Klassíski tónlistaklúbburinn - Brúðkaup Fígarós

Föstudaginn 18 október mun hinn nýstofnaði klassíski tónlistaklúbbur Blindrafélagsins, standa fyrir sínum fyrsta viðburði, hópferð á hina óborganlegu gamanóperu Brúðkaup Fígarós eftir meistara Mozart.

Blindrafélagið hefur tryggt 20 miða á sýninguna og mun miðum verða deilt út, fyrstir koma fyrstir fá. Ef þátttaka verður mjög góð mun verða reynt að fá fleiri miða. Miðaverð er 6000 krónur.

Leggja skal inn pöntun fyrir miðum í afgreiðslu Blindrafélagsins, á afgreidsla@blind.is eða í síma 525 0000.

Sýningin hefst kl 19:30. Klukkan 18;00 mun verða efnt til kynningar á óperunni í Hamrahlíð 17. Þar mun Dagbjört Andrésdóttir söngkona – og félagsmaður, kynna óperuna og jafnvel taka eina eða tvær aríur.

Óperan er byggð á gamanleikriti Beaumarchais og er full af fyndnum uppákomum, misskilningi og óvæntum uppljóstrunum. Verkið hefur engu að síður alvarlegan undirtón og felur í sér leiftrandi ádeilu á samskipti yfirstéttar og alþýðu.

Sagan gerist í kastala Almaviva greifa, í nágrenni Sevilla. Hinn kvensami greifi rennir hýru auga til Súsönnu, sem er þjónustustúlka eiginkonu hans. Daginn sem Súsanna á að giftast Fígaró hyggst greifinn nýta sér aldagamlan herrarétt til að sænga hjá henni. Greifafrúin og Súsanna taka höndum saman um að leika á greifann, og klækjabrögð þeirra hafa ýmsar kostulegar afleiðingar.

Ópera um ást, hjónaband, stéttaskiptingu og forréttindi, í nýrri og bráðskemmtilegri uppfærslu.