en Ísland er nú komið á lista yfir s.n. áhættusamar þjóðir. Slíkt getur valdið því að í samskiptum við erlenda aðila þarf félagið að skila meiri upplýsingum og gögnum með vísan í kröfu um framkvæmd aukinnar áreiðanleikakönnunar.

Sýn Blindrafélagsins á það hvaða gagna og upplýsinga þarf að afla í tengslum við áreiðanleikakannanir á viðskiptavinum hefur skýrst töluvert, m.a. við gerð áhættumatsins. Í framhaldinu mun félagið endurskoða allar helstu eftirlitsaðgerðir, s.s. reglubundið eftirlit, formleg hlutverk og þjálfun starfsmanna, með það að markmiði að tryggja fullt samræmi við áhættumatið.

Varðandi frekari upplýsingar þá vísast í skýrsluna.

Að lokinni kynningu og umræðum þar sem Björg Anna fjallað var um eftirfarandi þætti:

  • hvað er peningaþvætti og áhættuþættir þess,
  • vinnuna fyrir Blindrafélagið,
  • stefnu félagsins
  • áhættumat og verklagsreglur,

Samþykkti stjórnin stefnuna og verklagsreglurnar samhljóða.

Stefnan og verklagsreglur verða nú kynntar fyrir starfsfólki félagsins.

6. Endurfjármögnun langtímalána.

Framkvæmdastjóri lagi til að stjórn félagsins samþykki að ganga að tilboði Landsbankans um að taka 80 milljón króna lán til að greiða upp lánin sem félagið er með hjá HMS, sem nú standa í rétt tæpum 74 milljónum króna og mismunurinn, um 6 milljónum króna verði settir inn í verkefnasjóð til að mæta viðhaldsframkvæmdum við Hamrahlíð 17. Varðandi frekari rökstuðning vísast í skýrslu framkvæmdastjóra.

Var tillagan samþykkt samhljóða.  

7. Aðalfundur ÖBÍ.

SUH lýsti eftir hverjir hefðu áhuga á að sitja aðalfund ÖBÍ. Eftirtaldir lýstu yfir áhuga SUH, KH, GRB  EKÞ, LS, RR og Halldór Sævar. Að auki verði Baldri Snæ og Rúnu Ósk boðið að sitja fundinn. Var formanni falið að raða niður fulltrúum félagsins og tilnefna þá til ÖBÍ

8. Aðalfundur Blindrafélagsins.

SUH gerði það að tillögu sinni að öllu óbreyttu yrði aðalfundur Blindrafélagsins haldinn 12 september. Fundurinn verði boðaður 4 vikum fyrr sem er 14 ágúst. Var tillagan samþykkt með fyrirvara um stöðu sóttvarna.

9. Önnur mál.

EKÞ vakti athygli á mikilvægi íslensku kennslu fyrir félagsmenn af erlendu bergi brotnu. Samþykkt var að leita eftir samstarfi við ÞÞM um slíkt námskeiðshald.

 

Fundi slitið kl. 18:25.

Fundargerð ritaði Kristinn Halldór Einarsson.